14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

4. mál, áfengislög

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Það má nú vel vera, ef að vanda lætur, þegar slík mál sem þetta ber á góma í hæstv. Alþ.,hv. alþm. meira eða minna mannskemmi sig með því að taka þátt í þeim ummælum, og þá sérstaklega þeir, sem ekki eru annars grunaðir um græsku og hafa haldið mannorði sínu ella nokkurn veginn í lagi, og ef ekki er yfirleitt fallizt á þær kenningar, sem fluttar eru fram í þessu mikilsverða máli. Hér er ekki rætt um brennivín eða ekki brennivín, ofdrykkjumenn eða ekki ofdrykkjumenn, heldur hvernig haga skuli þýðingarmiklu viðskiptamáli.

Þessi áfengis., sem nú gilda, voru sett 1935, og er breyt. sú, sem hér liggur fyrir frv. um, gerð við 9. gr. þeirra l. Ég fyrir mitt leyti hef ekki mikla ástæðu til að taka þátt í þessum umr. En þetta mál er mér ekki nægilega skýrt, og vil ég því fá nokkrar frekari skýringar. Og einnig vil ég vekja athygli á atriðum, sem ég tel varhugaverð á málinu. Ég tel, eins og hæstv. utanrmrh. tók fram, varhugavert að ganga á gerða samninga við erlend ríki, þó að við séum ekki í neinni klemmu um viðskipti við þau ríki, ef þeir samningar eru í gildi, og ekkert álitamáI er um það, að þeir hafi hagsmunaþýðingu fyrir afkomu okkar. Enda er það svo, að samningarnir við Spán og Portúgal hafa haft hagsmunaþýðingu fyrir afkomu okkar. En hv. flm. telur, að mér virðist, að samningar þessir séu úr gildi fallnir af okkur óviðráðanlegum ástæðum, og þess vegna muni vera næsta þýðingarlitið að skoða þá í gildi, enda þótt tjáð hafi verið hér, að ég hygg við meðferð málsins, að útflutningur okkar eftir þeim hefði skipt milljónum síðan 1940, og þau viðskipti mundu halda áfram að nema milljónum kr., sem við hefðum sumpart innflutt og sumpart útflutt frá Pýreneaskaga. Ég hygg, að á þessu tímabili hafi verið þangað útflutt héðan fyrir 6 millj. kr., en imflutt á sama tíma fyrir um 4 millj. kr. En þó að ekki sé litið á það sem aðalatriði og Ísland standi sig við að varpa frá sér hagsmunasamningum, sem áfram gætu orðið það og í öðru lagi gerðu það að verkum, að tekjur ríkissjóðs stórlega minnkuðu, vegna þess að hætt væri að verzla við þessa staði, þá er ýmislegt annað í málinu, sem þarfnast frekari skýringa, sem áhrærir þetta síðara, sem ég nefndi.

Þessi áfengisl. eru um innflutning og meðferð á áfengi, sölu og veitingar og í öðru lagi um milliríkjaviðskipti, og fleira kemur til greina í þeim l. En þó sýnist sem sumir hv. þm. og yfirleitt hópur manna í landinu geri lítinn greinarmun á því og haldi, að það sé hægt að stemma annan farveginn, en halda hinum einhvern veginn við. En það er í raun og veru ekki hægt. Og mér virðist skorta skilning á því atriði, ef menn hugsa sér, að þetta frv. nái fram að ganga og það yrði samþ., að hafa ekki sölu á víni neins staðar í landinu, þá sjá allir, ef þessi höfuðtilgangur hv. flm. með frv., sem ég fullyrði að sé, næðist, þá væri hér um að ræða algert vinsölubann. Þá er með öllu orðið bann við því að selja og neyta áfengis í landinu, aðeins þó með þeim undantekningum, ef áfengi yrði flutt inn á annað borð, þá yrði óhjákvæmilegt að afhenda vín til meðalanotkunar og í öðru lagi til að nota það til iðnaðar. En ef það vakir fyrir bannmönnum, sem ég hygg að sé rétt, að reyna á alla lund að loka fyrir alla áfengisneyzlu í landinu, og það vakir áreiðanlega fyrir ýmsum þeirra, þó að ekki sé sú stefna allskostar ráðandi í þeim hópi, þá er vitanlega hér um að ræða grímuklætt aðflutningsbann á áfengi og a.m.k. bann á sölu og neyzlu þess. En þó hef ég tekið eftir, að ein smuga er hér ólokuð og mér til undrunar hefur aðalflm., að mér virðist, ekki komið auga á þá smugu. Ég tel, að það hljóti að hafa sézt yfir þá smugu, sem getur ónýtt þetta á ýmsan hátt, sem með frv. á að nást. Frv. þetta er till. um breyt. á 9. gr. og fjallar um þessa sölu og hvernig hún eigi að vera lögmæt, sem sé, að auk þess sem það gildir um suma staði, að lögákveðið er frá eldri tíð, að þar megi selja áfengi án tillits til vilja íbúanna í hlutaðeigandi bæ, þá skuli kleift einnig að banna að selja vín þar og alls staðar annars staðar á landinu. En þessi smuga, sem ég talaði um, er eftir 10. gr. áfengisl. tölul. 2, sem ég veit ekki betur en að templarar hafi haft á hornum sér og það er veitingaleyfi, sem eitt gistihús þessa bæjar hefur. Og með þessu ákvæði til breyt. á 9. gr. l. er ekki sett undir þann leka. Og þessi veitingastaður hefur þetta löglega leyfi nú sem stendur og hefur það, þangað til hægt er löglega að svipta hann því leyfi, þannig að þar er opin þessi mikla veitingabúð. Ef því áfengisl. væri framfylgt, sem ekki er gert nú, þá mundi þessi sölustaður á áfengi ekki vera. Þessi útsala er fullkomlega ólögleg, en er samt við lýði. Og þessi ráðstöfun er af þeim, sem með þetta hafa farið í viðkomandi ráðuneyti, talin ólögleg, en þó er þetta að sumu leyti gott fyrirkomulag, og tilgangurinn getur helgað meðalið. Og það er komið svo, að þetta ástand, sem nú ríkir, sem þó er ólögmætt, er miklu betra heldur en lögmæta ástandið var. Og það er held ég margra manna mál, að aldrei hafi ástandið í áfengismálum verið eins gott og það er nú. Það hefur nú tekizt að koma þessu vandræðamáli í þann farveg, sem það getur verið í. Þess vegna tala ýmsir leikmenn um það, hvort eigi ekki að hafa þetta ástand, en vera ekki að neyða neina ríkisstj. til að breyta til svo verra verði.

