15.01.1943
Neðri deild: 33. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Skúli Guðmundsson:

Það hafa þegar orðið talsverðar umr. um þetta mál, um ýmis atriði í frv. og álít meiri og minni hl. sjútvn. En það er eitt atriði í frv., sem ekki hefur verið mikið vikið að, er ég ætla að fara um nokkrum orðum. Það er 5. gr. frv. Með henni er lagt til, að vextir af útlánum verði lækkaðir úr 4.5% niður í 3%.

Ein þeirra stofnana, er n. sendi þetta frv. til álita, þ.e. stj. fiskveiðasjóðs, veik sérstaklega að þessu atriði í umsögn sinni um málið. Sjóðsstj. telur enga ástæðu til þessarar vaxtalækkunar. Bendir hún á, að vextirnir séu lægri en útlánsvextir bankanna, og ef seld verði vaxtabréf fyrir sjóðinn, þá verði ekki hægt að lána það fé út með lægri vöxtum en þeir eru nú, 41/2%. Mér þykir ástæða til að taka þessi ummæli sérstaklega til athugunar.

Það eru allir sammála um, að sjávarútvegurinn eigi að búa við sem bezt vaxtakjör. En þó verður þar að taka ýmislegt til greina. Fyrst er það, hvaða vexti þarf að greiða af sparifé því, er lánsstofnanir fá til útlána. Það mun sízt álitið sanngjarnt gagnvart sparifjáreigendum að lækka meira en orðið er innlánsvextina. Annað, sem kemur til greina, er að athuga vaxtakjör annarra atvinnuvega. Vextir af landbúnaðarlánum eru 4–5%. Nú verður ekki um það deilt, að ósanngjarnt sé, að vextir af veðlánum landbúnaðarins séu hærri en vextir af lánum til sjávarútvegsins. Það er kunnugt, að veð í fasteignum eru álitin tryggari en veð í skipum. Það er því óeðlilegt, að vextir af landbúnaðarlánum séu hærri. Hér koma einnig til samanburðar vaxtakjör iðnaðarins. Það þarf að vera samræmi í vaxtakjörum þessara atvinnugreina. Ég skyldi fagna því fyrir mitt leyti, ef hægt yrði að lækka útlánsvexti fyrir alla atvinnuvegina. En ég er í vafa um, að okkur auðnist að færa aðra vexti niður til samræmingar við það, að vextir af sjávarútvegslánum verði ekki nema 3%. Ég óttast, að lánastofnanir geti ekki látið í té svona ódýrt fé.

Ég held, að þetta atriði ásamt fleirum, sem fram hafa verið tekin í þessu máli, bendi til þess, að ástæða væri til, að málið fengi betri athugun, eins og lagt er til í hinni rökst. dagskrá minni hl. sjútvn. Því að þótt hún hefði verið samþ., þá hefði verið möguleiki til að styrkja útveginn strax með því að samþykkja frv. um nýbyggingarsjóð fiskiskipa, sem flutt er af þessum sama minni hl. sjútvn.