04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. 2. þm. N.-M. spurði n., hvernig hagstofan færi að því að reikna út verð, sem leggja ætti á vörur. Ég er honum samdóma um, að þetta er nokkrum erfiðleikum bundið. En eftir nokkra íhugun taldi n. þetta ekki vera svo mikilsvert atriði, að rétt væri að fara að gera á því aðra skipan að óreyndu. Vitanlega yrði hagstofan að styðjast við þær verzlanir, sem við sölu þessara afurða hafa fengizt, og fara um það eftir reglugerð, sem 3. gr. mælir fyrir um. Ég býst við, að því megi treysta, að hagstofan fari varlega.

Hv. þm. A.-Húnv. taldi brtt. mína spilla frv. Er það þá skilningur hans á frv., að það eigi að verða samvinnu manna og sameiginlegum félagsvilja fjötur um fót? Brtt. getur ella engu spillt, þar sem hún veitir mönnum aðeins frelsi til samþykkta og samninga, sem þeir kjósa sjálfir að gera eða meiri hluti félags. Mér finnst reynslan benda til þess, að frelsi til þessa yrði alls ekki óhagkvæmt kaupfélagsmönnum. Ég vona, að hv. þm. samþykki brtt. mína. Á hinn bóginn vil ég ekkert amast við sjálfu frv., að því leyti sem það getur komið til framkvæmda.