13.01.1943
Neðri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. — Það mun mega telja rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að í n. hafi verið gott samkomulag um aðalatriði þessa frv. Eigi að síður kom n. þó ekki saman um afgreiðslu þess héðan úr hv. d. Ég vil nú gera grein fyrir, hvernig á því stendur, að n. klofnaði um mál þetta og ég er nú í minni hluta. Álit minni hl. er birt á þskj. I83, og var því útbýtt á þessum fundi. Ég geri því ekki ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynnt sér það rækilega, og vil þess vegna rif ja upp það, sem í nál. stendur, með nokkrum orðum.

Frv. þetta er um breyt. á l. nr. 110 9. okt. 1941, um fiskveiðasjóð Íslands. Þar er aðallega um fjórar breyt. að ræða.

Í fyrsta lagi er lagt til, að útflutningsgjald það af sjávarafurðum, sem nú rennur í ríkissjóð, renni framvegis í fiskveiðasjóð. Þetta tel ég skipta mestu af þeim nýmælum, sem í frv. felast. Það er næsta mikilsvert fyrir sjávarútveginn að fá þennan tekjustofn í sínar hendur. Það hefur oft komið til greina hér á hv. Alþ. að gera þessa breyt., en hefur hingað til strandað á því, að ekki hefur verið talið fært að svipta ríkissjóð þessum tekjustofni. Nú er nokkuð öðru máli að gegna, og er það því álit mitt, að þessa breyt. eigi að gera nú, því að efamál er, hvort betra tækifæri gefist síðar. Annað aðalatriði frv. er, að lántökuheimild fiskveiðasjóðs, sem nemur allt að 4 millj. kr., falli niður. Þriðja atriðið er um að lækka útlánsvexti sjóðsins úr 41/2% niður í 3%. Fjórða atriðið er um, á hvern hátt verja skuli hluta af útflutningsgjaldi fiskveiðasjóðs, og gerir frv. ráð fyrir, að þriðjungi þess fjár auk 2 millj. kr. sérstaks framlags úr ríkissjóði sé varið til að veita styrki til skipakaupa og skipabygginga allt að 14 hluta kostnaðarverðs. Enn fremur gerir frv. ráð fyrir, að stj. fiskveiðasjóðs, sem er nú stj. Útvegsbanka Íslands, úthluti styrkjunum.

Auk áðurgreindra fjögurra aðalatriða eru í frv. nokkur minni ákvæði, og eru þau helzt, að lán megi greiða í þrennu lagi, meðan á byggingu skips stendur, og að eingöngu 1. veðréttar lán séu heimil úr sjóðnum.

Ég vil minna á, að síðast var l. um fiskveiðasjóð breytt á Alþ. 1941, eða fyrir aðeins 11/2 ári síðan. Aðalbreyt. þá voru í því fólgnar, að sjóðnum var fenginn í hendur 1/4 hluta af útflutningsgjaldi ríkissjóðs, lántökuheimild hans var hækkuð upp í 4 millj. kr. úr 11/2 millj., og er það öfugt við það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þar eð lántökuheimildin á samkvæmt því að falla niður, hann fremur var árið 1941 lánstíminn lengdur úr 12 upp í 15 ár og útlánsvextir lækkaðir úr 51/2% niður í 41/2%, og þar með færðir í samræmi við vexti af landbúnaðarlánum, sem eru nú 4–5%.

Ég hef nú í stærstu dráttum rifjað upp þetta frv., sem hér er til umr., og enn fremur, hvenær síðast voru gerðar breyt. á l. og hverjar þær voru.

