15.01.1943
Neðri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Ég gat því miður ekki hlustað á fyrri ræðu hv. þm. N.- Ísf., en býst við, að efni þeirrar ræðu hafi hann nokkuð endurtekið nú. Ýmsir hafa tekið til máls síðan ég flutti framsöguræðu mína fyrir tveim dögum, en margt af því, sem þeir hafa sagt, gefur ekki tilefni til andsvara. Svo er um ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann ræddi hógværlega og gerði grein fyrir sínu sjónarmiði, en út af fyrir sig gaf hann ekki tilefni til mikilla andsvara. Hins vegar vil ég segja við hv. þm. N.-Ísf., sem var að setjast niður, að ef hann vill stuðla að því, að umr. megi ljúka sem fyrst, er það ekki rétt aðferð að vera með ádeilur á menn út af því, sem þessu máli kemur ekki við, eins og það, að þáltill. um mþn. í sjávarútvegsmálum sé hjal um allt og ekkert. Ég get ekki heldur komizt hjá að leiðrétta ummæli hans um frv. mitt á þskj. 165, um nýbyggingarsjóð fiskiskipa. Hv. þm. sagði, að það frv. væri þvingarlítið, af því að ekkert væri þar minnzt á ýmis helztu atriði, sem í frv. því felast, sem nú liggur fyrir, hvorki minnzt á lækkun vaxta né styrk til byggingar fiskiskipa. Ég hefði talið æskilegt, að um leið og þm. las frv., hefði hann lesið grg., því að þar er beinlinis tekið fram, hvaða verkefni komi til greina fyrir sjóðinn. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð úr henni:

„Á þessu þingi hefur verið borin fram till. um mþn. í sjávarútvegsmálum, sem ætla má, að samþykkt verði, og væri þá eðlilegt, að sú n. legði ráð á um, hversu fénu skuli verja. Koma þar ýmsar aðferðir til greina, svo sem vaxtalækkun á stofnlánum til fiskiskipa, áhættulán gegn 2. og 3. veðrétti í skipum, byggingarstyrkir eða vaxtalaus lán til skipa, og e.t.v., að sjóðurinn láti sjálfur byggja skip, sem seld yrðu eða leigð bæjar- og sveitarfélögum eða fiskimönnum og félögum þeirra.“

Í grg. er þannig beinlínis á það bent, hvaða aðferðir hugsað sé, að til greina komi, en hins vegar hef ég álitið, að réttara væri að slá ekki föstu á þessu stigi málsins, með hverjum hætti fénu yrði varið til endurnýjunar fiskiflotans. Sú skoðun mín byggist á því sérstaklega, að í þeim umsögnum, sem sjútvn. hafa borizt, er þannig á málinu tekið, að það virðist vera mikil þörf á að athuga, hvort ekki sé hægt að koma á einhverju samræmi milli hinna einstöku sjónarmiða, sem þar koma fram. Einmitt með tilliti til þessa hef ég talið heppilegast, að ekki yrði annað gert nú en útvega féð. Enda kom það fram í ræðu hv. 6. landsk. þm., að hann er ekki búinn að gera upp við sig, hvort hann mundi kjósa styrk eða vaxtalaus lán. Hann sagði að vísu, að frá sínu sjónarmiði mundu vaxtalaus lán heppilegri, en getur þó fallizt á, að nú verði ákveðið að veita styrki. Ég vil benda honum á, að það getur verið mjög varhugavert, ef menn hugsa sér, að einhver aðferð sé sérstaklega heppileg, að taka svo upp aðra aðferð, og það mundi hv. 6. landsk. þm. komast að raun um, ef ákveðið væri að veita styrki, þá gæti verið erfitt að koma því til leiðar síðar, að þeirri aðferð væri breytt. Ef öllum, sem nú byggja skip, væru veittir styrkir, mundi þeim, sem byggja t.d. á árinu 1944, þykja sér óréttur ger, ef þeir yrðu að láta sér nægja vaxtalaus lán.

Annars er það svo, að ágreiningurinn á milli meiri og minni hl. n. er ekki, eins og fram hefur verið tekið, um það, hvort útflutningsgjaldið á sjávarafurðum skuli ganga til þarfa sjávarútvegsins. Um það eru allir sammála. Ég vil láta taka í l. nú, að þetta útflutningsgjald verði fengið sjávarútveginum, en sé ekki ástæðu til að blanda þeirri ráðstöfun saman við breyt. á löggjöfinni um fiskveiðasjóð, því að slíkt þarf ekki að fara saman. Um þetta atriði, sem er höfuðatriðið fyrir sjávarútveginn, erum við sammála. Það ætti því að geta gengið fram, svo framarlega sem ekki er hnýtt við það tillögum, sem ágreiningur er um. Ég hygg, að það muni sannast, að afstaða mín í þessu máli reynist heppilegri fyrir sjávarútveginn en afstaða meiri hl. Ég óttast, að afstaða meiri hl. tefli aðalatriði málsins í hættu.

