12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég áskildi mér í n. rétt til að bera fram brtt. við frv. og hafði þá einkum í huga atriðið, sem hv. 3. landsk. þm. minntist nú á. Mér finnst ekki forsvaranlegt að ganga frá frv. með því orðalagi óbreyttu. Allir kunnleikar á málinu benda til þess, að svo mikið beri stundum á milli þess tvenns, sem miða skal verðið við, að ekki fái það neinn veginn samrýmzt. Ég verð að segja, að lagaákvæði um að binda verð á íslenzkri framleiðslu til heimanota við verð á erlendum markaði er einskis virði, þegar til kasi:anna kemur, það er ekki hægt að láta menn framleiða nema borga þeim kostnaðarverð framleiðslunnar. Þess vegna hlýtur síðari málsgr. að verða það, sem máli skiptir um verðlagið, sanngirnisverð þurfa framleiðendur að fa og neytendur að greiða, miðað við framleiðslukostnað frá ári til árs. Þar er sá meðalvegur, sem keppa verður að í íslenzku viðskiptalífi. Ef aðrir gerast ekki til þess að flytja brtt. um þetta efni fyrir 3. umr., mun ég gera það. Nú er talin þurrð á garðávöxtum, og hafa þá framleiðendur hvatningar þörf.

Ég ætla mér svo ekki að segja öllu fleira um þetta frv., og ætla að láta það nægja, sem ég hef þegar sagt. Annað, sem ég hef ekki minnzt á, læt ég liggja á milli hluta. En ég vil aðeins að lokum geta þess, að ég vil halda fast við verðákvæðið, sem um getur í 5. gr. frv., en með dálítilli breyt., og kem þá með brtt., ef ástæða verður til þess.