14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

4. mál, áfengislög

Sigfús Sigurhjartarson:

Meiri hluti háttv. allshn. hefur lagt til, að frv. það, sem hér liggur fyrir, verði samþ. með nokkrum breyt. Þessar breyt. eru bæði forms- og efnisbreyt. Um formsbreyt. er ekki nema gott eitt að segja. Þær miða allar að því að gera þá hugsun, sem í frv. felst, ótvíræðari.

Það eru tvær efnisbreyt., sem hér liggja fyrir. Í nál. er ráð fyrir því gert, að einfaldur meiri hluti atkv. í héruðum og kaupstöðum ráði um opnun eða lokun á útsölustöðum áfengis í stað þess, að samkv. núgildandi l. þarf 3/5 atkv. til að opna. En hins vegar þarf, samkv. núgildandi l., aðeins einfaldan meiri hluta til að loka útsölustöðum áfengis. N. leggur því til, að þessu verði breytt á þann hátt, að einfaldur meiri hluti nægi til að opna útsölustaði eða loka þeim. Þessi breyt. er frá mínu sjónarmiði bæði eðlileg og til bóta. En meginbreyt. er fólgin í því, að lagt er til, að ríkisstjórnin skuli, ef frv. er samþ., gera ráðstafanir til að segja upp milliríkjasamningum þeim, sem l. þessi brjóta í bág við, og er hér átt við samningana við Spán og Portúgal.

Þá kemur í fyrsta lagi til athugunar, hvort frv. þetta muni valda, ef að l. verður, breyt. í sambandi við ýmis ákvæði í I. viðvíkjandi samningunum við Spán, þannig að ekki megi gera lagaákvæði hér á landi, sem geri samninginn í framkvæmd ógildan eða dragi mjög úr gagni hans. Það liggur í hlutarins eðli, að væru l. sett sem þessi, þá brýtur sú lagasetning á engan hátt í bág við samningana. Með Spánarsamningnum er leyft að selja hingað spönsk vín.

Frv. er um tvö atriði, og er hitt atriðið um það, hvenær nýjar áfengisútsölur megi setja á stofn eða loka þeim. Slík ákvæði geta ekki verið brot á samningnum. Annað mál er svo það, að þegar til framkvæmda kemur, gæti það orðið svo, að þau hefðu í för með sér algert afnám bannlaganna. Þetta yrði til þess, að svo og svo mörgum útsölum yrði lokað, e.t.v. öllum. Reynslan mundi skera úr því, hver afleiðing þessara l. yrði. Hvort þau yrðu til þess að draga úr gildi Spánarsamningsins, eða ekki. Lögin sjálf gera það ekki.

Það er rétt að minnast á, hvernig Spánarsamningurinn er til kominn. Þegar hann er gerður, eru bannlög hér á landi og fríðindin, sem Spánverjar fá með honum og Portúgalsmenn líka með sínum samningi, eru í því fólgin að gera þá undanþágu frá bannl. að selja létt vín þaðan hér í landinu, meðan bönnuð er sala annars áfengis. Árið 1935 eru bannl. svo numin úr gildi. Svo að hvort sem það leiðir af sjálfu sér eða ekki, þá er ekki lengur um að ræða undanþágu frá samningunum, og í raun og veru var að þessu leyti grundvellinum kippt undan Spánarsamningnum af Íslendinga hálfu með algerðu afnámi bannl. 1935.

Nú hef ég leitazt við að fá upplýsingar um það hjá áfengisverzlun ríkisins, hvernig þetta afnám hefur verkað á innflutning spanskra og portúgalskra vína. Og þá undarlegu sögu hef ég að segja, að það þykir mega staðhæfa, að afnám bannsins hafi verkað á þá lund, að innflutningur vína hafi minnkað mjög verulega, og innflutningur á vínum frá Spáni og Portúgal muni naumast vera til nú. Það mun vera búið að gera þær ráðstafanir frá Íslands hlið, sem draga úr gildi Spánarsamningsins, og það á miklu veigameiri hátt heldur en ætlazt er til með þessu frv.

Ég hef bent á það, að tímum saman hefur öllum útsölustöðum á Íslandi verið lokað. Það hafa að vísu verið tímabundnar ráðstafanir, en þær róttækustu ráðstafanir, sem hægt var að gera til þess að draga úr sölu spanskra vína, sem annara og þá um leið ganga gegn anda og bókstaf Spánarsamningsins. Nýlega hefur svo komið til skömmtunar áfengis, en enginn talar um það nú, að það skerði rétt Spánverja. Nú síðast er svo horfið frá skömmtuninni og undanþágur komnar í staðinn. Eru slíkar undanþágur í samræmi við Spánarsamninginn?

Ég held því fram, að frv., ef samþ. yrði, komi ekki í bág við samninginn við Spán, og ég álít að breyt. sé að öllu leyti óþörf. Það er vafamál, hvort samningurinn er í gildi. Við höfðum erindreka á Spáni, þegar ófriðurinn var þar, hrökklaðist hann þaðan. Hann var sendur þangað aftur síðar, og þá sem diplómatískur fulltrúi. Stjórnin í Madrid neitaði að veita honum viðtöku sem slíkum og neitaði að tala við hann. Sama sagan var í Lissabon. Stjórnirnar í þessum löndum álitu, að Danir færu með utanríkismál vor og kváðust þær mundu um þau hafa samband við utanríkisþjónustu Dana þar. En á þeim tíma var Ísland búið að lýsa yfir, að sambandslagasáttmálinn við Danmörku væri úr gildi fallinn, svo að neitun Spánverja og Portúgalsmanna á því að taka við diplomatiskum sendifulltrúa frá okkur er ekki hægt að skilja á aðra lund en þá, að ekkert stjórnmálasamband sé lengur milli þessara ríkja. Og ég get ekki skilið, að milli ríkja, sem ekki hafa stjórnmálasamband, geti verið milliríkjasamningar. Mér skilst þá, að þeir falli úr gildi á sömu stundu sem stjórnmálasambandið rofnar.

Að þessu athuguðu virðist mér brtt. hv. allshn., sem er flutt í tveim gr., vera algerlega óþörf og hafa betur verið ógerð. Hún er óþörf af þessum sérstöku ástæðum, sem ég greindi, og jafnvel óþörf, þó að Spánarsamningurinn væri enn í gildi, því að frv. kemur í raun og veru ekki í bága við hann. Hún er því óþarfari, þegar þess er gætt, að það má færa að því skýr rök, að samningurinn sé í raun og veru úr gildi fallinn. Það er því ekki undarlegt, þó að mörgum manni komi það spánskt fyrir sjónir, er því er haldið fram, að við séum í þessum kringumstæðum með þessi frv., ef samþ. verður, að segja Spánarsamningnum upp. Ég þarf svo ekki að fjölyrða um álit minni hl. allshn., sem vill vísa frv. frá með rökstuddri dagskrá. Ég hef í raun og veru svarað þeim röksemdum um leið og ég hef rætt um 2. gr. í brtt. hv. meiri hl. n.