20.01.1943
Neðri deild: 38. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

4. mál, áfengislög

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég ætla mér ekki að fara að tefja mikið meira en orðið er þær umr., er fram hafa farið um þetta mái. — Ég lýsti því yfir, er hv. d. afgr. þetta mál til 3. umr., að ég teldi frv. vera flasfengið og óviturlegt, því að með samþ. þess væri verið að láta sem vind um eyrun þjóta ummæli og álit hæstv. utanrh.

Í nál. minni hl. kemur það fram, að n. hefur leitað álits og umsagnar hæstv. utanrh. um það, hvort frv. þetta gæti samrýmzt milliríkjasamningi, sem við höfum gert um sölu á saltfiski. Þessu hefur hæstv. utanrh. svarað bæði með bréfi til n. og svo einnig með yfirlýsingu þeirri, er hann gaf varðandi þetta mál hér í þessars hv. d. — Svar hans er á þá leið, að hann telur ákvæði frv. ekki geta samrýmzt milliríkjasamningnum og mælir eindregið frá því að samþ. frv. Ég leyfi mér að kalla það flasfengni af Alþ. og þessari hv. d., ef hún ætlar að ganga í berhögg við yfirlýsingar utanrh. og samþ. þetta frv. Ég mun af þessum ástæðum fyrst og fremst leggjast á móti því, að frv. þetta nái fram að ganga.

Ég ætla í sambandi við milliríkjasamninginn að minnast á, að því fer svo fjarri, að okkar Íslendingum beri ekkert tillit að taka til þeirra þjóða, er við höfum gert þennan samning víð. Það er upplýst af hæstv. utanrh. og öðrum hv. þm., að nú, þessa dagana, sé verið að ganga frá sölu saltfisks til þessara þjóða. Samkv. úflutningsskýrslum 1941 er helmingur alls útflutts saltfisks seldur til annarrar þjóðarinnar, til Spánar, sem hæstv. utanrrh. telur, að við séum að ganga á milliríkjasamninginn við, með samþ. þessa frv., þá endurtek ég það, að þegar þannig er málum komið, er það mjög óvarlegt af þ. að leggja út í að samþ. þetta frv. — Þó að það sé að vísu rétt, að sölumöguleikar á sjávarafurðum okkar séu í betra lagi eins og stendur, þá er enginn kominn til að segja, að það sé öruggt til frambúðar.

Það er trú sumra manna, sem og kannske er rökrétt, að framvegis verði meir framleitt af ísfiski og hraðfrystum fiski. Margt bendir til þess. En hitt er eins víst, að saltfiskur verður á komandi árum töluverð útflutningsvara okkar Íslendinga, þangað sem við njótum beztra kjara.

Ég tel það, sem sagt út frá þessum forsendum, er ég hef drepið á, hreina fjarstæðu að samþ. frv. Þá vil ég rétt aðeins minnast á brtt., sem fyrir liggur við þessa umr. Um hana er það að segja, að ég tel hana til bóta frá því, sem er í 2. gr. frv. eins og hún var afgr. við 2. umr. málsins. Í brtt. er lagt til, að ríkisstj., ef hún telur l. þessi geta brotið í bága við milliríkjasamninga, geri þær ráðstafanir, er hún álítur nauðsynlegar til að samrýma þá samninga ákvæðum l. og að því loknu öðlist l. gildi. — En við þessu öllu saman er að segja það, að formið á því er ákaflega óviðkunnanlegt. Miklu nær sanni er, að reynt sé til þrautar að fá samningnum breytt, áður en l. um það, er brýtur í bág við samninginn, eru sett, Það er einmitt sú leiðin, sem Alþ. ætti að fara í þessu máli, að fela ríkisstj. að athuga, hvort ekki væri hægt að fá þeim atriðum samningsins breytt, er geta ekki samrýmzt frv. þessu. Ég lít svo á, að það sé gersamlega verið að fara aftan að siðunum með því að viðhafa þá aðferð í þessu máli, sem nú er verið að leggja til, að farin sé.

En fyrir utan allt þetta er um sjálft „prinsippið“ það að segja, að mikið vafamál er það, hvort hið eina sáluhjálplega í áfengismálum vorum sé að koma á fót héraðsbönnum.

Ég verð að játa, að ég mæti héraðsbönnunum með mikilli tortryggni. Við þurfum ekki annað en að líta til baka til þess tíma, er bannl. vora í gildi, og hvernig verkanir þeirra ráðstafana reyndust hörmulega, þegar bindindismenn gerðu sér vonir um að geta þurrkað landið. En það fór á annan veg, og jafnvel bindindismenn, sem barizt höfðu ákaft fyrir að koma því á, urðu vonsviknir og tóku þátt í að afnema það.

En hvaða munar er svo á þessu stóra banni og því litla banni, héraðsbanni, sem er verið að reyna að koma til framkvæmda með frv. þessu? Annað er stórt bann, en hitt lítið bann. Þar af leiðandi mun enn á ný, ef þessi héraðsbönn koma til framkvæmda, þróast í þessu landi bruggið á ný, smyglun og alls konar samsull eiturlyfja, ef menn vilja leggja sér slíkt til munns. Þetta getum við sagt okkur sjálf. Ég held, að bindindismenn muni verða jafn vonsviknir, ef þessi litlu bönn komast á, eins og þeir á sínum tíma urðu vonsviknir með bannl., þ.e.a.s. verkanir þeirra. Auk þess er það fyrirsjáanlegt, ef frv. kemst til framkvæmda, að stórkostlegir innflutningar munu verða um landið. —

Það, sem ég því hef þessu frv. til foráttu, er í fyrsta lagi, að ég tel það flasfengið og ganga í berhögg við upplýsingar, er hæstv. utanrh. hefur gefið í málinu, og í öðru lagi vegna þess geigs, er ég tel mig hafa og ekki að ástæðulausu, að þessi litlu bönn muni leiða til sama ófremdarástandsins ok bannl. forðum urðu til að skapa.

Annars vil ég taka það fram, að afstaða mín og andstaða gegn þessu frv. má ekki skiljast svo, að ég sé á móti bindindisstarfsemi í landinu, heldur tel ég þvert á móti að hana beri að auka or; efla, og skal ég styðja hvert það mál hér á Alþ., er að mínum dómi gengur í þá átt. Það þarf einmitt að leggja ríka áherzlu á, að efld sé bindindisstarfsemi meðal yngri kynslóðarinnar. og að henni sé kennt að umgangast vín eins og siðað fólk.

Í samræmi við það, sem ég hef hér sagt, mun ég greiða atkv. á móti frv. og brtt., þar sem ég tel, að með því sé verið að fara aftan að siðunum.