Það er alveg rétt, sem fram hefur verið tekið af hv. 6. landsk. þm., að fiskiflotinn hefur gengið úr sér og þarf raunar ekki að kynna sér neinar tölur til þess að fara nærri um, að svo muni vera. En eins og fram er tekið í grg. frv. míns á þskj. 165, voru samkv. opinberum upplýsingum í árslok I939 talin 615 skip í fiskiskipaflotanum, þilbátar og þilskip, samtals 26432 rúml. Í árslok 1942, eða seint á árinu reyndar, í október, voru talin 526 fiskiskip, samtals 25990 rúml. Rúmlestatalan hefur minnkað nokkuð, en fjöldi skipa hins vegar tiltölulega miklu meira, og skilst mér, að í þessari tölu sé eitthvað af stórum skipum, sem ekki eru í rauninni fiskiskip. Auk þess hafa skipin gengið úr sér, og þess vegna er rýrnun flotanis meiri en rúmlestatalan gefur til kynna.

Frsm. meiri hl., hv. 7. þm. Reykv., lét nokkur orð falla um stj. Útvegsbankans. Ég vildi fara um þessi ummæli hans nokkrum orðum, því að þar gætti nokkurs misskilnings. Ég held, að þeir, sem eru á móti því, að stj. fiskveiðasjóðs úthluti styrkjunum til fiskiskipa, séu það ekki vegna þess, að þeir treysti Útvegsbankanum illa, heldur telji þeir það yfirleitt rangt fyrirkomulag, að lánastofnun úthluti styrkjum til skipa, sem hún sjálf lánar til. Menn óttast, að lánastofnun, sem hefur hagsmuna að gæta, freistist til að haga styrkjunum með tilliti til lánanna. Ég skal ekki segja, að á þessu sé sérstök hætta, eins og stj. fiskveiðasjóðs er nú, en þetta gæti þó komið fyrir fyrr eða síðar. Annars held ég, að öllum hafi þótt eðlilegt, þegar sjóðurinn tók til starfa, að hann væri látinn vera í sambandi við bankann, enda virtist mér koma fram misskilningur hjá hv. þm., þegar hann sagði, að Útvegsbankinn vildi losa sig við óheppileg lán og koma þeim yfir á fiskveiðasjóð. Bankinn getur tæplega fengið betri tryggingar almennt en fiskveiðasjóður hefur fyrir lánum sínum.

Hv. þm. Ísaf. talaði í fyrradag, og, hafði ég punktað hjá mér nokkur atriði úr ræðu hans. Hv. þm. vildi hafa það svo, að ég hefði í ræðu minni „afflutt“ þær umsagnir, sem sjútvn. hafa borizt. Ég veit ekki annað en ég hafi í nál. mínu og framsöguræðu skýrt nákvæmlega rétt frá því, sem fram kom í umsögnunum. Skora ég á hv. þm. að skýra nánar, hvað hann meinar. Mér þætti auðvitað skylt að leiðrétta, ef mig hefði hent það að fara rangt með.

Þá sagði hv. frsm., að gott væri að heyra frá mér, að nú væri rétti tíminn fyrir ríkissjóð að afhenda útflutningsgjaldið til sjávarútvegsins. Ég hef heyrt eftir hv. form. fjvn., að erfiðlega liti nú út með afgreiðslu fjárl. Það, sem ég átti því við með ummælum mínum og hygg, að ég hafi sagt, var það, að ef þetta væri ekki gert nú, þá yrði það tæplega gert síðar, þegar enn erfiðara væri orðið að afgr. fjárl. en nú er.

Hvað því viðvíkur, að þetta mætti hafa verið gert fyrr, þá vil ég leyfa mér að benda á það, að hv. frsm. hefur sjálfur átt sæti í sjútvn. árum saman, og man ég ekki til, að hann hafi hingað til beitt sér fyrir því, að ríkið sleppti þeim tekjustofni.

Hv. þm. Ísaf. var með nokkrar hnútur í sambandi við fjárveitingar til landbúnaðarins. Hann Sagði, að landbúnaðurinn hefði lengi notið jarðræktarstyrkja og þeir styrkir, sem nú kæmi til mála að veita til skipa, væru algerlega sambærilegir við þá. Þetta má vel vera, en ég vil benda hv. þm. á það, að þegar l. um jarðræktarstyrki voru sett, þá var það eftir rækilega athugun málsins í mþn. Eins hefur jafnan verið, ef einhverjar verulegar breytingar hafa ver ið gerðar á jarðræktarlögunum. Þær hafa þá alltaf verið undirbúnar í mþn. Það hefur því verið öðruvísu að þessu unnið en frv. því, er hér liggur fyrir. Og ef hv. þm. vill binda sig við jarðræktarl. og meðferð þeirra, þá hefði hann sízt átt að leggja á móti því, að þetta frv. færi í mþn.

Hv. þm. lét svo orð falla um það, að líkast væri því sem byggingar fiskiskipa hefðu verið framkvæmdar í óviti hér á landi undanfarið. Þetta er nú dálítið hlálegt, og mundi einhverjum þykja vafasamt fyrir ríkið að styrkja slíkar framkvæmdir. Ég man ekki eftir fleiru, sem ástæða :r til að taka fram að svo komnu máli um ræðu hv. þm. Ísaf.

Ég vil að lokum vænta þess, að hv. þm. geri sér ljóst það, sem felst í hinni rökst. dagskrá minni hl. sjútvn. Þar er ekki um neina andúð gegn skipabyggingum né útveginum að ræða, heldur vill minni hl. tryggja, að fjárins verði aflað þegar á þessu þingi og málið undirbúið sem bezt á næstu mánuðum, svo að ráðstafanir verði gerðar að yfirlögðu ráði. Hann telur vafamál, að mikið sé unnið með því að samþykkja nú þetta frv.