15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Ég er á sama máli og hv. þm. Barð. um það, að ákvæði 2. málsgr. 5. gr. komi í bága við gildandi verðlagsákvæði. Þar að auki er engin sanngirni í því, að innfluttar kartöflur séu seldar hærra verði en þær kosta af þeim sökum einum, að óseldar íslenzkar kartöflur eru í landinu.

Í 3. gr. stendur, að þess beri að gæta að flytja ekki inn erlendar kartöflur, fyrr en hin innlenda framleiðsla sé svo til þurrðar gengin, að öruggt sé, að innflutningurinn torveldi ekki sölu vörunnar. Enda er venjulega ekki gert ráð fyrir, að erlendar kartöflur séu fluttar til landsins, fyrr en þurrð er svo mikil á íslenzkum kartöflum, að þær eru svo að segja ófáanlegar í landinu. Það væri að mínu áliti lítil sanngirni, ef flytja þyrfti inn kartöflur til Reykjavíkur eða annarra stærri staða, að menn þyrftu að kaupa þær miklu hærra verði en þær kostuðu, vegna þess, að á einum útkjálka landsins eru til íslenzkar kartöflur. Ég hef átt tal við forstjóra grænmetisverzlunarinnar um þetta mál, og álit hans er það, sem ég tel líka sjálfsagt, að þetta atriði heyri undir það almenna verðlagseftirlit.