15.03.1943
Neðri deild: 75. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

80. mál, brúargerð

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Ég skal aðeins segja örfá orð fyrir hönd samgmn. til þess að hefja þessar væntanlega stuttu umr. — Ég sé, að hv. 2. þm. Eyf. er nú að koma inn, en hann á hér brtt. við þetta frv.

Þetta frv. um brúagerðir er komið frá Ed. Það var samkomulag um það hjá samgmn. beggja deilda, eins og hv. þm. mun kunnugt, að brtt. við þetta frv. yrðu allar ræddar og afgr. í Ed., en að brtt. við vegalögin yrðu einnig ræddar í Nd. Nú hafa samgmn. beggja deilda setið á rökstólum frá því í þingbyrjun og haft með höndum allar framkomnar till. Það mætti ætla, að allur þessi tími hefði reynzt nægilegur til þess, að allir hv. þm. gætu komið fram með sínar till. N. tók upp það ráð að semja alveg að nýju 2. gr. frv. um upptalninguna, og það má segja, að sú upptalning sé alveg tæmandi, hvað viðvíkur brúa- og vegagerðinni. En þrátt fyrir þenna mikla tíma og allar þessar athuganir, þá voru þó enn einhverjir eftir, þeim höfðu áhugamál þessu viðvíkjandi, sem þeir höfðu ekki komið á framfæri. Vegalögin skal ég ekki ræða að svo stöddu, en það hafa nú komið fram ýmsar nýjar brtt. við brúalögin. Þó hafði 2. gr., eftir að n. hafði breytt henni, inni að halda meira en þær brtt., sem höfðu komið fram. Þetta stafar af því, að vegna nýrra vegalagninga, hafa ýmsar brúagerðir orðið nauðsynlegar og því sjálfsagt, að þær kæmust í framkvæmd. Þess vegna eru brúalögin nú enn fyllri en hv. þm. höfðu gert sér vonir um í fyrstu. En nú brá svo við í Ed., ekki við 2. umr. heldur við 3. umr., sem hefði átt að ganga alveg hljóðalaust af, að þar komu fram ýmsar brtt. við þetta frv., en þær náðu þó ekki fram að ganga þar, þó ekki af því, að þessar till. gætu ekki átt rétt á sér í framtíðinni, heldur var það af „principi“, ef svo mætti segja, að nm. í Ed. gátu ekki fallizt á að gera nokkrar breyt. á frv., eins og það var þá orðið, og voru þessar brtt. því felldar eða dregnar til baka í þeirri von, að ekkert yrði samþ., sem og líka varð. Nú hafa komið þar fram brtt. við þetta frv. frá hv. 1. þm. Árn. og hv. 2. þm. Eyf. Þessar till. eru afturgöngur, því að þær voru felldar í Ed., en eru nú bornar fram hér í þeirri von, að þær fái betri undirtektir hér. Samgmn. hélt fund í morgun og ræddi um það, hv ort nokkur sannsýni mundi í því að opna nú þetta búr, sem búiðvar að smiða og loka fyrir. N. varð sammála um það, að undanteknum einum hv. nm., sem ekki var viðstaddur og ég veit því ekki, hvaða afstöðu hefur til þessa, að rétt mundi að halda fast við sitt „princip“, og getur hún því ekki mælt með þessum till., en einstakir nm. gátu þó ekki alveg bundið sig við atkvgr. Ég get einnig lýst yfir því, að vegamálastjóri telur sig ekki geta mælt með þessum brúm að svo stöddu.

Þá er næst brtt. á þskj. 510 frá þm. Rang. Ég vil vona, að þeir taki sína brtt. aftur, af því að talið er sjálfsagt, að þessar brýr komi seinna inn á brúal., þegar þessi vatnsföll verða brúuð, eftir að fyrirhleðslan er komin í kring. Ég tel þessu máli því vel borgið og þykist vita, að hv. flm. muni taka sína brtt., á þskj. 510, aftur.

