15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Í sambandi við fram komna brtt. og með tilvísun til 5. gr. þessa frv., þá vildi ég benda á, að þar ætti að standa „að viðbættum flutningskostnaði og álagningu“.

Þá virðist mér 2. málsgr. 5. gr. koma í bága við ný sett l. um verðlag, því að vel hugsanlegt er, að löglegt hámarksverð innfluttra kartaflna nái ekki verði innlendu kartaflnanna, sem ekki má fara niður fyrir samkv. þessari málsgr. Ég veit ekki, hvort form. landbn. hefur athugað þetta, og eins ef leyft yrði að hækka verðið á erlendu kartöflunum, til hvers yrði það fé notað, yrði það notað til að verðjafna vöruna eða ekki?

Ég óska eftir, að þessari umr. verði frestað í dag, ef hægt væri að samræma þetta, svo að það kæmi ekki í bága við önnur lagafyrirmæli.