05.02.1943
Efri deild: 48. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Ingvar Pálmason:

Þó að fiskveiðasjóður Íslands sé nú kominn nokkuð á fjórða áratuginn að aldri til, var sjóðurinn frekar smár og lítils megandi allt fram til ársins 1930. Stofnfé hans var í byrjun 20 þús. kr., og það bagaði sjóðinn, að engar lánsheimildir voru til honum til handa. En smám saman tókst þó að fá stofnfé sjóðsins eflt um 600 þús. kr.

En árið 1930 verður breyting á þessu. Nokkrir þm. taka sig saman um það að efla fiskveiðasjóð, svo að hann geti orðið aðallánsstofnun til stofnlána fyrir smærri útveginn. Þó var ekki farið hærra en það að setja 1 millj. kr. í stofnfé. En þetta varð þess þó valdandi, að fiskveiðasjóður var orðinn lífsnauðsynleg stofnun fyrir útveginn. Síðan var unnið að því að efla sjóðinn, auka stofnfé hans og lánsheimildir, og ég hygg, að það sé ekki ofmælt, þó að sagt sé, að fáar stofnanir hafi mætt jafnlitlum skakkaföllum og þessi stofnun, og það hefur bent á, að fyrirkomulag sjóðsins hefur verið traustlega byggt upp. Þessu er þeim mun meiri gaumur gefandi sem sjávarútvegurinn hefur oft á tíðum verið misbrestasamur, sá atvinnuvegurinn, sem afkoma sjóðsins hlýtur að meira eða minna leyti að byggjast á.

Nú hefur á síðustu þingum verið samþ. breyt. á fiskveiðasjóðnum, og er eðlilegt að halda þróun sjóðsins áfram, en með gætni þó. Þess verður að gæta, að stofnunin er ung enn þá, og það er áreiðanlega áhættusamt að reka slíka lánsstofnun, þó að vel hafi gengið til þessa. Ég hef t.d. heyrt, að bankar hafi stundum tapað fé á slíkum útlánum.

Það er nú einu sinni svo, að af öllu góðu má of mikið gera. Það hefði verið æskilegt, að eitt þing hefði a.m.k. fengið að líða án þess að til breyt. á sjóðnum þyrfti að koma, en að hann hefði fengið að þróast af eðlilegri rás viðburðanna. Nú hefur sá þm., sem á undanförnum tveimur þingum hefur flutt frv. um breyt. á fiskveiðasjóðnum, enn flutt það frv. á þessu þingi.

Það má um þessa breyt. hv. þm. segja, að hún er aðallega þrenns konar. Í fyrsta lagi að efla sjóðinn, og er ekki nema gott eitt við því að segja. Í öðru lagi að bæta hag viðskiptamanna sjóðsins, og er ekkert við það að athuga út af fyrir sig. Og í þriðja lagi að koma inn ákvæði, sem er óskylt fiskveiðasjóðnum. Er það ákvæðið í 1. gr., um styrkveitingar til skipabygginga. Það verður að líta svo á, að þetta sé óskylt sjóðnum, og væri þessu atriði bezt fyrir komið með alveg sérstökum lögum og sjóðnum þar ekkert blandað inn í.

Ég hef þá drepið á sögu fiskveiðasjóðsins, þróun hans og þær tilraunir, sem af hálfu Alþ., hafa komið fram til þess að efla hann. Vil ég þá snúa mér að frv. sjálfu, er hér liggur fyrir, sem ég tel vera athyglisvert, en ég mun láta nægja að ræða einstaka liði frv., um leið og ég minnist á þá í sambandi við þær brtt., er ég flyt við frv. Verður það og til þess að flýta fyrir málinu.