Ég hef svo ekki, fyrir hönd n., meira um þetta að segja að sinni. Það verður að ráðast, hvað hv. þdm. þykir hlýða í þessu efni.

Jörundur Brynjólfsson: Ég hefði getað látið mér lynda að segja ekkert um mína brtt. og taka hana aftur, ef ég hefði verið svo í náð með þessar framkvæmdatill. mínar sem sumir aðrir þm., sem fengið hafa meira en þeir hafa beðið um. Það eina, sem ég hef beðið um, er að brú á þetta manndrápsvatnsfall verði tekin inn á brúalög, en því er neitað og færðar fram þær ástæður fyrir því, að þessi till. hafi ekki komið nógu fljótt fram í fyrri d. Ég verð að segja, að það fer þá að verða nokkuð vandlifað hjá þm., og þau kjördæmi eru ekki vel sett, sem eiga að eins einn þm. Nú vil ég taka það fram, að ég hef enga hvöt til þess að flytja slíka brtt., nema að þess sé brýn þörf. Þarna hagar nú svo til við Tungufljót, að búið er að leggja veg að vestanverðu niður að fljótinu, en verið er að byggja veg frá Bræðratungu, hinum megin við fljótið, og munu vera um 5 km frá Króki og yfir í Bræðratunguhverfi. En sá vegur er hvergi nærri fullgerður. Nú er mér sagt, að þær ástæður séu til færðar á móti þessari brú, að brú sé ofar á Tungufljóti, um 5 km fyrir ofan Krók. En frá þeirri brú niður í Bræðratunguhverfl er vegaleysa, um 5 km löng, en götuslóðar liggja niður að Króki. Það hefur verið byrjað á vegaframkvæmdum milli bæjanna í þeirri von, að brú kæmi þarna á Tungufljót. Nú hagar þannig til við Tungufljót, að mjög oft er ómögulegt að ferja yfir fljótið vegna ísskara eða roks, en ferja er á fljótinu nærri Króki. Þessir bæir, átta að tölu, sem eru austan við fljótið, eiga því oft mjög erfitt um allar samgöngur, og veyurinn frá aðalbrautinni niður að Tungufljóti kemur að engum notum, ef vegfarendur eiga að fara upp að brúnni, sem er ofar á Tungufljóti. Það er því ekki hægt að segja annað en með því að synja um þessa brú sé verið að hefta möguleikana hjá þessum mönnum, sem þarna búa, til þess að bjarga sér og gera þeim eins erfitt fyrir eins og hægt er. Ég verð að segja það, ef aldrei hefur verið hugsað til þess að brúa Tungufljót á þessum stað, þá voru lítil hyggindi í því að leggja þennan veg frá aðalbrautinni niður að fljótinu á móts við Krók. En auðvitað var það gert með það fyrir augum, að fljótið yrði brúað á sínum tíma. Nú er sagt, að þessi brú muni einhvern tíma koma inn í brúal. En ég hygg, að dráttur gæti orðið á framkvæmdum, þó að þessi brú kæmist einhvern tíma inn á brúal., því að það vita allir, að það er ekki eins og farið sé að brúa vatnsföllin, þó að ákvæði um brúarsmíði komist inn í brúal. Ég skil vel þá afstöðu hv. samgmn., að hún vilji gæta þess, að ekki komist inn í brúal. nema það, sem sanngjarnt er og nauðsynlegt, en ég þykist ekki, með brtt. minni, fara fram á annað en það sem er alveg bráðnauðsynlegt. Ég hygg þess vegna, að menn geti með góðri samvizku greitt brtt. minni atkv., og vænti þess, að hv. d. sýni þá sanngirni að samþykkja hana. Þetta er ekki fyrir mig gert, það er fyrst og fremst gert fyrir vegfarendur og þá, sem búa þarna austan við Tungufljót.