05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

65. mál, sláturfjárafurðir

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Með l. nr. 2 frá 1935 er algerlega afmarkað, hverjir hafi leyfi til að reka sláturhús hér á landi. Þar er með 3. gr. beint stefnt að einokun á kjötsölunni, ákveðnum samvinnufélögum er veittur þessi einkaréttur, og í framtíðinni er ætlazt til, að slátrunarleyfi þau, sem hingað til hefur orðið að veita fleiri aðilum, verði afnumin með öllu. En ég tel, að með því sé stefnt í hreinan voða, því að þá hverfi þeim, sem einokunina hafa, öll þörf og löngun til hagkvæms fyrirkomulags, vöruvöndunar og hófs í verðlagningu. Í l. eru engin akilyrði sett um það heldur, að sérleyfishafinn þurfi að uppfylla lágmarkskröfur um hreinlæti, hvað þá meira, ekki skylt að eiga sláturhús, hvað þá meira, það eitt þótti nóg, að kaupfélög fengju einokunaraðstöðu.

Þær breyt., sem ég legg til að gera, í frv. á þskj. 89, eru fyrst og fremst í þá átt að gera sjálfa verzlunina frjálsari og slátrun verði leyfð öðrum en ákveðnum mönnum eða verzlunarfyrirtækjum, en jafnframt séu sett skilyrði, sem uppfylla verður til að fá leyfin. Ég hef bent á það fyrr, að það Yrði mikil hjálp í viðskiptum innan lands, að t.d. þeir, sem útgerð reka, fengju slátrunarleyfi. Það yrði m.a. til þess að spara milliliðakostnað, og þar er að ræða um talsverðan hluta af því kjöti, sem notað er innan lands. Það ætti að verða beggja hagur, ekkert síður þeirra, sem kjötið framleiða.

Í 2. frvgr. er sú breyt. gerð, að kjötverðlagsnefnd skuli heimilt að ákveða, hvaða verð skuli greitt til framleiðenda á hverjum tíma, en það hefur hún ekki gert, enn fremur skuli hún gæta þess að ákveða það verð sem jafnast til framleiðenda, hvar sem er á landinu. Í sumum héruðum, t.d. Suðurlandi, fá bændur miklu hærra verð en í öðrum, þótt heildsöluverðið sé jafnt. Þá gerir frv. ráð fyrir, að verðlagsuppbót megi greiða til uppbótar því kjöti innan lands, sem vegna flutningaerfiðleika eða annarra ástæðna skilar lægra framleiðsluverði til bænda. Ef svo færi, að útflutta kjötið yrði hærra en það, sem selt er í heildsölu hæsta verði innan lands, þyrfti að vera hægt að nota verðbótarféð til verðbóta innan lands.

Breyt. frv. að öðru leyti eru aðeins til að samræma aðra staði í l. við þetta. Ég vænti þess, að landbn., sem mun fá mál þetta til meðferðar, taki það til rækilegrar athugunar, og er ég að sjálfsögðu fús að veita henni allar upplýsingar um atriði, sem ég hef rekið mig á við það að fást við kjötverzlun, þótt ég vilji ekki að sinni þreyta deildarmenn á að lesa það allt upp. Ég vona, að n. hraði svo málinu, að það geti gengið fram, aður en þingi er lokið.