Ég hlýt þó að verða að benda á það, að meðferð þessa máls í Nd. er harla einkennileg. Venjan við afgreiðslu mála er sú að senda þau til umsagnar þeirra, er á einhvern hátt eru tengdir málunum eða hafa til að bera sérþekkingu á þeim. Þessi venja var að vísu viðhöfð í máli þessu í Nd. Það var sent til umsagnar stj. fiskveiðasjóðs, Fiskifélags Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Umsögn þessara aðila varð svo að segja að mestu leyti neikvæð. Stj. fiskveiðasjóðs leggur beint á móti því atriði í frv., sem ég sagði, að væri fiskveiðasjóðnum óskylt. Þetta verður tæplega skilið á annan veg en þann, að hér sé um að ræða málaflutning meira af kappi en forsjá. Hvers vegna er verið að senda þetta mál til þeirra, er framkvæma eiga l. eða hafa sérþekkingu til að bera, og fá umsögn þeirra, ef svo er ekki að neinu leyti tekið tillit til þeirra?

Þá vil ég benda á, að af ræðu hv. frsm. mátti skilja, að hann er í raun og veru sammála till. mínum, og hann á heiður skilið fyrir það. En hann ber of mikla „respekt“ fyrir hv. Nd. til þess að honum sé auðið að standa algerlega með mínum brtt., og harma ég það. Það er því allt útlit fyrir, að frv. verði samþ. með einni smábreyt., því að sjútvn. gat þó orðið sammála um eina breyt. ekki mikla, sem ég fylgi, þó að sú brtt. setji málið líka í hættu.

Vil ég þá snúa mér að brtt. mínum á þskj. 327. Fyrsta brtt. er um það, að 3. gr. frv. falli niður sem segir, að aðeins séu veitt lán úr sjóðnum gegn 1. veðrétti. Það er alveg rétt hjá hv. frsm., að þessi brtt. stendur í sambandi við 3. brtt. En þó að ekki sé tekið tillit til þess sambands, þá er ekki rétt að sleppa brtt. Þetta atriði hefur frá byrjun ekki staðið í l. um fiskveiðasjóðinn, en það hefur þó alltaf verið svo í framkvæmdinni og því ekkert tilefni til að setja það í l.

Önnur brtt. mín er við 5. gr., um að hækka vextina úr 3%, sem frv. tilgreinir eins og það er nú, í 4%. Þetta atriði held ég, að þingið ætti að athuga með gaumgæfni. Hv. frsm. vék að þessu og drap réttilega á það, að ef horfið yrði að þessu ráði, að lækka vextina, þá mundi af þessu óhjákvæmilega leiða það, að lækka yrði vexti hliðstæðra lána bæði til landbúnaðarins og iðnaðarins, þannig að þessar starfsgreinar þjóðfélagsins fengju við sömu kjör að búa og sjávarútvegurinn í þessu tilliti. Í sjálfu sér er ekki nema gott eitt við þessu að segja, ef það er bara hægt, en það efast ég nú um, þó að ég sé lítill hagfræðingur. Þetta verður að athuga þegar á þessu þingi og gæta þess, að það fari ekki óhugsað út úr d. í trausti þess, að kannske verði þetta betur athugað á næsta þingi. Þó svo að þessari hættu væri ekki til að dreifa, þá álit ég þessa breyt., sem fyrirhuguð er á l. með frv. um vextina, vera stórhættulega á fleiri sviðum vegna þeirra eftirkasta. er hún kynni að hafa í för með sér. Við verðum að horfast í augu við það, að Ísland er fátækt land peningalega séð, og það, sem mest bagar okkur, er fjárskorturinn við hinar ýmsu framkvæmdir í landinu, svo að við verðum við framkvæmdirnar að fara út úr landinu til að fá lán. Þó að svo standi á nú, að hér sé milljónum velt fyrirhafnarlítið, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því, að það er ekki nema um stundarsakir. Við erum enn á sömu breiddargráðunni og höfum við sömu erfiðleikana að stríða, því að Ísland er „kapítalskt“ fátækt land.

