17.03.1943
Efri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég var raunar búinn að fara nokkrum orðum um brtt. mína á þskj. 538, og skal ég því ekki vera margorður að þessu sinni. Það er rétt, sem hv. frsm. landbn. sagði, að þeir, sem komu á fund n. í gær, áskildu sér að hafa um hana óbundin atkv. En ég vil í þessu sambandi undirstrika það, sem hv. frsm. sagði, að efnislega mundi þessi till. ekki breyta miklu. Þegar farið verður að ákveða verðlag á þessari vöru, verður vafalaust miðað við framleiðslukostnað landsmanna sjálfra. Það, sem segir í till. minni, ætti að vera gert að meginatriði við þessa verðákvörðun, því að þegar á allt er litið, er það réttara, ef þetta frv. á að verða að l., að þetta sé orðað í samræmi við það, sem við stefnum að í framtíðinni. Tel ég því eðlilegast, að það verði eins og segir í brtt. minni, að verðskráning skuli aðallega miðuð við framleiðslukostnaðarverð gagnstætt því, sem nú segir í 5. gr. frv.,. að verðskráning skuli einkum miðast við markaðsverð í nálægum löndum að viðbættum innflutningskostnaði. Þetta þarf engra skýringa við, ef nokkur áhugi er á því, að þetta frv. verði orðað í samræmi við það, sem á að fylgja á eftir. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um það, en fyrst ég reis úr sæti mínu, vil ég segja nokkur orð út af brtt. hv. þm. Barð. um að 2. mgr. 5. gr. falli niður, en hún segir, að innflutta garðávexti megi ekki selja lægra verði en innlenda miðað við sama tíma og sömu gæði. Mér finnst varhugavert að fella þetta niður, því að það getur skapað óeðlilega og óheppilega röskun í framleiðslu Íslendinga sjálfra. Þeir, sem framleiða þessar vörur, verða að eiga sitt öryggi eins og þeir, sem neyta þeirra. Þótt á tímabili þurfi að flytja inn erlenda garðávexti, og þeir kunni að fást við lægra verði en innlendar afurðir sömu tegundar, þá held ég, að ekki væri skaði skeður, þótt þeir innfluttu yrðu seldir sama verði og innlenda framleiðslan.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta og læt það ráðast að öðru leyti.