27.01.1943
Efri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég er sammála hv. nm. um það, að æskilegt væri að geta sett l., þar sem greitt væri fyrir viðskiptum. En ég er í meiri vafa um það, að þessi löggjöf nái þeim tilgangi að greiða fyrir þeim viðskiptum landsmanna, sem frv. er ætlað að greiða fyrir. Það er að vísu svo, að það er ekki líklegt, að frv., þó að l. verði, leggi að neinu verulegu leyti stein í götu þeirra viðskiptaaðferða, sem nú eru við hafðar og hafa reynzt að vera nauðsynlegar, og ekki er víst, að frv. leggi að neinu leyti stein í götu þeirra.

Ákvæði 1. gr. frv. gera ráð fyrir því, að skuldajöfnuði megi við koma í viðskiptum, ef sérstaklega er um það samið. En vitað mál er það, að á undanförnum árum hefur mikið af þeim viðskiptum, sem samvinnufélög og reyndar einnig margir kaupmenn hafa átt við framleiðendur, bæði bændur og útgerðarmenn, hafa farið fram þannig, að þessir viðskiptamenn verzlana þessara hafa fengið loforð fyrir afhendingu varna að láni fyrir ákveðna tiltekna upphæð, og gefið loforð um ákveðið vörumagn eða greiðslu í staðinn fyrir tiltekinn tíma. Og um þetta eru vanalega gefin sérstök skrifleg loforð af hendi þess, sem fær vörur að láni á þennan hátt hjá kaupmanni eða samvinnufélagi. Þessi aðferð mundi vera heimiluð áfram, þó að frv. væri samþ. Og þessi viðskiptaaðferð hefur sýnt sig að vera nauðsynleg, vegna þess að lánsstofnanir eru ekki fyrir hendi í landinu, sem geta veitt svo almenn peningalán, sem þarf til þess, að þeir, sem vörur taka út í verzlunum eða hjá samvinnufélögum, geti fengið lán í þeim stofnunum til þess að greiða þær vörurnar með og þannig geta haft viðskiptin með þeim hætti, að hönd selji hendi. Og af því að þessar lánsstofnanir eru ekki til, hafa samvinnufélög og kaupmenn tekið að sér hlutverk þeirra lánsstofnana með þeim hætti, sem ég hef greint. Það, sem eftir þessu frv. gæti skipt mestu máli til umbóta fyrir viðskiptin, eins og þau eru nú í þessu efni, væru því ákvæði 2. gr., þar sem svo er fyrir mælt, að þegar vörur eru seldar með óákveðnu verði, — sem mjög tíðkast nú á seinni tíð og hefur reyndar tíðkazt um langt skeið vegna viðskipta samvinnufélaganna, þar sem grundvallaratriðið er það að greiða seljanda varanna rétt verð fyrir vörur þær, sem hann selur samvinnufélaginu —, þá skuli greiða helming af andvirði varnanna samkv. mati, og gert er ráð fyrir í brtt. n., að hagstofan gangi frá þessu mati á gangverði hinna almennustu verzlunarvarna. Og síðan er gert ráð fyrir því, að hinn hluti andvirðis varnanna verði greiddur ekki síðar en tveim mánuðum eftir, að unnt er að ákveða verðuppbót eða umboðssali hefur fengið í sínar hendur andvirði þeirra varna, sem hann hefur sett. Ég geri ráð fyrir, að það tíðkist ekki almennt a.m.k., að minna en helmingur andvirðis varnanna sé greiddur strax. Ég geri því ráð fyrir, að hér sé tæpast um verulega réttarbót að ræða frá því, sem nú er, og kannske enga. Og viðvíkjandi því atriði, hvernig síðari hluti andvirðis varnanna sé greiddur, er það að seg ja, að það er ákaflega erfitt að setja trygg ákvæði um það ein . Og þó að þessi ákvæði séu sett, sem gert er ráð fyrir í brtt. á nál., þarf enginn að ganga þess dulinn, að þau ákvæði tryggja í raun og veru ákaflega lítið, vegna þess að ákvæðin eru og verða að vera nokkuð óákveðin um þetta atriði, og þetta er meira eða minna framkvæmdaratriði í höndum þess, sem á að greiða andvirðið af höndum. Það er ekki gott að fylgjast með því fyrir seljanda, hvenær kaupanda vörunnar, kaupmanni eða samvinnufélagi, er unnt að ákveða verðuppbót, og heldur ekki gott fyrir seljanda að fylgjast með því, hvenær kaupandi vörunnar, kaupmaður eða samvinnufélag, fékk í hendur andvirði vörunnar. Þannig að réttaröryggið með þessum l. verður að mínu áliti ákaflega lítið, og þess vegna gagnslítið að setja þessi ákvæði. Hins vegar er það talsverð fyrirhöfn að skrá vörur með þeim hætti, sem gert er hér ráð fyrir, ef þetta frv. verður að l., þó að það sé miklu einfaldara í framkvæmd, eins og gert er ráð fyrir því í nál., heldur en í frv. er gert ráð fyrir. Það er ekki alveg fyrirhafnarlaust fyrir hagstofuna að ákveða gangverð afurða, og það er talsverð fyrirhöfn einnig fyrir kaupendur að fylgjast með því á hverjum tíma, hvert gangverð varnanna er. Ég lít því svo á, að því miður séu ekki miklar líkur til þess, að þetta frv., þó að l. verði, nái þeim tilgangi að greiða fyrir viðskiptum í landinu, eða að seljendur varnanna, einkanlega framleiðendur, fái með þessum l. nokkurt verulegt öryggi. En hins vegar er nokkur trafali að því að hafa löggjöf eins og þessa. Og þá er spurningin, hvort samþykkt frv. svari kostnaði. Og ég hef ekki fengið ákveðnar upplýsingar um það, hve mikið kveður að því, að þeir framleiðendur, sem selja vörur til kaupmanna og kaupfélaga, fái ekki greiddar vörur sínar fyrr en seint og síðar meir, og vegna þess hef ég verið í ákaflega miklum vafa um það, hvort ég gæti fylgt þessu frv. Ef mjög mikið kveður að þessu, þá er kannske leggjandi út í þessa tilraun, enda þótt ég búist ekki við neinu verulega meiru réttaröryggi vegna þessarar löggjafar, ef frv. verður samþ. Þó er ekki víst, að örgrannt yrði um það, að eitthvert aðhald kynni að geta verið í slíkum l. sem þessum. Ég er þess vegna á báðum áttum með það, hvort fyrirhöfn við að setja l. sem þessi svari kostnaði. Ég býst því við, að niðurstaða mín í málinu verði sú, að ég láti afskiptalaust, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki. Ég tel það ákaflega þýðingarlítið.