04.02.1943
Neðri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. — Frv. þetta er samið af n. þeirri, sem skipuð var af landbrh. 8. maí 1940, til að gera till. um breyt. á l. um verzlun með kartöflur og aðra garðávexti. Frv. hefur legið fyrir landbn. á undanförnum þingum til athugunar. h. um verzlun með kartöflur og aðra garðávexti eru frá 1936 og miðuðu að því að koma betra skipulagi á framleiðslu kartaflna og grænmetis og verzlun með þessar vörur. Tilgangurinn var raunar sá, að Íslendingar gætu orðið sjálfum sér nógir á þessu sviði, og mikilsvert atriði í þeirri viðleitni hlaut að vera það að hindra of mikla samkeppni erlendra garðávaxta sem hlýtur að verða til að draga úr framleiðslu innan lands. Nú hefur þessi tilraun staðið í nokkur ár, og er orðið tímabært að hagnýta þá reynslu. sem þegar hefur fengizt. Í þessu frv. er haldið ýmsum atriðum úr l. frá 1936, en aukið við ýmsum nýjum atriðum, sem reynslan hefur sýnt, að æskilegt muni að taka upp. Það mark, sem keppa verður að fyrst og fremst, er það, að alltaf sé til í landinu nóg af góðum matarkartöflum.

Í frv. því, sem legið hefur fyrir landbn. og hún breytt að nokkru, voru aðallega tvö nýmæli: Fyrst það, að kartöflur skyldu flokkaðar, og hitt annað, að komið yrði á fót stofnrækt, svo að almenningur ætti kost á að fá úrvalsstofna.

Í núgildandi lögum er ætlazt til, að Grænmetisverzlun ríkisins flokki þær kartöflur, sem hún kaupir, en á öðrum hvílir engin skylda um flokkun. Þeir, sem lítið hafa hirt um að vanda vöruna, hafa því gengið fram hjá Grænmetisverzlun ríkisins og selt Pétri og Páli. Þeir hafa þannig gert Grænmetisverzluninni mikil óþægindi, auk þess mörgum, sem hafa keypt þessa vöru. Og þetta gerir tjón á annan hátt: það skapar tortryggni hjá kaupendum, og ekki síður það, að þeir, sem vanda vöru sína, bera ekkert úr býtum fram yfir hina, sem selja sína gölluðu vöru sama verði og væri það fullkomin verzlunarvara að öllu leyti. Það er því nauðsynlegt að koma á annarri skipan en nú er. Í því frv., sem lá fyrir landbn., var farið nokkru strangar út í mat en n. gerir kröfu til. Hún áleit heppilegra að stilla því í hóf í fyrstu, en herða síðar á kröfunum.

Það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi víkja að og fara þarf varlega með, en það er krafan um samkynja afbrigði. Eins og menn vita, þá eru kartöflur almennt ræktaðar þannig, að sami framleiðandi hefur oft mörg afbrigði, öll í graut. Þess vegna hefur reyndin orðið sú, að þó að kartöflurnar séu góðar að öðru leyti, eru þær ósamkynja. Þetta er ekki æskilegt. Það þarf að koma þeirri skipan á kartöfluræktina, að ræktað sé eftir afbrigðum, sem menn eigi kost á og geti valið um eftir smekk. En sem sagt, landbn. áleit bezt að fara varlega í þessar sakir til að byrja með, en þoka málinu áfram.

Hitt atriðið, sem ég minntist á, að væri nýtt, er það að koma á fót stofnrækt með úrvalstegundir af kartöflum og selja almenningi til útsæðis. Þetta er mjög mikilsvert atriði. Það hefur komið fyrir, að það hefur verið miklum vandkvæðum bundið að afla útsæðis og jafnvel orðið að kaupa það frá útlöndum í stórum stíl og illmögulegt að fá þær tegundir, sem bezt eru fallnar til ræktunar hér á landi. Frá þessari ræktunarmiðstöð ættu bændur smám saman að geta fengið hrein afbrigði til framleiðslu á fyrsta flokks vöru, og það er mjög mikilsvert fyrir landbúnaðinn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. Það eru aðallega þessi nýmæli, sem ég hef drepið á, sem skipta máli. Annars er flest í sama horfi. N. leggur til, að frv. sé vísað til 2. umr.