12.01.1943
Neðri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

4. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Allshn. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu frv. Efni frv. er aðallega um héraðabönn, þannig að þeim útsölustöðum áfengis, sem þegar eru til, megi loka með meiri hl. samþ. Frv., svipað þessu, lá fyrir Alþ. 1939. Allshn. sendi það til utanríkisráðuneytisins, sem lét í ljós þá skoðun, að ákvæði þess riðu í bága við gildandi samning við Spán og Portúgal. Allshn. var þá sammála um að afgreiða frv. með rökst. dagskrá, þar sem vitnað var til álits utanríkisráðuneytisins. Í n. áttu sæti bæði bannmenn og andbanningar, en það þótti ótækt að samþ. l., sem færu í bág við gildandi milliríkjasamninga. N. sendi frv. aftur nú til ráðuneytisins. Svar barst, þar sem það tjáir sig sömu skoðunar og 1935, að ákvæði frv. komi í bág við samninginn. Minni hl. allshn., hv. 2. þm. Eyf. og ég, viljum afgreiða frv. á sama hátt og 1939. Ég vil taka það fram, af því að nál. 137 lá ekki fyrir í n., að þeir, sem að því standa, voru þá ekki á eitt sáttir, en hafa nú brætt sig saman og gefið út nál. Ég vil líka taka það fram, að ég mundi ekki hafa fallizt á þá afgreiðslu, því að mér finnst óviðkunnanlegt, að Alþ. samþ. frv., sem er brot á milliríkjasamningum. Í annan stað er málið með áliti meiri hl. komið á þann rekspöl, að menn þurfa að gera sér grein fyrir, hvort á að segja upp samningnum eða ekki, og því hefði verið æskilegt, að utanríkisráðherra hefði verið viðstaddur. Það, sem við verðum fyrst og fremst að gera upp við okkur í sambandi við nál. 137, er það, hvort heppilegt sé að segja upp samningnum. Hv. frsm. meiri hl. lét orð falla um það, að síðan borgarastyrjöldin var á Spáni, hafi engin viðskipti farið fram milli Íslands annars vegar og Spánar og Portúgals hinsvegar. Verzlunarskýrslur eru ekki til nýrri en frá 1940; en á því ári, mörgum árum eftir að borgarastyrjöldinni lauk, var útflutningur til Spánar frá Íslandi fyrir 6 millj., en til Portúgal fyrir 5,7 millj. Nýrri skýrslur liggja ekki fyrir, en hagstofan upplýsir, að töluverður útflutningur hafi verið bæði 1941 og 1942, en innflutningurinn nam samkv. verzlunarskýrslum 1940 1,9 millj. kr., og enn var nokkur innflutningur 1941 og 1942. Ísland nýtur beztu kjara um útflutning til þessara landa.

Ég er ekki svo verzlunarfróður, að ég geti fullyrt, hvort rétt sé að segja upp þessum samningum, en ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðh., hvort þetta atriði hefur verið athugað sérstaklega, og hvort hann vill segja álit sitt á þessu máli, því að eins og ég sagði áðan, liggur það ekki fyrst og fremst fyrir, hverjum augum hv. d. lítur á héraðabönnin, heldur hvort rétt sé að segja upp milliríkjasamningunum við Spán og Portúgal.