24.02.1943
Efri deild: 62. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

4. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Ég sé ekki ástæðu til að víkja sérstaklega að þeim fullyrðingum hv. 6. þm. Reykv., að fylgismenn þessa frv. fylgi því með hangandi hendi. Það er fjarstæða, sem hefur ekki við neitt að styðjast. Við allshnm. höfum kynnt okkur málið rækilega, áður en við tókum afstöðu til þess, og teljum það gott og gagnlegt mál.

Hv. 6. þm. Reykv. gat þess, að ég hefði sagt um frv., að það væri illa undirbúið. Það eru alveg röng ummæli. Ég hef sagt þvert á móti. Ég sagði, að flm. hefðu haldið sér við að láta frv. takmarkast við að veita íbúum þeirra 7 kaupstaða, sem fengu áfengisútsölu 1922, sama rétt og allir aðrir kaupstaðir landsins fengu með l. frá 1935. Þeir töldu víst, að þetta yrði samþykkt, en hitt kynni að spilla fyrir málinu, ef lengra væri gengið.

Hv. 6. þm. Reykv. var með miklar hugleiðingar út af því, hvar ætti að selja áfengi, ef þetta frv. væri samþykkt. Það er rétt, þrátt fyrir það væri ríkinu áfram heimilt að flytja áfengi til landsins, en það mundi fara eftir vilja kjósenda í hinum einstöku byggðarlögum, hvort það væri selt hjá þeim. Þetta kalla ég lýðræðismál. Ummæli hv. 1. þm. Eyf. um, að það væru ekki kjósendur á hverjum stað, sem réðu því, heldur einhverjir aðrir borgarar, búsettir á öðrum stað, falla um sig sjálf. Eftir því ætti t.d. hv. þm., sem býr á Akureyri, að geta greitt atkv. um útsölu á Norðfirði eða Seyðisfirði eða í Hafnarfirði. Nei, íbúarnir á þessum stöðum taka þá ákvörðun sjálfir, óstuddir og áhrifalaust af öðrum íbúum landsins, og sé ég ekki betur en að íbúar þessara 7 kaupstaða, sem útsölunni var þröngvað upp á 1922, eigi skýlausan rétt til þess að vera eins settir og þeir, sem l. frá 1935 tóku til.