14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

4. mál, áfengislög

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Það fór sem mig grunaði, að hin rólega yfirvegun mín og hlutlausu skýringar á frv. mundu gefa tilefni aðdróttana og ásakana frá þeim mönnum, er telja það jafnvel mannskemmandi að gera aths., ef þær falla ekki í þeirra „kram“.

Nú vildi ég helzt ræða málin með stillingu, og því skaut ég því inn í, hvort ekki væri rétt að ræða þetta mál betur til næsta þ., og athugaðar yrðu betur allar ástæður og aðstæður er koma til greina í sambandi við frv. þetta, ef hægt væri að ráða bót á því brennivínsástandi, sem nú ríkir og er illt, og ennfremur, hvort ekki væri rétt að athuga, hvort ekki væri verið að traðka á gerðan samning við annað ríki og kasta fyrir borð miklum tekjum ríkissjóðs. — Því að þrátt fyrir æst umtal, hafa þó komið fram ýmis atriði, sem eru alveg vís. Í fyrsta lagi, að samningurinn við Spán er enn í gildi, og því getur enginn mótmælt með rökum. Í öðru lagi er hann hagkvæmur okkur og sagt, að svo muni einnig verða framvegis eftir þennan dag.

Nú skal ég ekki dæma um, hvað stj. Spánar segir um slíka ráðstöfun sem þá, er í frv. felst. Sumir segja, að stj. muni álíta samninginn úr gildi fallinn, en það er tilgáta ein og því ekki nægileg rök.

Það vill oft verða svo, og sýnir það sig nú, að bannmenn gá ekki að því að kaupa sínum áhugamálum framgang of dýru verði bæði beint og óbeint, og lái ég þeim það ekki, en þá verða bara aðrir að sjá við, að svo verði ekki. — Það var sú tíð, og það kemur aftur að þeim tíma, að það þarf að hafa sem mesta tekjuliði fyrir ríkissjóð.

Það er nú upplýst af hálfu flm., að ekki er nærri eins vel gengið frá frv. eins og vera skyldi og ýmislegt er enn eftir sem áður óleyst. Eitt er það, að áfram er áfengi flutt inn í landið. — Nú er þá hv. þm. enn að gera sig sekan í samtali. Þó að þetta frv. verði samþ., þá er enn eftir lækna brennivínið lögfest. Svo skilst mér og á því, er fram hefur farið, að enn verði hægt að panta brennivín og senda um landið. Ef svo er um hið græna tré, hvað þá um Pétur og Pál.

Þetta frv. leiðir því út í ógöngur, því að það er ekki nema hálfverk. Frv. gæti vel orðið til þess að leiða til hins verra, eins og t.d., ef hér í nágrenninu risi upp brennivínsútsala, af því að engin væri til hér í Rvík.

Menn deila ekki mikið um ofdrykkjumenn, því að það eru sjúkir menn, en þó eru ekki allir svo og á ekki að setja alla undir sama liðinn í því tilliti.

Það, sem hv. aðalflm. sagði, var heldur snubbótt, er hann var að svara mér. Annað hvort fór hann í kring um málið eða svaraði ekki beint um það, er ég spurði. Hv. þm. Borgf. gerði sig sekan í því að tala mikið í fullyrðingum. Ég sagði aldrei, eins og þeir þóttust hafa eftir mér, að ástandið í þessum málum væri ágætt eða gott. Það, sem ég sagði og endurtók, var, að fyrirkomulagið á vínútsölunni væri nú það skást, sem það hefði verið.

Nú vona ég, að þeir hafi lært, að sá er ekki vítaverður, sem gerir aths. eða krefst skýringa, og ég á skýlausan rétt á því, að orð mín séu ekki rangfærð.

Ég tel eins og fleiri, að varlega beri að fara í þessu máli, og ekki rasa um ráð fram. Það, sem gert er, má ekki vera neitt kák, til þess að það, sem gert verður, þær framkvæmdir, sem leiða af ákvörðun Alþ., verði til bóta á því ástandi, sem fyrir er, en ekki til þess aftur á móti að gera það enn verra.

Hv. þm. Borgf. var að gefa í skyn, að ég væri að tala í kring um þetta mál, en vildi síður tala hreint og beint um það. Ég veit nú eiginlega ekki, hvað hv. þm. á við með þessu. Ég leyfði mér að benda á, að þetta frv. gæti ekki náð þeim tilgangi, sem flm. ætluðu sér. Ég benti á, að lækna brennivínið yrði eftir sem áður til, og jafnvel pantanir á áfengi gætu farið fram. — Annars get ég sagt hv. þm. Borgf. það, að ég er algerlega á móti aðflutningsbanni. Ég lít svo á, að þjóðfélagið, hver þegn þess, þurfi að gera þetta spursmál upp við sig, og þroskast upp í það að verða maður með mönnum. — Þær tilraunir, sem gerðar hafa verið bæði hér og annars staðar í þá átt að banna innflutning áfengra drykkja, hafa reynzt illa, svo að ekki sé meira sagt, og skyldu menn því fara varlega í þær sakir aftur.

Annars er það í hæsta máta óeðlilegt, að það sé hér í þessu máli verið að væna menn um græsku og telja, að maður sé að stofna mannorði sínu í hættu. Ég kann ekki við slíkan málaflutning. Við verðum að temja okkur það, að ræða þetta mál sem önnur, hvort sem er utan þ. eða innan, kaldir og rólegir, en ekki með neinum æsingi og geðofsa. Það getur líka verið eins konar sjúkdómseinkenni.

Ég tel það og mjög illa farið, ef menn eru að láta þvinga sig til að taka sérstaka afstöðu til þessara mála. Ég hef grun og reyndar veit, að miðstj. eins flokksins hér í þ. hefur boðið þm. sínum að hafa og fylgja þessari stefnu í áfengismálum, sem aðalflm. frv. telur sig málsvara fyrir. — Mér er það nú ekki kunnugt, að hve miklu leyti þm. fl. ætla að fara eftir þessu, hvort þeir ætla að viðhafa slíka augnaþjónustu eða hvað maður á að kalla það, en slíkt væri í á að langa úr öskunni og í eldinn.