22.01.1943
Efri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

4. mál, áfengislög

Ingvar Pálmason:

Þetta frv. var flutt í Nd., og er ekki ástæða til að lýsa efni þess, sem mun öllum kunnugt.

Þar er farið fram á að veita íbúum þeirra staða, sem nú hafa áfengisútsölur, rétt til að ákveða sjálfir, hvort selja skuli þar áfengi áfram eða ekki. Ennfremur er tekið fram, að nýjar útsölur megi aðeins setja á stofn að undangenginni atkvgr., og þarf víss hluti kjósendanna að vera því meðmæltur.

Í Nd. virtust allir sammála um efni frv., að það væri eðlilegt og samkvæmt okkar lýðræðislegu skipulagsháttum, að þetta mál lyti sömu reglum eftir vilja fólksins sem önnur stór þjóðmál. En hins vegar kom þar strax fram, að sumir litu svo á, að ákvæði frv. kæmi í bága við önnur ríki, og leiddi þetta til viðauka þess við frv., sem er 2. gr. nú, og er þannig vaxinn, að ég tel tæplega sæmandi fyrir hv. Alþ. afgr. l. með honum.

Það, sem um var deilt, var samningurinn við Spán, og var upplýst eða talið, að hann væri ennþá í gildi. Ég ætla ekki beint að fara út í það, hvort hann er í gildi eða ekki, af því að ég hef enga sérstaka þekkingu á því máli og í öðru lagi af því ég tel, að um þetta eigi að fara fram fullnaðar athugun af sérfróðum mönnum. Einnig tilfæri ég þá ástæðu, að ég hef ekki samninginn milli handanna, og veit ég ekki, hvort allir hv. þm. í Nd. hafa haft fyrir því að lesa hann einusinni. En ef hér er verið að ganga á rétt hins aðilans, þá ætti hann að geta borið sig upp undan því. En þar sem hér er um umdeilt samningsatriði að ræða, þá er fráleitt, að hv. Alþ. samþ. þetta frv. með umgetnum viðauka.

Ég benti á, að það er þvert á móti skylda þess, að skera úr um það, hvort frv. þetta kemur í bága við gildandi samninga eða ekki, og þá fella það, ef það er svo, en alls ekki að viðurkenna með þessu eins og það er, að annað og óskylt þjóðfélag geti blandað sér í innanríkismál okkar, og viðurkenna um leið, að við höfum ekki vald til að setja lög í okkar eigin landi.

Ég álít, að ef dómur Alþ. verður á þá lund, að samningurinn sé enn í gildi, þá geti það ekki sett þessi l. og eigi ekki að gera það með því, sem aftan í þau var hnýtt.

Ég vil benda á þetta. Og þar sem menn vita. að ég er fylgjandi efni eða stefnu frv., þá sjá þeir því fremur, að mér er þetta þó ennþá meira áhugamál, að þessi l. verði ekki sett, ef dómur Alþ. er á þá lund, að telja samninginn í gildi. (BSt: Já alveg rétt, við skulum bara fella frv.) Hv. 1. þm. Eyf. skaut því hér inn í, að við ættum að fella frv. Fyrst skulum við láta hv. Alþ. skera úr um samninginn, eins og ég sagði áðan, og ef sá úrskurður fellur mér í vil, þá skulum við tala um, hvort eigi að fella frv. eða ekki.

En í sambandi við þessi orð hv. þm. vildi ég minna hv. Alþ. á, að það væri lítilþægt, ef það skyti sér undir loðna samninga til þess að fella þetta frv., sem öðruvísi væri ekki hægt að fella. Skýr athugun verður að fara fram á samningnum, og þó það sé móti mínum vilja, að fella þetta frv. efnislega, þá vil ég það heldur en samþ. það með þeim varanagla, sem sleginn er í 2. gr.

Ég vona nú, að sú n., er verður til að athuga þetta mál, skoði það sérstaklega út frá þessu sjónarmiði, er ég hef lýst, burt séð frá því, hvaða skoðun hún hefur á efni þess.