30.11.1942
Neðri deild: 7. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Finnur Jónsson:

Ég bjóst ekki við því, að aths. minni yrði illa tekið, eftir að allir flokkar voru búnir að lýsa yfir því, að þeir vilji efla fiskveiðasjóð. Þær yfirlýsingar ættu að vera vel þegnar, þar sem ætla má, að þær tryggi málinu greiðan framgang. Ég ætlaði ekki að hleypa hv. 7. þm. Reykv. upp, en ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, að hann rifji upp sögu málsins. Annars hefur verið góð samvinna milli okkar í sjútvn., og við höfum jafnan staðið að þeim till., sem lengst hafa gengið. En ég hef séð það á undanfarandi þingum, að hann hefur haft því nær sérstöðu innan síns flokks og sá lofsverði áhugi, sem hann hefur sýnt á þessum málum, hefur ekki verið fyrir hendi hjá ýmsum samflokksmönnum hans hér á þingi. Sjálfstfl. hefur haft það til að syngja nokkurn tvísöng um þetta mál. Ég gæti tekið undir það, að sá stuðningur sé mest verður, sem kemur fram í verkinu, og vil því óska þess, að hv. 7. þm. Reykv. megi fá einlægan stuðning innan Sjálfstfl., en það má hann eiga, að sjálfur hefur hann jafnan haldið fast á þessum málum.