Ég kem þá að því, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á, þ.e. að sjútvn. hafi ákveðið að leita álits sérfróðra manna um frv. Frumvarpið var sent fimm aðilum til umsagnar, og eru þeir: fiskveiðasjóður, Fiskifélag Íslands, fiskimálan., Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Landssamband útgerðarmanna. Hv. frsm. láðist nú að geta þess, að fimmta aðilanum hefði verið sent frv. til umsagnar, en sú vansögn meiri hl. mun e.t.v. stafa af því, að ekkert svar hefur enn þá borizt frá þeim aðila. E.t.v. mætti draga þá ályktun af því, að þeim aðila þætti lítið til koma nýmæla þeirra, sem í frv. eru, en þó skal ég ekkert fullyrða, að það sé af þeirri ástæðu, sem ekkert svar hefur borizt. Frá fjórum þessara stofnana, fiskveiðasjóði, Fiskifélaginu, fiskimálanefnd og Farmanna- og fiskimannasambandinu, hafa borizt svör til n., og hv. frsm. meiri hl. hefur rakið þessar umsagnir allýtarlega. Ég vil segja það um þessar umsagnir hinna fjögurra aðila, að mér virðist, þegar þær eru athugaðar gaumgæfilega, að það sé eitt atriði, sem þessar fjórar stofnanir séu sammála um, að stefni til bóta, og það er, að fiskveiðasjóður fái umráð yfir útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. En þegar þessa er sleppt, þá virðist mér stofnanirnar ekki vera hlynntar frv., því að yfirleitt er svo, að hin ákvæði frv. sæta ýmist mótmælum einnar eða fleiri þessara stofnana og stundum allra. — Allar eru þær mótfallnar því að fella niður lántökuheimild sjóðsins, og ein stofnunin vill hækka hana, enda hefur meiri hl. lagt til, að sú gr. frv., sem um þetta fjallar, verði felld niður, en það er 2. gr. Viðvíkjandi vaxtahækkuninni telur stjórn fiskveiðasjóðs eigi ástæðu til, að sú breyt. verði gerð, hún telur hækkunina, sem gerð var árið 1941, nægilega, og mér hefur skilizt, að eigi hafi borizt neinar umkvartanir um of háa vexti frá viðskiptamönnum sjóðsins. Hins vegar eru hinir þrír aðilarnir hlynntir þessari breyt. Mér fyrir mitt leyti finnst eðlilegast, að útlánsvextirnir séu ákveðnir með hliðsjón af vöxtum svipaðra tegunda lána hér á landi, enda getur það verið mjög erfitt fyrir Alþ. að vera sí og æ að breyta þessum ákvæðum án þess að taka önnur lánakerfi landsins til meðferðar. Þetta mun hafa vakað fyrir stj. fiskveiðasjóðs ásamt því, að eigi hafi neinar kvartanir borizt henni um of háa vexti.

Þá mun ég víkja nokkrum orðum að styrkjunum. Sá háttur tíðkaðist fyrir stríð að veita styrki til byggingar fiskibáta. Styrkúthlutun þessi náði til allmargra fiskibáta. Síðar, þegar hagur útgerðarinnar batnaði, féll þessi starfsemi niður. Nú gerir frv. ráð fyrir, að þetta sé tekið upp á ný og sett í samband við fiskveiðasjóð. Umsagnir áðurnefndra stofnana um þetta atriði eru yfirleitt á móti því, að lánstofnun úthlutaði styrkjum. Stj. fiskveiðasjóðs og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands leggja eigi áherzlu á, að styrkjaleiðin sé farin.

Farmanna- og fiskimannasambandið virðist hafa tekið þetta mál ýtarlega til athugunar og gerir margar till. um það. Það leggur áherzlu á, að þeir, sem byggja skipin, eigi kost á lánum út á 2. og 3. veðrétt. Það virðist leggja áherzlu á, að þeir, sem byggja skipin, geti fengið sem mest fé upp í stofnkostnað, þó að þeir verði að taka það að láni. Þeirra hugmynd er, að 1. veðréttar lánin séu með lágum vöxtum og góðum kjörum, en svo sé líka hægt fyrir fiskveiðásjóð að lána út á síðari veðréttina, svo að upphæðin, sem samtals sé hægt að fá, geti orðið talsvert há, en leggja minna upp úr, þó að vextir séu hærri af þessum 2. og 3. veðréttar lánum, áhættulánum, sem þeir kalla svo. Það er sammála öðrum um, að úthlutun styrkja, ef þeir eru greiddir, eigi ekki að vera í höndum þeirrar stofnunar, sem annast lánin, og telur, að hún eigi að vera í höndum fiskimálanefndar.

