02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

80. mál, brúargerð

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Ég tók eftir því, að hv. frsm. samgmn. sagði í síðustu ræðu sinni, að flestar till. í frv. væru samkvæmt till. vegamálastjóra. Þetta þýðir það, að eigi munu þær allar vera samkvæmt till. vegamálastjóra. Frv. er nú ekki traustbyggðara en þetta. Það væri fróðlegt að vita, hverjar þær brýr eru í frv., sem vegamálastjóri hefur ekki mælt með. Einhverjar hljóta þær að vera, því að annars hefði ekki jafngætinn maður og hv. frsm., 1. þm. S.-M., sagt, að flestar till. væru samkvæmt till. þessa manns.

Það hefur komið fram í umr. hér, að óviðeigandi væri að bera fram brtt. við þessa umr. Þetta finnst mér þröngsýni og eigi sæmandi að veitast að hv. þm. fyrir það, þó að þeir komi með brtt. nú. Harkan í þessum umr. virðist vera meiri en straumharka jökulvatna þeirra, er brúa á, en skoðun mín er sú, að það verði hlutarins eðli, sem ræður úrslitum, en ekki málafylgjur.

Ég þykist vita, að hv. n. hafi gert allt eftir beztu vitund, en ég lái henni að taka hart á brtt., sem nú eru fram komnar frá þm., sem eigi hafa haft tækifæri til að koma með þær fyrr en við þessa umr. Á þessu er enginn einkaréttur, heldur á hér að ráða frjáls framburður mála, og sýnt hefur verið fram á, að þessi vötn, sem brtt. fara fram á að brúuð verði, eru eigi síður aðkallandi en ýmis vötn í frv. Einu sinni var í brúal. ákvæði um brú yfir Þjórsá ofarlega. Þessi brú hefði að sjálfsögðu verið mikil héraðsbót, en var þó ekki bráðnauðsynleg. Aftur á móti er till. mín um brú yfir Tungufljót mjög aðkallandi þörf. Mér fyndist hreinna til verks gengið, ef hv. nm. þykir brtt. ósanngjarnar, að ganga hreinlega á móti þeim, heldur en að banna, að þær séu fram bornar. Hv. frsm. og hv. þm. Barð. tóku þetta allt of strangt, og ég vona, að þeir sjái sig um hönd og greiði brtt. atkv.