04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég er ekki enn búinn að skilja að fullu, hvað átt er við með þessu frv., og vildi gjarnan fá vitneskju um það hjá hv. allshn. og dálitlar útskýringar, áður en ég þarf að greiða um það atkv. Í 1. gr. er gert ráð fyrir, að eitthvað af afurðum lands eða sjávar sé strax borgað föstu verði, þegar selt er. Það er rétt, að þetta hefur verið gert í nokkrum mæli, en ekki mjög miklum. En síðari árin hefur hitt verið tíðara, að ekki hefur fengizt upp fyrr en löngu síðar, hvað vörurnar seldust í rauninni fyrir, og við það getur löggjöf sem þessi ekki ráðið.

Hins vegar gerir 3. gr. ráð fyrir, að Hagstofa Íslands ákveði gangverð afurðanna, fast verð. En hvaða aðstöðu hefur hagstofan til þess? Ég veit ekki til þess, að hún hafi starfað svo að utanríkisverzlun eða útvegun verzlunarsambanda, að hún hafi þar sérþekking umfram eða til jafns við verzlunarfyrirtæki, t.d. til að setja verð á fisk, sem síðan verður seldur til Portúgals. Eða tökum ull til dæmis. Þegar ullin, sem í landinu er, verður seld 2–4 árum eftir, að verzlanir taka við henni, selst hún án minnsta tillits til þess, hvað hagstofan kynni að hafa metið hana í fyrstu. Mér finnst tæplega gerlegt að ætla þeim dómstóli að dæma um þetta, sem ekki tekst að sýna, að sé til þess fær. En e.t.v. skýrir n. þetta, og líklega er þetta nokkru skárra en það var upprunalega í frv. En ég sé ekkert gagn í frv.