10.02.1943
Neðri deild: 54. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Því miður hef ég ekki fylgzt nægilega með, en ég hélt, að manni gæfist kostur á að athuga, hvort ekki yrði samkomulag um lausn á þessu. En það, sem ég tel meginbreyt. á þessu máli frá hendi hv. Ed., er það ákvæði, sem segir, að styrk samkv. ákvæði þessarar gr., styrk, sem kann að nema allt að tveim millj. 700 þús. kr. á þessu ári, eigi stj. fiskveiðasjóðs að úthluta. Og í umr. hér í Nd. kom það mjög greinilega í ljós, að það eru fjöldamörg vandkvæði á því að láta sjóðsstjórnina úthluta þessum styrk. Þeir sömu menn, sem eiga í margvíslegum skuldaskiptum við útgerðarmenn, sem þessa styrks eiga að njóta, þeir eiga síðan að úthluta styrknum. Þetta tel ég óviðunandi.

Ég gat þess líka hér í umr. um þetta mál, að ég hefði kosið, að þetta væri ekki styrkur, heldur vaxtalaust lán. Þá fékk ég litlar undirtektir, og því bar ég ekki fram brtt. Ég taldi rétt að vera með málinu, þó að styrkleiðin væri farin. ef nægilega örugg ákvæði væru í aðalatriðum um, hvernig ætti að nota hann og úthluta honum. Þó að stj. fiskveiðasjóðs kunni að vera ágæt stj. út af fyrir sig, þá hefur hún þess konar aðstöðu, að hún á mjög erfitt með að úthluta þessum styrk, svo að eðlilegt og réttlátt verði. En þegar hv. Ed. hefur breytt frv. þannig að nema burt þessi beztu öryggisákvæði, sem ég taldi, að fulltrúar frá Fiskifélaginu, Farmannasambandinu og Alþýðusambandinu úthlutuðu styrknum, þá segi ég, að ég ætla mér að koma fram með tillögu um það, að þessu verði breytt í vaxtalaust lán. Ekki sízt vegna þess, að mér hefur nú skilizt vera hér í d. jafnvel meiri hl., a.m.k. allverulegt fylgi, fyrir því að fara fremur þá leið en styrkleiðina. Og enn fremur vegna þess, að það hefur komið fram í Ed., að einnig þar er meiri hl. fyrir þessu. Sú breyt., sem ég flyt, er því við 6. gr., að umorða hana þannig, að í staðinn fyrir „styrkur“ komi: 2. eða 3. veðréttar lán. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þessa brtt. upp. Greinin orðist á þessa leið: „Við fiskveiðasjóð skal stofna sérstaka deild, er hefur það hlutverk að veita 2. og 3 veðréttar lán til byggingar fiskibáta innan 150 smálesta. Ríkissjóður leggur sjóði þessarar deildar 2 millj. kr. á árinu 1943, og auk þess ganga til hans frá 1. jan. 1943 331/3% af tekjum fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldinu. Úr sjóði þessum skal veita lán til kaupa og byggingar nýrra fiskiskipa, sem minni eru en 150 smál. brúttó. Lán, sem v eitt eru úr sjóði þessum, skulu vera vaxtalaus í 10 ár og afborgunarlaus fyrstu 5 árin. Lánin veitist eingöngu félögum eða einstaklingum, sem kaupa eða byggja skip til fiskveiða. Lán úr þessum sjóði má nema allt að 25% af kaupverði eða byggingarkostnaði skipsins, þó aldrei yfir 75000 kr. á skip. Við lánveitingar úr sjóðnum skal taka tillit til þess, hvort umsækjandi stundar sjómennsku eða útgerð sem aðalstarf. Lán úr sjóði þessum veitist til skipa, sem fullsmíðuð voru eftir árslok 1941, og skal við ákvörðun lána taka tillit til fjárhagsástæðna umsækjanda og til þess, í hve mikilli dýrtíð skipið er byggt og hver byggingarkostnaður þa1 af leiðandi hefur orðið. Í reglugerð sjóðsins skulu sett ýtarlegri ákvæði um starfsemi þessarar deildar og ákvæði, er miði að því að fyrirbyggja misnotkun á hlunnindum þessara lána.“

Þessi breyt. felur eingöngu í sér það, að í staðinn fyrir þann styrk, sem talað er um í 6. gr., komi 2. og 3. veðréttar lán, vaxtalaust í 10 ár og afborgunarlaust í 5 fyrstu árin.

Ég vil taka það fram, að þessi brtt., sem ég hef um nokkuð langan tíma haft í hyggju að flytja, þó að við fyrri umr. málsins hafi ég ekki flutt hana, hún er sérstaklega flutt vegna þess ákvæðis, sem sett var inn í frv. í hv. Ed., og vegna þess, að mér hefur skilizt, að möguleikar mundu nú vera á að koma þessari breyt. fram. Og ég er ekki einn flm. hennar, því að hv. þm. N.-Þ. flytur þessa brtt. með mér. Vil ég svo afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. með ósk um, að hann leiti afbrigða fyrir henni.