27.01.1943
Efri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Gísli Jónsson:

Ég vil aðeins lýsa yfir, að ég get vel fellt mig við þær brtt., sem fram hafa komið við frv. frá allshn., á þskj. 259.

En út af ræðu hv. þm. Str. (HermJ) vildi ég segja þetta. Hvað viðvíkur skuldajöfnuðinum, þá er engin hætta á því, að hér sé verið að hlaða undir neina óreiðu í fjármálum. Það er rétt, sem hv. þm. Str. tók fram, að það er þegar komið á þetta fasta viðskiptakerfi, sem hann gat um, hjá kaupfélögum og ýmsum kaupmönnum, þar sem verzlanirnar taka strax eftir nýjár tryggingar hjá viðskiptamönnum sínum gegn vöruávísunum, annaðhvort greiðsluloforð eða beint veð í framleiðsluvörum viðskiptavina sinna. Og það er ekki nema það, sem á sér stað um alla menn og stofnanir, sem lána út á ófengnar tekjur á sjó og landi. Þetta er algengt hjá bönkum, að þeir lána út á óaflaðan fisk og hafa þar af leiðandi tryggingu í honum, þegar hann kemur. Á sama hátt er hægt fyrir þá, sem lána vörur til bænda, að tryggja sér með veði í framleiðsluvörum þeirra greiðslu þeirra varna, sem bændur fá lánaðar hjá verzlunum þessum, þangað til greiðslugeta er fyrir hendi hjá bændum. Svo að ég hygg, að í þessu efni geti frv., þó samþ. verði, ekki orðið til ásteytingar.

Hv. þm. Str. talaði um, að það tíðkaðist varla, að minna en helmingur andvirðis varna væri greitt strax. Um þetta vil ég segja það, að það er ákaflega misjafnt, hvað greitt er strax mikið fyrir vörurnar, eftir því hvar er. Hér sunnanlands, þar sem peningaverzlun er almennust, er sjálfsagt greitt allt að 80% andvirðisins strax, t.d. hjá Sláturfélagi Suðurlands og hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, og mundi það ekki þrengja kosti þeirra, þó að þetta frv. yrði að l. En í afskekktum héruðum hefur svo verið og er enn, að bændur og smáútvegsmenn, sem verzla við kaupmenn og kaupfélög, fá svo að segja aldrei neitt greitt fyrir vörur sínar í peningum, heldur geta þeir fengið vörur út á væntanlegar afurðir, og sjá svo að segja aldrei peninga milli handa sinna. Þetta er mjög óheppilegt í alla staði. Menn þurfa peninga til ýmislegs, svo sem til þess að greiða opinber gjöld — einnig væntanlega til kynnisferða, þegar l. um það eru komin. Og ég tók fram í framsöguræðu minni við 1. umr., að þetta hefur gengið svo langt, að menn, sem hafa átt inni hjá slíkum stofnunum, hafa orðið að fá ábyrgð hreppsins til þess að geta fengið fé til þess að geta sent sjúklinga sína á spítala. Ég held, að það sé ekki á nokkurn hátt skertur réttur þess aðila, sem fer með umboð á sölu þessara afurða, þó að hér sé ákveðið, að hann eigi að greiða helming af því verði, sem áætlað er. Hins vegar, ef menn kæra sig ekki um að fá þetta greitt út, geta menn látið það standa inni á reikningum. Í Skaftafellssýslu mun t.d. kaupfélagið vera nokkurs konar sparisjóður bænda, og er ekkert um það að segja, ef samkomulag er um það milli aðila.

Að ákveða gangverðið, hygg ég, að ekki sé erfitt, þar sem hér er ekki verið að ákveða gangverðið til fullnustu, heldur það verð, sem á að miða útborgun við. Þetta verð hefur verið ákveðið af þessum aðilum, sem upp eru taldir í frv., og það er þess vegna sem öll þessi halarófa kom þar inn. En ég get fallizt á, að það sé rétt í alla staði að fela ákveðinni stofnun þessa gangverðsákvörðun eða áætlun. Skal ég benda á, að samvinnufélög hafa ákveðið í ár að greiða 4 kr. út á hvert kjötkg. Og ef frv. væri orðið að í , þá væri þeim aðeins skylt að greiða 2 kr. strax út til bóndans fyrir hvert kg kjöts. Nú er það von manna, að kjötkg verði ekki 4 kr., heldur 6 kr., og þá hefði raunverulega ekki verið greiddur út nema þriðjungur af endanlega verðinu, ef þessi áætlun stenzt um verðið. Þó að sums staðar sé ekki þessa ákvæðis þörf, þá yrði þó með því stórt spor stigið til hagsbóta þeim, sem búa í afskekktari héruðum landsins, miðað við núverandi ástand þar.

Viðkomandi því, hvort slík lagasetning sem þessi yrði til nokkurs öryggis eða til þess að bæta fyrir viðskiptum, þá er því til að svara, að öryggi fæst með samþykkt þessa frv. á þann hátt, að þessir menn, sem búa í afskekktari héruðum t.d., fá a.m.k. möguleika til þess að krefjast útborgaðs ákveðins hluta andvirðis varna sinna, og þótt ekkí væri nema að þeir fengju 1/3 hluta þess greiddan í peningum, þá væri það réttarbót. Og ég tel þjóðinni gott, að máske væri hægt að ná því marki, að öll verzlun yrði peningaviðskipti og að sem mest væri horfið frá skuldaverzluninni og að skynsamlegast sé að taka það ekki í einu stökki, heldur fara þar stig af stigi. Og þess vegna hef ég fellt mig við, að takmarkið væri svona lágt í frv. varðandi útborgun strax á andvirði varna, þó að það væri kannske eðlilegt, að þetta takmark væri 100%, miðað við áætlað verð.

Um gildistöku þessara l. er mér ekkert kappsmál, hvort l. gangi í gildi á þessu þingi eða nokkrum mánuðum seinna, ef þau aðeins ná að ganga fram til hagsbóta fyrir þessa aðila, sem þau eiga að greiða fyrir.