14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

4. mál, áfengislög

Jakob Möller:

Ég get ekki greitt atkv. með frv. eins og það liggur fyrir né heldur með brtt. meir í hl. allshn. Frá því sjónarmiði, að stefnt sé að algerðu aðflutningsbanni á áfengi með frv., þá tel ég, að með frv. sé ætlazt til, að það byggist á allt of litlum þjóðarvilja, þar sem aðeins er gert ráð fyrir meiri hl. atkv. til þess að koma sölubanni á. Ég tel, að reynslan af banni. hafi sýnt það, að mikinn og sterkan þjóðarvilja þarf til þess, að slíkt bann geti orðið til bóta. En ég tel, að reynslan af bannl. þann tíma, sem þau voru gildandi hér, hafi sýnt, að það þarf miklu sterkari þjóðarvilja til þess að halda slíkum l. uppi en fyrir hendi var. Þess vegna álít ég, að ekki sé til neins að leiða í gildi bann á útsölu á neinum stað, nema mikill meirihluti fólksins standi þar á bak við. Ég mun því leggja fram skrifl. brtt. við brtt, meiri hl. allshn. þess efnis, að í 2. mgr. 9. gr. l. komi í stað orðanna „og þarf meiri hluta greiddra atkvæða til þess, að útsala sé leyfð“, komi „og þarf 66% greiddra atkvæða til þess að útsala sé leyfð“. Ennfremur, að í 3. mgr. 9. gr. l. komi „66%“ í stað „meiri hluta“. Þetta er fyrst og fremst byggt á því, að þetta fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp, geti leitt til þess að öll áfengissala verði bönnuð með lögum. Nú er það auðvitað engan veginn víst, þó að það yrði með l. samþ. að banna áfengissölu á einum stað, að það yrði bannað alls staðar. Ég held sú breyting yrði sízt til bóta, frá því sem nú er. Það er ekki stórt atriði, hvort leyfð er sala áfengis á 6, en ekki 7 stöðum, ekki sízt ef möguleikar eru fyrir hendi til að bæta við einum eða fleiri útsölustöðum fyrir hvern þann sölustað, sem felldur er niður. Ég álít, að það sé ákaflega lítið unnið við að fækka útsölustöðum, eða leggja niður útsölu á einum stað, en bæta svo öðrum úsölustað við. Ég tel líklegt, að allar slíkar br. séu óþurftamál, því að þótt útsala sé bönnuð með meiri eða minni breyt. á l., frá því sem nú er, þá kemur óleyfileg vínsala í staðinn, sérstaklega þegar almenningsvilji til að halda uppi banninu er lítill. Hins vegar mun ég telja fært að gera þá tilraun að setja skilyrði um meira atkvæðamagn en gert er ráð fyrir í brtt. meiri hl. allshn., svo að maður gæti séð, hvernig það gæfist. En ég gæti trúað, að 60% væri jafnvel of lítið til þess að vilji fólksins gæti notið sin og ráðið niðurlögum vilja þeirra, sem vilja koma bannl. fyrir kattarnef. Ég segi það nú, að afstaða mín til þessa máls fer eftir því, hvort brtt. mín verður samþ. og bið um afbrigði til þess, að hún megi verða tekin til umr.