Um minni háttar atriði, sem ég nefndi áðan, er sama að segja, að þau fá ekki alls kostar góðar undirtektir. Stjórn fiskveiðasjóðs virðist því andvíg, að lánin séu borguð í þrennu lagi, en vill fá að veita bráðabirgðalán, meðan skip eru í byggingu. Ég gat um það áðan, að Farmanna- og fiskimannasambandið hefði gert mjög ýtarlegar till. um þetta mál, einna ýtarlegastar af þessum aðilum. Hefur það gert fleiri till., sem standa í nánu sambandi við þetta mál. T.d. stingur það upp á því að koma á sérstakri tryggingu fyrir sjóveðshættu, svo að skipin verði veðhæfari en ella. Það hefur beint því til sjútvn., að settar verði tvær n., sem sérstaklega athugi tvö atriði: hvaða stærð og tegund fiskiskipa sé hentugust hér við land og hvaða tegundir mótorvéla séu hentugastar. Farmanna- og fiskimannasambandið beinir því til sjútvn., að hún gangist fyrir, að tvær n. séu settar til að athuga þessi mál, og séu í annarri n. vélfræðingar. Mér virðist þessi till. vera mjög í samræmi við till., sem fram hefur komið á Alþingi um mþn. í sjávarútvegsmálum.

Ég hef þá rakið þessar umsagnir, sem n. hafa borizt. Út úr þeim les ég þetta, og það virðist mér hver maður hljóta að gera, sem les þær nákvæmlega, að þar er talið mjög æskilegt, ef hægt er, að útflutningsgjaldið fengist úr ríkissjóði sem fastur tekjustofn til sameiginlegra þarfa sjávarútvegsins. Um hin atriðin er yfirleitt ágreiningur, sums staðar mikill ágreiningur. Um sum atriðin, t.d. hver eigi að úthluta þessum styrkjum, er það svo, að allir, sem þar hafa verið spurðir ráða, leggja á móti, að það sé eins og í frv. Niðurstaða mín við lestur þessara umsagna og eftir nána athugun á málinu er því sú, að að svo stöddu beri, með hagsmuni sjávarútvegsins fyrir augum, að leggja áherzlu á, að þessi tekjustofn fáist sjávarútveginum til handa, en hin atriðin. séu öll þannig vaxin, að rétt sé, að þau fái nánari athugun, a.m.k. til næsta Alþingis, sem nú mun skammt að bíða. Það verður að reyna að sameina þau sjónarmið, sem fram hafa komið í þeim stofnunum, sem þessu máli eru kunnugastar og hafa gefið n. upplýsingar sínar og ráð. Ég gæti trúað, að til þess að hægt væri að koma styrktarstarfseminni á, yrði að gera ýmsar breyt. á málum sjávarútvegsins, sem er ekki hægt að gera nema að undangenginni vinnu mþn., og þess vegna sé það beint skilyrði til þess, að þessu máli verði ráðið farsællega til lykta, að slík athugun fari fram í mþn.

Ég hef þess vegna lagt til í n., að n. beiti sér fyrir þeirri afgreiðslu, að ríkissjóður gefi nú þegar eftir þennan tekjustofn, útflutningsgjaldið. Mér virtist eðlilegast, að það væri gert á þann hátt, að borið væri fram sérstakt frv. um þetta atriði út af fyrir sig, — það þarf ekki að koma við l. um fiskveiðasjóð og óþarft að blanda því þar inni, — og hins vegar, að n. stytti þá till., sem fram hefur komið um skipun mþn. í sjávarútvegsmálum, og að því lýtur sú rökstudda dagskrá, sem minni hl. n. hefur leyft sér að bera fram á þskj. 183. Í samræmi við þessa afstöðu hefur minni hl. einnig borið fram frv. til l. um nýbyggingarsjóð fiskiskipa. Það liggur hér fyrir, er 102. mál, á þskj. 165, og er 9. mál á dagskrá í dag. Ég ætla auðvitað ekki að ræða það mál sérstaklega nú, en af því að ekki virðist komizt hjá því í sambandi við þá afgreiðslu, sem minni hl. leggur til, að höfð verði, vil ég geta þessa frv. lauslega. Þar er lagt til, að útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem nú rennur í ríkissjóð, verði frá 1. jan. 1943 tekið til geymslu í svokallaðan nýbyggingarsjóð fiskiskipa, sem frv. gerir ráð fyrir, að verði stofnaður undir umsjón ríkisstj. Minni hl. hefur svo hugsað sér þá meðferð málsins, að mþn. í sjávarútvegsmálum tæki til athugunar í samráði við ýmsar stofnanir þau atriði önnur en fjáröflunina, sem í frv. því felast, sem hér liggur fyrir. Þegar því væri lokið og n. hefði gert till. sínar, sem ég vil vænta, að geti orðið þegar á næsta þingi, þá verði teknar nánari ákvarðanir um það, hvernig nýbyggingarsjóði yrði varið. Út í það fer ég ekki frekar nú, en geri það í sambandi við frv. sjálft, þegar það kemur hér til umr.

