14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

4. mál, áfengislög

Gísli Guðmundsson:

Ég vil segja það í fáum orðum, að ég tel æskilegt, að það gæti verið á valdi viðkomandi staða, hvort útsala áfengis skuli leyfð þar eða ekki. Það liggur hér fyrir á þskj. 157 umsögn og yfirlýsing utanrh. um, að slík ákvæði, sem hér er farið fram á, brjóti í bága við milliríkjasamninga Íslands við Spán og Portúgal. Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að láta uppi skoðun á því, hvort svo muni vera í raun og veru, að sú breyt., sem hér er fyrirhugað, komi í bág við ákvæði þessara samninga, en ég tel mér ekki annað fært en að taka gilt það, sem utanrh. segir um þetta mál um sína niðurstöðu, ekki sízt, þar sem allshn. hefur komizt að þeirri sömu niðurstöðu. Nú er það svo, að hv. meiri hl. allshn. leggur til, að stjórninni sé falið að segja upp samningum þessum, og getur þá breyt. sú á áfengisl., sem frv. gerir ráð fyrir, aðeins komið til greina, þegar samningarnir eru fallnir niður. Mér virðist nú talsvert viðurhlutamikið að fara að segja upp milliríkjasamningum vegna ekki stórvægilegri breyt. á l. en hér er um að ræða. Hins vegar mundi ég vilja, að reynt yrði að fá breytt þeim ákvæðum milliríkjasamninganna, sem koma í bága við þetta frv. Þess vegna vil ég bera fram skriflega brtt. við nál. á þskj. 137, að 2. liður breytist þannig, að í stað orðanna „segja upp“ komi orðin „fá breytt“ og síðar í sama lið komi „er þeim samningum hefur verið breytt“ — í stað orðanna „er þeir samningar hafa verið felldir úr gildi“. Og leyfi ég mér að biðja um afbrigði til þess, að brtt. verði tekin til umr.