15.01.1943
Neðri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Eysteinn Jónsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr. En ég kvaddi mér hljóðs til að benda á eitt atriði, sem ég er alveg undrandi yfir, að hv. sjútvn., sem vill afgreiða frv. nú, skuli hafa látið fara frá sér óbreytt. Það er sem sé gert ráð fyrir því hér í 6. gr. frv. að styrkja bátabyggingar og skipabyggingar allt að la0 smálesta skipum brúttó, þannig að óendurkræft framlag til hvers skips megi nema allt að 25% af kaupverði eða byggingarkostnaði skipanna, og það er gert ráð fyrir því, að stj. lánastofnunar hafi með höndum úthlutun þessara styrkja, þ.e. að í raun og veru hafi Útvegsbankinn með höndum úthlutun þessara styrkja handa mönnum til þess að byggja fyrir báta. Mér virðist alveg óforsvaranlegt, að mönnum skuli detta í hug, að nokkur lánastofnun í landinu hafi með höndum úthlutun styrkja. Ég er ekki með þessu neitt að deila á stjórn Útvegsbanka Íslands. En það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, um hvaða lánastofnun sem væri að ræða, að menn séu svo miklir englar, að það væri útilokað, að menn leiddust út á þá braut að láta þessa styrki að einhverju leyti eftir viðskiptum stofnunarinnar. Það er ómögulegt að verjast þeirri hugsun, að það gæti komið fyrir hvaða stjórn lánastofnunar sem um væri að ræða, að hún úthlutaði þessum styrkjum að einhverju verulegu leyti með hliðsjón af viðskiptum við lánastofnunina. Mennirnir í stjórnum lánastofnananna geta ekki skipt sér í sundur, og þegar kreppa væri komin og vandræði, gæti sú hætta beinlínis vofað yfir, að þessir styrkir til bátabygginganna gætu orðið notaðir til þess að létta á skuldaskiptum við stofnunina hjá þeim, sem styrkina fá. Ég vil biðja hv. þm. að athuga einmitt þetta atriði gaumgæfilega og gera sér ljóst, hvort ekki væri heppilegra að setja öðruvísi upp þann sjóð, sem á að verja til þess að styrkja bátabyggingar, því að þetta fyrirkomulag um stjórn hans finnst mér alveg óhafandi. Það væri vegur, ef stjórn fiskveiðasjóðs væri gerð sérstæð og hefði ekki nokkurn hlut annan að verkefni en að veita þennan styrk og innheimta fé það, sem á að renna í sjóðinn. En að fela þetta stofnun, sem hefur hvers konar skuldaskipti við útvegun rekstrarlána o.þ.h., það getur ekki gengið. Þetta atriði frv. þarf því gagngerðrar endurskoðunar við.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að till. hv. þm. N.-Þ. um að afgreiða málið með rökst. dagskrá væri ekki í samræmi við það, að hann gæti verið áhugamaður um mál sjávarútvegsins. Hv. þm. N.-Ísf. hefði getað látið sér þessi orð um munn fara, ef hv. þm. N.-Þ. hefði ekki gert annað. En þegar hv. þm. N.-Þ. hefur flutt frv. um að verja útflutningsgjöldunum til hagsbóta fyrir sjávarútveginn, en aðeins með því móti, sem að hans dómi er heppilegra, þá getur lm. þm. N.-Ísf. ekki með nokkru móti látið sér þessi orð um munn fara: Því að hv. þdm. vita, að hv. þm. N.-Þ. hefur flutt frv. — og það liggur opið fyrir, að það geti orðið afgr. eins fljótt og þetta frv., — um stofnun sérstaks sjóðs til nýbyggingar fiskiflotans, sem hefur þann kost fram yfir þetta, að þar er ekki gert ráð fyrir, að þeim sjóði sé stjórnað af stj. einnar rekstrarlánastofnunarinnar í landinu, sem ég tel ekki heldur fært.

Ég ætla ekki að skattyrðast út af þessum orðum hv. þm. N.-Ísf. og tóninum í ræðu hv. 7. þm. Reykv. um þáltill. um milliþn. í sjávarútvegsmálum, enda þótt það hvort tveggja gæfi nokkurt tilefni til andsvara. En ég vil segja, að ef við vildum hafa sams konar dylgjur gagnvart þeim, gætum við sagt, að þeir væru að leita sér að átyllu til þess að vera á móti því, að skipuð verði mþn. í sjávarútvegsmálum, sem er það atriði, sem mestu. máli skiptir að mínu áliti og ég held allra hv. þdm. Ég vil nú ekki gera þetta að mínum orðum. En ég bendi á, að ef við vildum hafa umr. á sama grundvelli og hv. þm. N.-Ísf. og hv. 7. þm. Reykv., þá gætum við sagt, að þeir væru með þessu máli að leita að átyllu til þess að fjandskapast við þáltill. um milliþn. í sjávarútvegsmálum. Ég segi þetta aðeins til þess að vekja athygli á því, hvert það leiðir, ef sífellt er talað í þessum tón.

Ég var hissa á orðum hv. 6. landsk. Hann sagði hér á dögunum, að hann væri á móti styrkjum til bátabygginga, en hallaðist að því, að til þeirra framkvæmda væru veitt vaxtalaus lán. Síðan gerði hann grein fyrir því, af hverju hann væri með því að afgreiða þetta mál nú, og rökstuðningur hans fyrir því var þá sá, að það lægi einmitt svo mikið á að veita þessa styrki, sem hann þó var mótfallinn að veita (eftir orðum hans að dæma), að það yrði að drífa þetta mál í gegn, svo að hægt væri að fara að veita styrkina, sem hann var á móti, að væru nokkurn tíma veittir. Og ég skildi afstöðu hans í þessu þannig, að þegar hann talaði um, að hann væri á móti því að veita styrki, en með því að veita vaxtalaus lán, þá ætti hann með því við það, að þetta mál væri lagt fyrir mþn. í sjávarútvegsmálum.

Ég geri það ekki að kappsmáli, að þetta mál verði afgr. nú í einhverju formi. Mér er ljóst, að öll ákvæði um fiskveiðasjóð koma að sjálfsögðu til álita og endurskoðunar í milliþn., hvort sem þessi breyt. verður orðin að l. eða ekki. En ég lít svo á, að það sé í raun og veru mest aðkallandi að leggja útflutningsgjaldið til hliðar, en svo sé rétt að gefa sér nokkurt tóm til að athuga, hvernig því verði bezt varið fyrir sjávarútveginn, og þess vegna mun ég hallast að því að greiða atkv. með dagskrártill. hv. þm. N.-Þ.