Er þetta þá ekki glapræði, ef við getum ekki haldið innlánsvöxtum svo háum, að þeir fáu sparisjóðseigendur, sem hér eru, sjái sér ávinning í að geyma fé sitt í sjóði? Sjá ekki hv. þm., hversu hættuleg sú braut er, þegar setja á útlánsvexti niður fyrir innlánsvexti? Peningarnir munu þá hverfa í eitthvað annað. Þrátt fyrir allt gefa þó atvinnuvegirnir meiri vexti en þessa útlánsvexti hér.

Ég held, að það megi telja, að Alþ. afgr. oft gálauslega ýmis mál, því er verr og miður, og mér virðist svo sem reyndin ætli sú að verða hér í þessu máli. En mér fannst það ekki með öllu ábyrgðarlaust, að málið færi út úr þessari d. svo, að ekki yrði vakin athygli á þessu atriði, er ég var að fjalla um, og því flyt ég þessa brtt. mína.

Hitt virðist mér liggja fyrir með mál þetta, að það sé drifið í gegn og afgr., þó að einstaka þm. hafi opin augu fyrir þeirri hættu, sem hér er verið að leggja út í með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir, hvað áhrærir þetta atriði, er ég minntist á í sambandi við brtt. mína.

Þriðja brtt. mín er við 6. gr., en sú grein er, eins og hv. dm. munu sjá, um allt annað efni en starf fiskveiðasjóðs, þar sem sú gr. fjallar um byggingu veiðiskipa. Út af fyrir sig er ekki nema allt gott um tilgang þessarar gr. að segja, og er það lofsvert að vilja styðja einnig þessa hlið útvegsins. En hitt er svo annað mál, og um það munu menn ekki sammála, hvort hér sé rétt að farið eða ekki.

Mér virðist, eins og efni 6. gr. kemur mér fyrir sjónir, að ekki sé að ræða um styrki, heldur gjafir. Þó að ég sé ekki neinn sérstakur málfræðingur, þá skil ég svo hugtakið styrkur, að það sé einhver hjálp eða aðstoð, sem veitt sé án þess þó, að hægt sé að kalla það beina gjöf. Nú getur vel verið, að ástæða sé til þess að gefa smærri vélbátaútveginum einhverjar gjafir, þeim atvinnurekstri til aukningar, en þá verður að gæta þess vel um leið, að gjöfin komi niður á réttum aðila og komi honum að notum; að ekki sé verið að gefa starfsmönnunum viðatvinnugreinina, heldur fari sú gjöf til atvinnugreinarinnar sjálfrar. Mér virðist eitthvað slíkt ætla að eiga sér stað með frv. þessu, að hér sé verið að skjóta yfir markið. Ég óttast, að styrkurinn, em veittur yrði samkv. 6. gr. frv., verði í mörgum tilfellum veittur til einstaklinga, þeim til framdráttar og persónulegs hagnaðar. Hv. Nd. hefur séð, að þessi hætta var yfirvofandi, og breytti 6. gr. frv. á þá leið, að þetta yrði fyrirbyggt. En lausatökin voru þó svo mikil, að þetta er ekki nema hálft verk, því að hv. Nd. hefur ekki gefið sér tíma til að semja nýja 7. gr., til þess að þessi styrkur færi ekki til þess að styrkja atvinnurekandann persónulega. Við skulum athuga þetta nánar með því að taka dæmi.

Ég byggi skip fyrir 200 þús. kr., fæ lán í fiskveiðasjóði, 100–130 þús. kr., og 25 þús. kr. í styrk. Ég geri svo skipið út í eina til tvær vertíðir. Þrátt fyrir ekki mikið tap, sé ég ekki ástæðu til að halda áfram og sel skipið. Hver er það þá, sem eignast styrkinn ? Leikur ekki vafi á því, að það er ég, sem hlýt þennan styrk. En er nokkur ástæða til þess að gefa mér þennan styrk? Ég sé hana ekki.

