02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

80. mál, brúargerð

Bernharð Stefánsson:

Það virðast hér í d. vera heldur fáir til þess að sannfæra, og er líklega ekki til mikils að vera að ræða mikið um þetta mál. En út af því sem fram hefur komið í umr., langar mig þó til að taka ýmislegt fram.

Af því, sem sagt hefur verið um brúa- og vegal., má augljóst ráða það, að þau eru komin í öngþveiti ýmiss konar. Þetta stafar að mestu leyti af því, er tekin hefur verið einhver brú eða einhver vegur inn í þessi l., þá hefur ekki verið fylgt föstu „principi“. Ég skal játa, að mér þykir það eðlilegt, að ekki séu aðrar brýr eða vegir á brúa- og vegal. en þær brýr eða þeir vegir, sem hafa almenna þýðingu fyrir samgöngur landsmanna í heild. En aftur á móti séu brýr og vegir, sem hafa þýðingu fyrst og fremst fyrir eina eða tvær sveitir, ekki með í þeim l., heldur sé héruðunum veittur styrkur úr ríkissjóði til þessara framkvæmda, og má hann gjarnan vera allríflegur. En þetta „princip“ er þverbrotið. Vegir eru settir í vegal., sem ekki hafa neina almenna þýðingu, heldur aðeins þýðingu innansveitar, og sama er að segja um brýrnar. Á brúal. eru brýr, sem enga þýðingu hafa fyrir samgöngur almennt, heldur fyrir einstakar sveitir. Þegar þetta „princip“ hefur þannig verið þverbrotið, þá er ekki nema ein leið til þess að fara eftir, og hún er sú, að ekki sé þá hallað á sum héruðin, að ekki sé gert upp á milli þeirra, heldur tekið tillit til brýnustu þarfa þeirra. En nú er þetta „princip“ líka þverbrotið, eins og komið hefur á daginn í till. hv. samgmn.

Hv. þm. Dal. var að tala um það, að við samning þessa frv. hefði verið haft samstarf við vegamálastjóra. Ég hef líka verið í samstarfi við vegamálastjóra, og ég er ekki þekktur að þeirri ósannsögli hér í þessari hv. d., að ekki sé hægt að taka mig trúanlegan, enda veit ég, að vegamálastjóri muni kannast við það. Hv. þm. Dal. sagði, að það sjónarmið hefði ráðið að miðla á milli kjördæmanna. Hv. 2. þm. Árn. tók og í þennan streng, og honum hefur þá sjálfsagt verið kunnugt um það. (EE: Ég sagði, að það væri það réttmæta). Eftir þessu að dæma, þá held ég, að mitt hérað sé orðið meira en litið út undan við útdeilingu þessara brúaframkvæmda, því að eftir frv. á aðeins í mínu kjördæmi að setja brú yfir litla á eða réttara sagt yfir læk, sem ég held, að hefði fullt eins vel getað verið byggð af viðhaldsfé vega. (lngP: Hún mun þó vera áætluð um 10 m á lengd). Það er þá vegna aðstöðunnar, því að lækurinn er ekki nema um 2 m á breidd.

Hv. frsm. n. sagði nú aftur, að það hefði verið sjónarmið n. að gera sitt til þess, að þær brýr, sem mest aðkallandi væru, kæmu inn á brúarl. Ég vil leyfa mér að efast um af nokkrum kunnugleika, að brúin, sem koma á í Fnjóskadal, sé meira aðakallandi en sú brú, sem ég fer fram á að byggð verði í Eyjafirði, án þess þó, að ég ætli mér að spilla á neinn hátt fyrir þeirri brú. En Inn-Eyfirðingar þurfa áreiðanlega meira á þessari brú að halda en Inn-Fnjóskdælingar, sem m.a. má hvað mest marka af því, að úr Eyjafirði er dagleg mjólkursala, en því er ekki til að dreifa úr Fnjóskadal. Þá var og á það minnzt, að n. hefði tekið til greina fram komnar till., en ég hefði á þessum tíma, eða á 3. mánuð, ekki flutt neina till. til breyt. á frv. Ég skal játa það, að ég hef oft þann sið að flytja ekki brtt., fyrr en ég sé nál. þeirrar n., sem um frv. fjallar, og ég sé, hvað það er, sem hún leggur til. A.m.k. geri ég það miklu síður. Álit n. er nýkomið fram, eða 22. febr. En eins og ég gat um áðan, var ég svo óheppinn að vera sjúkur, þegar mál þetta var til 2. umr. og af þeim sökum ekki fær um að flytja brtt. við frv. þá. Þá tel ég mig hafa gert fulla grein fyrir því, hvers vegna ég hef ekki flutt brtt. við frv. fyrr en nú.

Hv. frsm. minntist á, að n. hefði ekki tekið aðrar brýr inn á brúarl. en þær, sem mæling hefði farið fram á og væru undirbúnar til byggingar, og að áætlaður væri kostnaðurinn við þær. Ég vil nú ekki fara að rengja vegamálastjóra um, að hann hafi ekki látið í té þær áætlanir og mælingar varðandi þær brýr, er ég vil fá inn í brúal. En svo mikið er víst, að vegamálastjóri hefur framkvæmt þessar mælingar, þó að vera kunni, að n. hafi ekki fengið þær til athugunar.