Ég skal, áður en ég lýk máli mínu, minnast á þær brtt., sem meiri hl. sjútvn. hefur borið fram á þskj. 164. Ég get sagt það, að ef Alþingi á annað borð vill afgr. þetta frv. nú þegar, að verulegu leiti ofan í ráðleggingar þeirra stofnana flestra, sem sérþekkingu hafa á málefnum sjávarútvegsins, þá mundi ég telja þessar till., sem fyrir liggja á þessu þskj., heldur til bóta. Svo er að segja um fyrstu brtt. Ég tel hana ótvírætt til mikilla bóta. Eins er með brtt. við 2. og 3. gr. Ég tel rétt, að lánveitingarheimild til dráttarbrauta sé innan þeirra takmarka, sem reglur um sjóðinn setja. Um 4. brtt. vil ég segja það, að mig furðar nokkuð á því, fyrst meiri hl. fór að reyna að búa til lagaákvæði um þetta efni, að hann skyldi ekki gera tilraun til að hafa þau nokkru ákveðnari. Þessi 4. liður í brtt. n. er breyt. við 6. gr. frv., en hún er um styrkveitingar til fiskiskipa. Hv. frsm. meiri hl. gerði nokkra grein fyrir þessari breyt., m.a. því, að binda hámark styrksins við 75000 kr. En auk þess virðist meiri hl. hafa hugsað sér með þessu ákvæði að koma í veg fyrir, að styrkurinn fari til óverðugra. Hann vill tryggja, að styrkurinn renni til að byggja fiskiskip fyrir menn, sem lifa á að stunda fiskiveiðar. Ég geri að vísu ráð fyrir, að takast mætti að setja ákvæði þessu til tryggingar, þó að meiri hl. virðist ekki hafa tekizt það. Og vera má, að hv. 6. landsk., sem hefur hér nokkurn fyrirvara og áskilur sér rétt til að flytja brtt., hafi verið ljóst, að þessi ákvæði, sem í brtt. felast, mundu ekki vera sérstaklega þýðingarmikil. Meiri hl. n. gerir ráð fyrir, að stj. setji reglugerð um þessar styrkveitingar og í reglugerðinni skuli vera ákvæði til tryggingar því, að styrkirnir verði ekki misnotaðir með því að verzla með þá eða á annan hátt. Einnig er þar ákvæði um, að við úthlutun styrksins skuli taka tillit til þess, hvort umsækjandi hafi áður stundað sjómennsku eða útgerð sem aðalstarf. Það er ekkert tekið fram um, að hann þurfi að hafa stundað sjómennsku eða útgerð sem aðalstarf um það leyti, sem hann hóf að byggja skipið, heldur aðeins að hann hafi stundað hana einhvern tíma áður, og er ekki mikil stoð í slíku ákvæði. Svipað er að segja um fyrirmælin um, að í reglugerðinni skuli vera ákvæði til tryggingar því, að styrkirnir verði ekki misnotaðir með því að verzla með þá eða á annan hátt. Þetta eru svo ónákvæm fyrirmæli sem verða má, ef á annað borð eru sett fyrirmæli. Annars virðist mér, að fyrir meiri hl. n. hafi hér vakað eitthvað svipað og þeim, sem gengust fyrir, að hin svokallaða 17. gr. var sett inn í jarðræktarl., því að með henni átti að koma í veg fyrir, að verzlað væri með jarðræktarstyrkinn. Ég hafði talið sjálfsagt, að þessi ákvæði yrðu fyrst og fremst sett í l. sem leiðbeining fyrir reglugerð á sínum tíma. En allt um það sýnir þessi till. meiri hl. viðleitni í rétta átt og að meiri hl. hefur gert sér ljóst, að tryggja þarf, að styrkurinn verði ekki seldur, og því mundi ég telja rétt að samþ. þessa till., ef frv. á annað borð væri samþ. En þó væri mjög æskilegt að sjá framan í þau róttækari úrræði, sem hv. 6. landsk. virðist hafa hugsað sér til að tryggja, að styrkurinn verði ekki seldur.

