14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

4. mál, áfengislög

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að blanda mér mikið inn í þessi brennivínsmál hér. En af því að mér finnst hér vera talað með nokkuð mikilli léttúð um það, hvort við höldum viðskiptunum við Spán eða ekki, vildi ég gefa þær upplýsingar, að Ísland er alveg nýlega búið að selja til Spánar eða semja um sölu til Spánar á öllum þeim saltfiski, sem nú er til í landinu, sem er um 700 tonn, og salan nemur alls hátt á aðra milljón kr. Nú er það svo, eins og hv. atvmrh. tók fram, að það er engin von til þess, að Íslendingar yfirleitt sem eru svona allsgáðir í þessum efnum vilji fallast á það, að við lokum fyrir okkur þessum saltfiskmarkaði. Því að þótt við framleiðum miklu minna af saltfiski nú heldur en gert hefur verið áður, þá verðum við að gera ráð fyrir, að fiskverzlunin lendi að verulegu leyti í sama farvegi eins og hún var áður. Og það er áreiðanlega víst, að Spánverjar munu líta á það, bæði nú og hér eftir, eins og áður, að þeir geti ekki sýnt sérstaka vinsemd í viðskiptum þeirri þjóð, sem með l. alveg sérstaklega amast við þeim vörum, sem þeir framleiða og líta svo á, að ekki séu neinar skaðsemdarvörur, því að það álíta þeir vafalaust ekki það vín vera, sem þeir framleiða. Það er ekki ástæða til að gera ráð fyrir, að þeir breyti um skoðun í þessu efni. Þetta mál hefur verið þeirra prinsipmál frá upphafi — ekki svo mjög mikið hagsmunamál — en þeir vilja helzt ekki þola neinum það að leggja bann við framleiðsluvörum þeirra eða a.m.k. vilja ekki sýna þeim þjóðum neina sérstaka vináttu, er það gera, eða veita þeim sérstök hlunnindi um innflutning á framleiðslu þeirra þjóða til Spánar.

Inn á málið að öðru leyti ætla ég ekki að fara, en ég vildi bara upplýsa þetta, ef einhverjir hv. þm. vissu ekki, að því fer svo fjarri, að slakað hafi verið á verzlunarsamningum okkar við Spán, að við seljum þeim nú allar okkar saltfiskbirgðir og njótum við þá sölu einmitt þeirra hlunninda, sem þessi samningur veitir. Þess vegna virðist mér það af ákaflega undarlegri léttúð mælt, sem stendur hér í nál. meiri hl. allshn., þar sem sá meiri hl. leggur til, að Alþ. leggi fyrir ríkisstjórnina að segja upp þessum samningum.