04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Einar Olgeirsson:

Það vill oft verða dálitið erfitt, þegar löggjafinn á að fara að semja l., sem grípa inn í ákveðin lögmál viðskiptalífsins, og er einmitt dálitið „interessant“ að athuga það frv., sem hér liggur fyrir, frá því sjónarmiði.

Um 1. gr. frv. er ekki nema allt gott að segja. Þar er verið að tryggja, að ekki sé hægt að draga svo og svo lengi að greiða afurðaverð seljandanum í óhag eða að hægt sé að jafna greiðslur upp með skuldajöfnuði.

Fyrir um 40 árum var það gert að skyldu að greiða verkamönnum kaup sitt í reiðu fé, en þá var til allrar óhamingju samt sleginn sá varnagli, að þetta þurfti ekki að koma til greina, ef öðruvísi hafði verið um samið milli vinnuveitenda og verkamanna. Þetta hefur kostað verkalýðinn mikið. Miklu starfi hefur verið fórnað til þess að fá þetta numið burtu, að ekki væri hægt að kúga verkamanninn til þess að semja um greiðslu launa sinna honum til stórkostlegra óþæginda. Það er nú fyrst á þessum seinustu árum, að verkalýðssamtökin hafa orðið það sterk að geta létt þessu af sér og fengið laun sín útborguð á víssum tímum með víssu millibili. Þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að okkur sé illa við eitt atriði í þessu frv., í 1. gr., þ.e.a.s. orðin: „nema svo hafi áður verið sérstaklega samið um. En ég get svo sem vel skilið þá, sem séð hafa sig knúða til þess að koma fram með þetta ákvæði í frv. Þessi ákvæði rekast svo á í öllum viðskiptum í okkar kapitalistiska þjóðfélagi. Ef það væri ákveðið, að enginn mætti hafa skuldaviðskipti, mundu þessi l. reka sig á hinn grimma veruleika.

Það er yfirleitt erfitt að selja vörur, eins og nú stendur. Þegar þetta „idiotiska“ lögmál markaðslögmálið — er látið gilda, þá rekur það sig á. Þeir, sem geta keypt vörurnar, vilja ekki kaupa þær. Þá verða árekstrar, kreppur skapast. Þegar verið er að tala um að skylda menn til að selja vörur með ákveðnum skilmálum, þá er það ekki hægt. Það verður að taka til athugunar allt viðskiptakerfið í heild. Það er ekki hægt að segja bændum að selja svo og svo vöru sina. Ég býst ekki við, að það sé verið að setja þessi l. vegna ástandsins, sem nú ríkir, — setja þau fyrir það tímabil, sem nú stendur yfir, — a.m.k. væri það ekki hyggilegt. Það ætti heldur að setja lög fyrir tímabilið eftir stríðið, l. um greiðslu íslenzkra afurða, sem koma ætti að gagni þá. Ég veit það ósköp vel, að það er ekki hægt að setja slíka löggjöf án þess að gripa mjög róttækt inn í viðskiptalífið, róttækar inn í allar greinar þess en þetta frv. gerir ráð fyrir.

Viðvíkjandi 2. gr., þá er þar tvennu blandað saman, — tvö mismunandi verk, sem unnin eru. Annars vegar að setja reglur um, hvernig bezt sé að haga sölu íslenzkra afurða, hins vegar skuldaviðskipti þeirra, sem kaupa og selja þessar vörur. Þetta ætti að vera aðskilið. Það ætti að vera verkefni sérstakra lánsstofnana að lána út á þessar vörur. Það ætti ekki að gefa kaupmönnum eða samvinnufélögum sérstakt vald í þessu efni, vegna þess að í því felst hætta. Þegar ríkið fer að setja svona lög, ætti það sjálft að hafa lánsstofnun, sem lánaði sjómönnunum út á fiskinn og bændum út á afurðir sínar. Það er hægur vandi fyrir þm. að setja reglur um, að bankinn skuli lána svo og svo mikið út á þessar vörur. Ef menn vilja stíga svona skref, verða menn að gera meira og sjá, hvað á eftir kemur, ef menn vilja gera eitthvað annað en „bluff“. Það þarf að gera „sósíalistiskar“ ráðstafanir.

Ég set þetta ekki fram af því, að ég búist við, að orð mín um þetta efni hafi áhrif, heldur til þess að minna á, að ekki þýðir að setja lög nema menn horfist í augu við veruleikann. Ef menn vilja gera eitthvað, en slá vindhögg, verða menn að vera við því búnir að taka afleiðingunum og stiga næstu skrefin þar á eftir.

Ég býst ekki við, að þetta sé sérstakt stórmál, eins og ég lít á þetta frv. Ég kynni betur við fyrir mitt leyti, að samvinnufélögin væru skuldbundin í þessu efni. Það gæti verið óþægilegt fyrir samvinnufélög að verða að borga mikið út, en hins vegar væri það nauðsynleg trygging hag bænda gagnvart sumum kauplélögum, ef þeim bæri að borga helming skaða. Margt mælir með þessu frv., en alltaf er það athugavert að setja lög án þess að vita vel, hvernig háttar til. Það, sem á einum stað er til réttlætingar, getur á öðrum verið til bölvunar. — Þetta eru hugleiðingar fremur en till., enda mundi eigi þýða að bera till. fram.