Niðurstaða mín verður því þessi, og skal ég ljúka máli mínu með því, að rétt sé að afgr. frv. með þeirri rökst. dagskrá, sem ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 183 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að Alþingi samþykki frv. til l. um nýbyggingarsjóð fiskiskipa ag till. til þál. um mþn. í sjávarútvegsmálum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá:

Hins vegar vil ég mæla með því mjög ákveðið og mun gera það síðar í sambandi við frv. til l. um nýbyggingarsjóð fiskiskipa, að nú verði gerð alvara úr því, að sjávarútveginum verði afhent útflutningsgjaldið af sjávarafurðum til sameiginlegra þarfa hans og þá sérstaklega til nýbyggingar fiskiskipa.

Finnur Jónsson: Það er mjög ánægjulegt að heyra hv. þm. N.-Þ. lýsa yfir því, að nú sé réttur tími til þess að afhenda sjávarútveginum útflutningsgjald af sjávarafurðum til þess að byggja upp fiskiflotann. Mér þykir vænt um, að hv. þm. N.-Þ. er nú kominn á þessa skoðun, en að öðru leyti þótti mér ekki vænt um, hvernig hann á ýmsan hátt afflutti það frv., sem hér er til umr., og gekk jafnvel svo langt, að hann gaf rangar skýringar á þeim umsögnum, sem um frv. hafa komið frá ýmsum stofnunum, sem sjávarútveginn varða. Hann sagði m.a., að umsagnirnar væru á móti því, að styrkveitingar ættu sér stað til bátabygginga. (GG: Ég sagði, að stofnanirnar legðu meiri áherzlu á aðra aðferð). Nú segir t.d. fiskimálanefnd, að hún telji sig samþykka frv. í heild. Það eina, sem hún telur sig hafa við frv. að athuga, er það, að hún telur réttara, að hún úthluti styrknum en stjórn fiskveiðasjóðs. Farmanna- og fiskimannasambandið er sömu skoðunar, en þar sem það leggur til, að úthlutunin sé í höndum fiskimálanefndar, en ekki fiskveiðasjóðs, verð ég að telja það meðmæli með því, að slíkur styrkur sé veittur. Fiskifélag Íslands mælir á engan hátt á móti styrk, en leggur aðeins til, að Fiskifélagið, að því er mér skilst, hafi styrkveitingarnar með höndum. Stjórn Fiskveiðasjóðsins sjálf segir, að ekki sé nema gott eitt um það að segja, að bátabyggingar séu styrktar, og ítrekar það á þann hátt, að þeir segja, að sjóðsstj. telji fulla ástæðu til þess, eins og nú sé háttað um byggingarkostnað. Ég fæ ekki skilið, hvernig hv. þm. N.-Þ. getur kallað, að þessir aðilar séu á móti því, að styrkur sé veittur til bátabygginga, þar sem þeir leggja áherzlu á slíkar styrkveitingar. Hv. þm. leggur mikið upp úr umsögn Farmanna- og fiskimannasambandsins. Sú umsögn er á margan hátt merkileg, en hún gengur lengst í að óska eftir tekjum handa sjóðnum. Það leggur til, að allt útflutningsgjaldið, líka það, sem nú fer í fiskimálasjóð, fari til fiskveiðasjóðs og ríkissjóður leggi fiskveiðasjóði 3 millj. kr. á ári auk þess, þangað til sjóðurinn er orðinn 20 millj. kr. Þar sem hann leggur mest upp úr umsögn Farmanna- og fiskimannasambandsins, þá hefði hann átt að taka upp þessa tillögu þess og sjá, hvaða undirtektir hún hefði fengið. En þó að ég bendi á þennan lið í umsögn Farmanna- og fiskimannasambandsins sem eftirtektarverðan, þá eru nokkrir aðrir liðir þar, sem eru ekki eins vel uppbyggðir, eins og t.d. sú till., að ef afborganir og vextir eru ekki greiddir á réttum degi, sem oft hefur dregizt og þarf ekki óskilamenn til, þá sé heimilt að reikna 1% dráttarvexti fyrir hvern hálfan mánuð eða minna, sem greiðsla dregst, svo að dráttarvextir yrðu 24% fyrir þá, sem ekki gætu staðið í skilum í eitt ár. Ég tel ekki líkur til, að slíkar till. fái góðar viðtökur útvegsmanna. Það má segja, að allt þetta séu meðmæli með því, að tekjur fiskveiðasjóðs séu auknar eins og stungið er upp á í frv. Það er því mjög villandi, er hv. frsm. minni hl. telur, að stofnanir þær, er hann nefndi, séu yfirleitt á móti þessu frv., enda er það svo, að eins og Alþ. hefur búið að lánsstofnunum handa sjávarútveginum, er ekki sjáanlegt, að ætlazt hafi verið til þess, að þjóðin héldi áfram að lifa á fiskveiðum. Fyrir nokkru var sett á fót sérstök lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, Búnaðarbankinn. Reyndar má segja, að Útvegsbankinn sé tilsvarandi lánsstofnun fyrir útveginn, en honum er þó í raun og veru ætlað annað hlutverk og er engan veginn hliðstæður Búnaðarbankanum í þessu efni. Útveginum hefur því verið gert mun lægra undir höfði en landbúnaðinum. Fiskveiðasjóðurinn hefur vaxið mjög hægt, og það er engan veginn hægt að segja, að þetta frv. mundi hafa byltingu í för með sér að þessu leyti, þó að það næði samþ. Það tók sjóðinn 10 ár, 1930 — 1940, að vaxa um eina millj. kr. Af hálfu Alþ. var ekki betur að honum búið en svo. Loksins á árinu 1941 fékk hann útborgaðar 800 þús. kr. af þeirri milljón, sem ætlazt var til, að ríkissjóður legði honum til í upphafi. Breyting sú, sem gerð var á síðast liðnu ári, var til nokkurra bóta, en þó ekki nema um stundarsakir. Þó að höfuðstóll sjóðsins væri rúmar 4 millj. kr. 31. okt. 1942, virðist það ekki mikil upphæð, ef sjóðurinn á að standa undir stofnlánum til fiskibáta. Nú er mikið um það talað, að auka verði fiskibátaflotann, en hv. frsm. minni hl. vill þó einskorða starfsemi sjóðsins við stofnlán, en vill ekki láta veita úr honum styrki til nýsmíða. Nú hafa um nokkur ár verið veittir styrkir til ýmiss konar framkvæmda í sveitum, svo sem jarðræktar og húsasmíði. Ég tel, að styrkir til nýsmíði fiskiskipa mundu vera mjög hliðstæðir jarðræktarstyrknum. En þó stendur nú sérstaklega á um fiskiflotann, því að ekki er annað sýnna en hann dragist mjög saman, ef ekki eru gerðar ráðstafanir í líkingu við þær, sem stungið er upp á í frv. Kostnaður við skipasmiðar er þegar orðinn svo mikill, að engin von er til, að menn leggi út í slíkt, ef Alþ. hleypur þar ekki undir bagga. Smíðakostnaður mun vera kominn upp í 10 þús. kr. á smálest, og eftir því mundi 50 smálesta bátur kosta hér um bil hálfa millj. kr.

