02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

80. mál, brúargerð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að fara að deila um þörf þeirra brúa, er hv. flm. hefur komið fram með í brtt. sinni, enda væri það óendanlegt deiluefni, ef út í það væri farið á annað borð. En ég get bent hv. 1. þm. Eyf. á, að fleiri þm. en hann hafa ekki fengið öllum sínum kröfum fullnægt í sambandi við þetta mál, sem þeir vildu hafa komið á framfæri fyrir hönd kjördæma sinna. Stafar það bæði af því, að ekki hefur verið mögulegt að sinna öllum kröfum hv. þm. og þær hafa ekki allar þótt jafnaðkallandi. Þó er ég ekki þar með að gefa í skyn, að ég áliti ekki, að þörf sé á brúm, sem hv. 1. þm. Eyf. vill fá í brúal.

Þá vildi ég með nokkrum orðum minnast á vinnuaðferð þá, sem samgmn. d. hafa haft við þetta starf sitt.

Undirn., sem kosnar voru, áttu að ræða við hvern þm., er hafði brtt., og var lögð í þetta mikil vinna. Og varð það svo að samkomulagi við alla, að barizt yrði fyrir því hjá vegamálastjóra, að þessar brýr, sem óskir voru komnar fram um, að byggðar yrðu, kæmu inn í brúal. há sættu hv. þm. sig við það að koma ekki fram með brtt.

Í þessari hv. d. komu ekki nema 2 frv. fram. Annað var flutt af mér, en hitt af hv. 1. þm. S.-M. Og ég vil undirstrika það, sem sá hv. þm. sagði, ef brtt. eiga nú að fara að koma fram við frv., þá verður það til þess að fyrirbyggja, að það nái fram að ganga. Ef ætti að fara að samþykkja brtt. við það nú, yrði það til þess að opna leið fyrir brtt. frá báðum deildum, og þá er ómögulegt að segja, hver endirinn á því kann að verða. Ef horfið yrði að því að opna frv. fyrir hinum og þessum brtt., þá mun ég ekki hika við að bera fram fleiri óskir varðandi brúargerðir í Barðastrandarsýslu, því að sú sýsla hefur orðið langt á eftir, hvað snertir brúa- og vegagerð í þessu landi.

Það var ekki neitt um það að ræða í n. að útbýta jafnt milli héraðanna brúarframkvæmdum, heldur var um það að ræða að fá sem mest samrýmdar óskir einstakra þm., sem væru fram komnar. Enda væri það hálfeinkennilegt, ef ætti að hlýða því að taka á brúal. brú yfir einhverja ársprænu, sem einhver hv. þm. hefur rokið upp til handa og fóta með, af því að honum hefði ekki þótt sínu kjördæmi gert nægilega hátt undir höfði.

Í þriðja lið frv. er svo ráð fyrir gert, að brýr á sýsluvegum megi greiða að 2/3 eða allt að ¾ hlutum úr ríkissjóði. Ef um aðrar eins manndrápsleiðir er einhvers staðar að ræða eins og gefið var í skyn að ættu sér stað, þá eru það einkennilega hugsandi menn, sem ekki grípa til þess að láta ríkið borga 3/4 af kostnaðinum við þá brúargerð og reyna þá að skrapa saman 1/4 hluta til þess að bæta úr þessu og forðast slysahættuna. Það er sem sé alls ekki svo, að öll sund lokist fyrir því að byggja brú yfir einhverja ána, þó að sú brú sé ekki tekin beint inn á brúagerðarl. Ef þessi umrædda slysaleið skyldi vera á fjallvegi, þá á sú brú hvorki meira né minna en að borgast öll úr ríkissjóði.

Að þessu athuguðu, tel ég ekki ástæðu til að vera að fjölyrða um þetta atriði. Það stendur skýrum stöfum, að ríkissjóður muni greiða allt að 3/4 kostnaðar, ef hér er um að ræða sýsluveg, ef um fjallveg er að ræða, greiðist brúin að öllu af fjallvegafé. Önnur hvor þessara leiða mundi eflaust reynast eins vel og sú að fá þessa brú inn á brúal., og verða svo kannske að bíða 15–20 ár eftir því að hún verði byggð.

Hv. þm. Dal. kom með þá fyrirspurn, hvort ætlazt vær í til, að brúal. yrðu opnuð. Ég tel mig, með því, sem ég hef nú sagt, hafa svarað því, að það er hvorki ætlunin né frv. til bóta, að svo verði gert, heldur gæti svo farið, að frv. næði alls ekki fram að ganga og öll vinnan við frv. yrði til ónýtis.

Þess vegna væntir n. þess, að hv. d. samþykki frv. eins og það nú liggur fyrir. Um það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, gildir hið sama, að það er sjálfsagt nauðsynlegt að setja þessa brú á Tungufljót, sem hann var að tala um, en það er, býst ég við, sama nauðsynin þar og víða annars staðar á landinu. En það er satt að segja harla einkennilegt, að hann nú fyrst skuli vera að segja frá þessu og óska eftir, að brú yfir Iðu verði byggð, og hann skuli nú fyrst vera að bera þessa brú svo mjög fyrir brjósti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að vera að ræða þetta mál meira, en ég vænti þess af hv. d., að hún fallist á till. hv. samgmn. í þessu máli, og hv. þm. samþykki frv. eins og það liggur fyrir bæði vegna kjördæmanna og landsins í heild, því að ella mundi mál þetta fara út í öngþveiti.