04.02.1943
Neðri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. — í tilefni af ræðu hv. þm. Borgf. vil ég geta þess, að hér er um dálítinn misskilning að ræða. Mér skilst ræða hans vera byggð að mestu leyti á ákvæðinu um aðgreiningu í flokka, að hún sé öll eftir tegundum, en í 8. gr. stendur: „Í smásöluverzlunum skal greinilega auðkennt við kartöflur þær, sem eru á boðstólum, hvaða flokki þær tilheyra, og einnig tegundarnafn þeirra, þegar um úrvalsflokk er að ræða.“ Ég skal taka það fram, einmitt út af ræðu hv. þm. Borgf., að n. var alveg á sömu skoðun um þetta, og voru strangari ákvæði upphaflega í frv., en n. áleit réttara að fara varlega í sakirnar og gera ekki kröfurnar hærri til að byrja með en líklegt væri, að hægt væri að framfylgja. Þess vegna felldum við úr, að þetta ákvæði næði til nema úrvalsflokks kartaflna. Mér skilst því ekkert skilja milli álits n. og hans.