Ég vil nú spyrja hv. þm. N.-Þ., hvað hann vilji gera í þessu máli. Hann hefur að vísu lagt fram frv. um nýbyggingarsjóð fiskiskipa, en annars lítur hann svo á, að málið eigi að bíða þar til væntanleg milliþn. í sjávar útvegsmálum hefur lokið störfum sínum, en sú n. er ekki skipuð enn þá. Hún á, segir hann, að vera búin að skila till. fyrir næsta þing, sem á að hefjast í febrúar. Ég sé ekki, hvernig það má verða, enda tel ég að ekki sé hægt að bíða með þetta mál eftir till. slíkrar n. Og þó að málið sé leyst eins og stungið er upp á í þessu frv., eru eftir næg verkefni handa mþn. þessari. Þetta, sem hér er farið fram á, virðist ekki mikið í samanburði við alla þá styrkjasúpu, sem ausið er í landbúnaðinn og skiptir tugum milljóna, en það, sem farið er fram á með þessu frv., er, að fiskveiðasjóði sé veitt 2 millj. kr. tillag úr ríkissjóði á árinu 1943 og honum skilað útflutningsgjaldinu, sem hv. þm. N.-Þ. viðurkennir þrátt fyrir sitt þröngu sjónarmið, að sjóðurinn eigi fullan rétt á að fá. Ég sé ekki, að nokkur hv. þm. geti haft nokkuð á móti þessari úrlausn, því að hér er víst ekki um að ræða meiri upphæð en svo sem tólfta hluta af því, sem landbúnaðinum er veitt á þessu ári. Það er að vísu ánægjulegt að geta veitt landbúnaðinum háa styrki, en það verður líka að sjá um, að sjávarútvegurinn hafi skilyrði til að geta starfað.