14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

4. mál, áfengislög

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Hv. þm. Borgf. talaði um að vekja upp drauga í varnarskyni og til að koma þessu máli fyrir með blekkingum og virtist þar eiga við ræðu mína. Þessu tali um drauga og blekkingar vil ég vísa alveg frá mér og til baka. Ég skýrði frá því í byrjun fundar, að ég yrði persónulega þeirri stundu feginn, þegar hægt yrði að gefa fólki kost á að velja um, hvort það vildi hafa áfengisútsölur eða ekki og ég ítreka þetta. Ég veit ekki, hvor okkar hv. þm. Borgf. yrði því fegnari. Ég veit um fólk a.m.k. í sumum kaupstöðum, sem ef það ætti um þetta tvennt að velja, mundi meiri hlutinn hiklaust greiða atkv. með því að hafa enga útsölu áfengis.

Engu að síður tel ég það skyldu mína sem utanrrh. að líta svo á, að Spánarsamningurinn sé í gildi, og ef við viljum njóta hlunninda hans, megum við ekkert gera, sem getur talizt fara í bág við hann. Mjög viðurkenndir lögfræðingar telja hættu á, að þannig yrði litið á þetta frv., ef það er samþ., og þættust þá Spánverjar hafa rétt til þess að taka af okkur þau beztu kjara réttindi, sem samningurinn áskildi okkur um saltfisksölu, og torvelda okkur þar alla samninga yfirleitt. Nú finnst hvergi markaður fyrir saltfisk okkar nema á Spáni. Vill Alþ. taka á sig áhættuna af því að setja lög sem máske útilokaði þennan eina markað okkar? Það verða háttv. þm. að ákveða sjálfir, áður en þeir greiða atkv. Ég endurtek að öðru leyti, að það er óréttmætt að tala um draug í þessu sambandi. En hv. þd. tekur svo ákvörðun um, hvort á þetta skuli hætta eða ekki.

Ég vil enn taka það fram, sem ég áðan sagði samkvæmt nokkrum kunnugleika, er ég hef af fólkinu í landinu, að ef það yrði spurt um það eitt, hvort það vildi vínsölu hjá sér á staðnum eða ekki, mundi mikill hluti fólksins svara nei hiklaust. En ef það yrði spurt um það um leið, hvort það vildi taka á sig þá áhættu, er það kynni að hafa fyrir saltfisksmarkaðinn á Spáni, þá veit ég ekki, hverju fólkið mundi svara. — En, sem sagt, — hv. Alþ. ræður því, hvort það vill taka á sig þessa áhættu eða ekki.