04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Skúli Guðmundsson:

Mér er ekki fullljóst, hver er tilgangurinn með flutningi þessa frv., en þó lízt mér það vaka fyrir þeim, er standa að frv., að þeir ætli sér að hlynna eitthvað að framleiðendum íslenzkra afurða við sjávarsíðuna og til sveita með því að setja l. um það, að öllum verzlunarfyrirtækjum sé skylt að greiða andvirði afurðanna í peningum.

En ég verð að segja, að mér finnst, að þeim tilgangi að bæta á einhvern hátt hag framleiðenda til sjávar og sveita sé alls ekki náð með þessu frv., heldur gæti ég hugsað mér, að frv., ef að lögum verður, mundi verka þeim í óhag. Til þess að þau ákvæði, sem í frv. felast, fái notið sín, þarf bæði kaupfélögum og kaupmönnum að vera skylt að kaupa afurðirnar með því verði, sem hagstofan ákveður, en slíkt er ekki að finna í frv., enda hefur líklega ekki neinn ætlazt til þess, að það yrði leitt í l. Vitanlega geta verzlanir og önnur fyrirtæki neitað að kaupa afurðirnar eða taka þær í umboðssölu, og varla geri ég ráð fyrir, að framleiðendur mundu telja slíkt til hlunninda.

Við skulum t.d. taka eina vörutegund, ullina, og gera ráð fyrir, að lög um þetta efni hefðu verið til 1941, þegar bændur komu með ull sina í verzlanir til sölu. Ég er í miklum vafa um, að kaupfélög og kaupmenn hefðu séð sér fært að taka þessa vöru í umboðssölu og borga hana út samkv. útreikningi hagstofunnar, þegar ullarmarkaðurinn leit svo illa út. Enda hefur það komið á daginn, að erfitt hefur verið að selja þá vöru. Ullin frá 2 árum liggur í vöruskemmunum enn þá úti um allt land. Ég er í miklum vafa um, að verzlunarfyrirtækin sjái sér fært að kaupa ull á þessu ár í eða taka hana í umboðssölu og borga fyrir hana e.t.v. háar upphæðir, ef frv. þetta verður gert að lögum.

Mér er reyndar kunnugt um það, að kaupfélögin greiddu strax nokkuð út á ullina árið 1941 og líka 1942, en ef lagafyrirmæli svipuð þeim, sem felast í frv., hefðu þá verið í gildi, hefði það getað orsakað, að kaupmenn og kaupfélög hefðu kippt að sér hendinni og ekki viljað taka þessa vöru, og hefðu þá framleiðendur orðið að sitja með hana svo og svo lengi. Þetta gæti sem sagt orðið til þess, að kaupfélög og kaupmenn tækju ekki við vöru, sem erfitt er að selja, og gæti það komið sér mjög bagalega fyrir framleiðendurna.

Hv. þm. A.-Húnv. var að minnast á vöruskiptaverzlun, sem hann nefndi svo, og sagði, að hún þyrfti að hverfa. Ég veit ekki til þess, að hér á landi sé nokkurs staðar vöruskiptaverzlun eða hafi verið seinustu áratugina, nema þá e.t.v. lítils háttar milli einstakra manna. En í verzlunum, smáum sem stórum, þekkist slíkt ekki nú orðið. Það getur vel verið, að hann hafi meint lánsverzlun, og það er rétt, að hún er til, og það líklega nokkuð víða, en það er sitt hvað, lánsverzlun og vöruskiptaverzlun, og má ekki rugla því saman. T.d. er hér í Rvík töluvert um lánsverzlun, eftir því sem ég bezt veit. En þetta er óðum að breytast. Samþykktir kaupmannastéttarinnar ganga í þá átt að taka upp „kontant“verzlun, þótt eigi muni það komið til framkvæmda að öllu leyti hér enn. Enn fremur get ég upplýst, að viða annars staðar á landinu hefur peningaverzlun verið tekin upp. Um það er mér kunnugt. Við það kaupfélag, sem ég veiti forstöðu, var tekin upp peningaverzlun í ársbyrjun 1942, og félagið borgar verð fyrir afurðir í peningum, þegar þess er óskað. Eins verða þeir, sem vörur kaupa hjá félaginu, að borga þær við móttöku. Þetta er samkv. ákvörðun sjálfra félagsmannanna, og mér þykir það einkennilegt, ef á að fara að meina slíkum félagssamtökum að hafa þær aðferðir við verzlunarreksturinn, er þeim þykja hentugastar. Með þess konar afskiptum finnst mér að óþörfu tekinn ákvörðunarréttur af mönnum. Hér er um mörg afurðasölufélög að ræða, svo sem mjólkurbú og sláturfélög bænda, en útgerðarmenn hafa lýsissamlög og fisksölufélög. Mér finnst það mjög óréttmætt, ef á að fara að hindra það, að þessi félagasamtök setji sjálf reglur um borgun afurðaverðsins, eftir því sem þau telja sér bezt henta.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði enn fremur, að með brtt. hv. 1. þm. Árn. væri verið að gera að engu ákvæði frv. gagnvart samvinnufélögunum. Það er ekki rétt hjá hv. þm., ef hann heldur, að brtt. nái einungis til samvinnufélaga, — hún nær einnig til allra þeirra einstaklinga, sem vilja sjálfir semja við kaupmenn sina um greiðslu afurða. Þetta getur líka komið sér vel fyrir kaupmennina, þar sem þeim yrði ekki gert ókleift að taka við vörum, sem þeir geta ekki borgað út við móttöku, samkv. útreikningi hagstofunnar, og eins fyrir þá, sem afurðirnar hafa, að þurfa ekki að liggja með þær óseldar, e.t.v. um langan tíma. Mér finnst því sjálfsagt að samþykkja þessa brtt., þar sem hún gefur bæði félagsheildum og einstaklingum þann sjálfsagða rétt að haga þessum málum eftir því, sem þeim hentar bezt. Ef þessum aðilum — framleiðendum til sjávar og sveita og verzlunarfyrirtækjum — væri meinað að gera með sér samninga um viðskiptin, gæti það orðið til erfiðleika fyrir báða aðila, þar sem það gæti vel komið fyrir, að kaupfélög og kaupmenn sæju sér ekki fært að taka afurðir eins og t.d. ullina, sem ég gat um áðan, gegn staðgreiðslu, með verði, sem hagstofan setti, án þess að verða brotlegir við l.