Þá var verið að gefa það í skyn, að við því mætti búast, að það tæki allt að 15–20 ár að framkvæma það verk, sem í brúarl. fælist. Ekki er það neitt gleðiefni fyrir hlutaðeigendur að taka því að þurfa e.t.v. að bíða 15–20 ár eftir, að þeirra nauðsynlega brú verði reist. Og samt sem áður eru hv. þm. að tala um það sem einhverja goðgá að opna brúal., eins og þeir kalla það. Þó að það sé ég í þessu tilfelli, sem ber fram brtt., þá verð ég að segja, að ég kann ekki við þennan tón, sem fram kemur hjá hv. nm. Hver er það, sem setur þjóðinni l.? Er það samgmn. og vegamálastjóri? Ég hefði haldið, að löggjafarvaldið væri í höndum Alþ., en ekki þessara aðila.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði hér í sambandi við umr. um sjúkrahús á dögunum, að yfirleitt væri það vilji embættismanna að vilja engar breyt. Það var sjálfsagt fullmikið sagt hjá þessum hv. þm., að þetta væri algild venja embættismanna, að þeir vildu engar breyt. En hitt er vitanlegt, að þeir, sem settir eru af ríkinu til þess að hafa yfirumsjón með svona málum og sjá, að getan er takmörkuð, eru ekki beinlínis að hvetja til slíkra breyt., sem farið er fram á hér í þessu frv. og brtt. við það, sem fyrir liggja, og það því fremur sem mér er kunnugt um, að vegamálastjóri hefur í raun og veru það sjónarmið, sem ég gat um í upphafi ræðu minnar og er það eina rétta í þessum málum, að það eigi ekki og hefði aldrei átt að taka inn í vega- og brúal. annað en þá vegi og brýr, sem hafa einhverja almenna þýðingu fyrir samgöngurnar í landinu.

Það hefur komið fram hjá hv. nm. úr samgmn., að þeir hafi rætt við þá, sem hafa borið fram brtt. við frv. En hvers vegna var ekki rætt við fleiri heldur en þá? Þessi afgreiðsla er a.m.k. mjög ólík þeirri afgreiðslu, sem hv. fjvn. hefur haft á fjárl., því að hún hefur yfirleitt rætt við alla þm. um það, hvaða fjárveitingar væru mest aðkallandi í héruðum þeirra.

Hv. þm. Barð. vildi segja það, að þessar brtt. væru fram bornar til þess að fyrirbyggja það, að frv. næði fram að ganga. Og svo var hann í þessu sambandi að tala um, að fram væri kominn þingvilji í þessu máli. Eins og ég veik að áðan, get ég alls ekki viðurkennt það, þó að ágætir menn eigi sæti í hv. samgmn., þá er þeirra vilji enginn þingvilji. En hér skera atkv. að sjálfsögðu úr. Þá benti þessi sami hv. þm. enn fremur á það, sem rétt er um þessar brýr, að það mundi fást styrkur úr ríkissjóði til þeirra, ef hlutaðeigandi héruð legðu fram 1/4 kostnaðar. En sama má segja um ýmislegt það, sem þegar hefur verið tekið inn í frv., eins og það nú liggur fyrir, undir II. kafla t.d.

Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. 2. þm. Árn. var að tala um í seinustu ræðu sinni, að það eru mjög mismunandi ástæður í hinum einstöku héruðum, og hv. þm. Barð. veik einnig að því. En óneitanlega er það dálitið einkennilegt samt, að í þessu frv. eru teknar inn þrjár brýr í einni einustu sveit, nefnilega Suðursveit, tvær á Síðu og þrjár undir Eyjafjöllum. Og í Rangárvallasýslu eru teknar inn þrjár brýr og í Árnessýslu fjórar undir I. kafla. Og fyrir eina sýslu eru settar fimm brýr í II. kafla, en í öðrum héruðum er ekki ein einasta brú. Ég viðurkenni fyllilega, an það er ekki hægt að hnitmiða það þannig, að öll héruð fái inn í brúal. jafnmargar brýr. Það verður að taka tillit til staðhátta. En að það sé nú svona mikill munur á þessu, það á ég bágt með að skilja, að rétt sé.

Ég verð svo að játa það, án þess að ég ætli að setja fótinn fyrir þetta frv. á nokkurn hátt, að ég álít bæði með vegal. og brúal., að það hefði verið það réttasta, að nú um sinn hefði verið látið sitja við hvora tveggja þá löggjöf eins og hún nú er, ég skal játa það, og að því leyti býst ég við, að hv. þm. Barð. þykist fá sannanir fyrir ummælum sínum áðan. En það er bara þetta, að úr því að ekki er hægt að halda sér við það „princip“ og ákveða með löggjöf að ráðast í þær framkvæmdir í þessum efnum, sem hafa alþjóðarþýðingu, þá, eins og ég sagði áðan, er ekki von, að ein n. í þinginu komist upp með það að mismuna héruðum í sambandi við þessar framkvæmdir, eins og gert er í þessu frv.