Við skulum taka annað dæmi um skip, sem er byggt á þennan hátt með 25% styrk. Skipið ferst svo. Fer þá ekki styrkurinn einnig til atvinnurekandans. Það má að vísu segja að styrkurinn sé algerlega tapaður í seinna tilfellinu, en í 1. dæminu komi hann ekki að gagni. (LJóh: Fæst þá vátrygging fyrir eins hárri upphæð og byggingarkostnaðinum nemur?). Ég held, að ekki séu vandkvæði á því að fá þau tryggð það hátt og jafnvel tryggð meira en byggingarkostnaðinum nemur.

Svona mætti telja áfram, en ég vil samt ekki, að horfið sé frá því, að ríkið leggi 3 millj. kr. til þess að endurnýja fiskiflotann. Ég vil aðeins, að þetta sé gert í öðru formi. Ég tel það langtum heppilegra, að stofnuð verði sérstök deild við fiskveiðasjóðinn, er hefur þetta starf með höndum og lánar út á 2. og 3. veðrétt, þar sem með því á að nást sama takmark og út á 1. veðrétt. Eru þá eftir 50% af styrknum, sem ekki er horfið fé, en hitt er horfið og verður ekki notað fyrr en eftir 20 til 30 ár.

Ég vil benda á, að þegar samþ. voru l. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, lagði ríkið fram 11/2 millj. kr. til bjargar útveginum. Þegar fengin var afskrift af skuldum vélbátaeigenda, var þeim lánað út á 3., 4. eða 5. veðrétt, til þess að þeir gætu haldið fleytum sínum. Ég hygg, að þessi ráðstöfun hafi unnið atvinnuveginum geysimikið gagn, og má segja, að hún hafi bjargað honum. Er því mikið fé komið úr skuldaskilasjóði eða full 900 þús. kr., sem runnið hafa í fiskveiðasjóð, og hann nú getur lánað út.

Þá vil ég taka það fram, að ekki er hér farið fram á gjöf, heldur hjálp til handa útgerðarmönnum. Hef ég talað við fjölda útgerðarmanna og sjómanna, sem óska, að þessi hjálp komi fram í áhættulánum, en ekki sem gjöf. Hvernig sem á þetta mál er litið, held ég, að sú leið, sem ég sting upp á, að farin verði, sé einna heppilegust, því að með henni næst fullkomið samræmi í þessu efni. En eins og frv. liggur fyrir, er hér verið að stofna sjóð til að veita gjafir úr, og á sjóðurinn ekkert að gera annað en geyma peningana, þar til ákveðið hefur verið hver eigi að hljóta þá, en þá á að telja þá út.

Ég veit, að stjórn fiskveiðasjóðs hefur beiðzt undan að hafa úthlutun þessa fjár á hendi, og er það eðlilegt.

Þá vil ég vitna til þess, hvernig stjórn sjóðsins hefur farið úr hendi þessi 10–20 ár, sem hann hefur starfað.

Mér þykir einkennileg aðstaða alþýðuflokksmanna og sósíalista. Þeir eru margir búnir að tala hér í þessu máli. Nýlega hafa þeir greitt atkv. með því, að jarðræktarstyrkurinn sé háður kvöðum. En þeir eru því fylgjandi, að þessi styrkur sé veittur kvaðalaust. Nú er það ástand í landinu, að ríkið verður að taka á sig einhvern hluta af kostnaði við byggingu nýrra skipa. En ég vil ekki, að því sé blandað við fiskveiðasjóð, því að hér er verið að blanda saman algerlega óskyldum málefnum. Ég skal ekki segja, nema ég geti stutt þetta mál, ef á frv. verða gerðar nokkrar umbætur. En þingið má ekki láta aðra eins handaskömm frá sér fara og þetta frv, er, eins og það liggur nú fyrir.