Svo er annað, sem snertir afstöðu manna til slíkrar löggjafar eða ráðstafana, sem hér er gert ráð fyrir, og það er þetta, að eins og þegar verið er að safna hjá fólki undirskriftum undir hinar og þessar ráðstafanir, sem af góðum vilja eru gerðar eða á að gera, þá vitum við, að þar er oft alls ekki heilt um hnúta búið. Það er alls ekki víst, að allir, sem undir skrifa, séu fyllilega með því, sem þeir skrifa undir. Það er opinbert, að það er farið til manna til þess að fá slíkar undirskriftir, og það er vitað, að menn eru álitnir mannskemma sig á því að vera á móti því að loka öllum smugum um áfengisútsölu. Svona er og hefur verið farið að afla fylgis við þetta mál. Það er eins og hv. þm. þykist eiga í vök að verjast og standa nokkuð höllum fæti til að gera athugasemdir við þetta mál eða andæfa nokkuð á móti því. Ég hef heyrt, að miðstj. eins flokks hafi samþ. um þm. flokksins, að þeir skyldu, hvað sem sannfæring þeirra liði, vera með þessu máli. Getur verið, að sú miðstjórn hafi álitið, að tilgangurinn helgaði meðalið, og því væri rétt að kúga hv. þm. til þess, ef þetta er satt. Og menn hafa líka fyrir satt, að ýmsir gangi með hangandi hendi, ef svo mætti segja, til afgr. þessa máls, en geti ekki sett. sig til þess að gera aths. við það, og er þá illa farið, ef svo er. Hér þarf að beita fullri hreinskilni. Það þarf að fá sem skýrast, hvað á að gera og hvernig það á að gerast. — Nú er þetta sagt til þess að fá frekari upplýsingar hjá hv. aðalflm. um þessi atriði. Ég beini orðum mínum til hans sem eins mesta áhugamanns um framgang málsins. Og einnig vil ég taka fram, að mér er ekki grunlaust um, að sumir af þeim hv. þm., auk margra og vafalaust fleiri utan þings, sem að þessu máli standa á einn eða annan veg, haldi, að enda þótt girt verði fyrir útsöluna á áfengi, þá verði hægt að panta áfengi njá áfengisverzluninni. Ég hef ástæðu til að ætla, að einhverjir hv. þm. séu þessarar skoðunar og ætti að vera með frv., en hafi þennan fyrirvara að hugsa sér að fá á þennan hátt dropa. En þetta er hrein firra, og ef menn eru með frv. með þessum huga, þá tel ég verr farið en heima setið, því að það á að útiloka að selja það á þann hátt í heildsölu.

Svo er eitt, sem ég tel athugunar vert og ég vil fá álit þeirra manna um, sem standa fyrir þessu máli, eða vita, hvort þeir hafa athugað það. Nú geri ég ráð fyrir, að hv. flm. óski, að öllum áfengisútsölum verði lokað. Nú eru ekki og hafa ekki verið neinar útsölur í héruðum, og ekki hafa neinar óskir komið fram um að hafa þær þar. Menn, sem þar hafa átt heima, hafa látið það nægja að sækja vínið til útsölustaðanna, sem eru í kaupstöðunum. En ef það kæmi upp, að þessum aðalútsölustöðum yrði lokað vegna atkvgr., er þá ekki hætta á því, að héruðin tækju upp á því að samþ., að útsala eða útsölur skyldu vera í héruðunum? Og ef svo færi, telur þá hv. aðalflm. betur farið að láta útsölurnar koma heim í héruðin, vegna þess að bannað yrði fyrir áróður og atorku vissra manna, að selja það í kaupstöðunum? Ég tel, ef svo færi, að þá væri verr farið en heima setið. Það þarf að vanda mjög til athugunar á þessari hlið málsins sem öðrum.

Þessar aths. mínar eru til þess að fá frekari grein á málinu, því að mér virðist hér vera ýmislegt, svo sem áður í þessu máli, ekki heilt og ekki nægilega athugað. Þess vegna mætti, virðist mér, hafa þann hátt á málinu, að málið fái ekki framgang á þessu þingi, en á þinginu, sem sett verður síðar í vetur, verði það lagt fram betur undirbúið. Því að ég býst við, að allir hv. þm. vilji athuga þetta mál frá báðum hliðum með fullkominni sanngirni, því að félagslega séð, er þetta mikið vandamál.