30.11.1942
Neðri deild: 7. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég þarf ekki að endurtaka mjög efni þessa frv. Það hefur oft verið flutt hér í hv. d. á síðari árum og einu sinni í hv. Ed. í líku formi. Það hefur jafnan hnigið í þá átt að efla sjóðinn, svo að hann yrði hlutverki sínu betur vaxinn. En þetta mál hefur gengið hægt. Það er fyrst nú, að menn virðast almennt álíta, að nota beri tekjur útgerðarinnar

til þess að tryggja framtíð atvinnurekstrarins, og þetta frv. beinist einmitt í þá átt. Þær breyt., sem einkum hafa verið gerðar á frv. frá því, sem það var, eru einkum þær, að sjóðnum eru ætlaðar miklu meiri tekjur en hann hefur nú. Áformað er, að tekjurnar verði, fyrir utan auknar vaxtatekjur, 1/8% af verði útfluttra sjávarafurða og 11/2% útflutningsgjald af sjávarafurðum, er runnið hefur til ríkisins samkv. l. frá 1935. Nú skal þetta gjald renna til sjóðsins, og er þetta að vísu gömul krafa.

Önnur breyt., sem frv. leggur til, er sú, að sjóðurinn starfi eingöngu með eigin fé, en ekki lánsfé, og er það bundið við, að hann lækki útlánsvexti sína ofan í 3%. Það þykir nauðsynlegt að hafa vextina lága. Lánstíminn er fremur stuttur, og afborganir geta orðið nógu erfiðar, þótt háir vextir íþyngi ekki að auki. En vitanlega getur sjóðurinn ekki séð fyrir stofnlánum til allrar útgerðarinnar með þessu fyrirkomulagi, enda hefur svo verið, að fjár til stórframkvæmda hefur verið aflað sem lánsfjár erlendis. En ef sjóðurinn ætti að veita slík stofnlán strax, þá má búast við lántökum. Breytingu í þessa átt mætti þá greiðlega koma fram, ef reynslan sýndi, að sjóðsins yrði leitað vegna slíkra stórframkvæmda.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir nýmæli eða deild, er veiti styrki til vélbátabygginga, og er þá fyrst og fremst miðað við, að nú er byggingarkostnaðurinn 4–6 falt meiri en fyrir stríð. Ef menn byggja skip á þessum tímum, þá er stofnkostnaðurinn það mikill, að menn fá ekki staðizt verðfall og kreppu, nema þeir séu svo auðugir, að þeir geti afskrifað eftir þörfum. En nú er ekki ætlunin, að útvegurinn sé eingöngu rekinn af auðmönnum, heldur af almenningi, og t.d. skipstjórar sem hásetar geti eignazt sín eigin skip smátt og smátt. En eins og nú horfir við, þá stöðvast útgerðin, ef ekki er þegar fundið ráð til að gera bátaeigendum fært að afskrifa þegar nokkuð af stofnkostnaði. Sökum hinna miklu tekna af útveginum, sem í mörgu hefur verið varið til fjarskyldra efna, þá virðist mér nú vel til fallið að tryggja viðgang útvegsins sjálfs með sjóðstofnun, er veiti styrki til bátabygginga. Þetta er þó ekki algert nýmæli. Fyrir fáum árum samþykkti hv. Alþingi fjárveitingu um 1/2 millj. kr. til byggingar á tveimur togurum. En frá því var þó horfið, en tekið að byggja fiskibáta eftir minni uppástungu. Þetta var rétt fyrir stríð. Fyrir bragðið eiga landsmenn svo nokkra nýja báta, sem þeir annars að líkindum hefðu ekki átt.

Menn eru yfirleitt orðnir fráhverfir styrkveitingum, vegna þess hugsunarháttar, sem þær þykja skapa. En þar ber vel að greina á milli þarfra og óþarfra styrkja. Í þessu máli mun enginn líta svo á, að um þurfamennsku sé að ræða. Styrktarféð á að renna frá sjálfri útgerðinni.

Ég get því ekki ímyndað mér, að menn snúist gegn þessu. Þetta er ekkert annað en það, að útgerðin sjálf leggur fram fé til að tryggja sina eigin framtíð, svo að hægt sé að endurbyggja flotann, og reynslan hefur sýnt, að það er sjórinn, sem verður að gefa mest fjármagnið, og að landið er þá verst statt, ef hann bregzt á einhvern hátt.

Ef menn nú athuga, hve mikið fé liggur í skilaum landsmanna sem stendur (það mun ekki minna en 5000 krónur á hverja smálest í skipunum upp til hópa), þá sjá þeir, hve smávægilegt það fé er, sem nú er varið til stofnlána.

Ég hef hér látið fylgja grg. nokkrar tölur um Fiskveiðasjóð. Samkvæmt þeim eru nú eigur hans alls rúmar 4 milljónir króna. Það er bersýnilegt, að ekki er mikið fé handbært til útlána, á meðan meira fé er ekki til í sjóðnum, enda eru nú útlánin ekki meira en 3,3 milljónir króna. Eignir sjóðsins eru þannig til komnar, að ríkið lagði eitt sinn fram 1 millj. króna auk lítils stofnfjár, og svo hefur sjóðurinn einnig fengið um 850 þús. krónur frá skuldaskilasjóði útvegsmanna. Það, sem hann á fram yfir þetta, eru vaxtatekjur. En nú er sjóðurinn orðinn 40 ára, og aukningin er því hægfara, enda hefur það verið svo, að ekki einu sinni hv. þm. hafa hingað til sýnt þeim frv. skilning, sem fram hafa verið borin honum til eflingar. En nú virðist vaxandi skilningur fyrir þessu máli og því tímabært að flytja þetta frv. hér, ef dæma má eftir ummælum í blöðum allra flokka um, að tryggja þurfi framtíð atvinnuveganna.

Að endingu vil ég svo biðja hv. d. að greiða fyrir þessu frv. og vísa því til 2. umr. og sjútvn.