17.03.1943
Efri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

126. mál, verzlun með kartöflur o.fl.

Frsm. (Páll Hermannsson):

Mér skildist á hv. þm. Dal., að hann áliti ástæðulaust að vísa frv. á ný til landbn., og er ég honum sammála um það. N. hafði í gær, eftir tilmælum hv. þm. Dal., athugað frv. á ný, og þýðir ekki að fresta þessari umr. nú vegna þess. Hv. þm. Str. vildi halda því fram, að hætta væri á því, að ákveðið yrði óeðlilegt verð á kartöflum þau ár, sem uppskerubrestur yrði. Ég er nú ekki alveg eins hræddur við þetta og hv. þm. Str., því að þau ár, sem uppskerubrestur verður, er ekki hægt að ákveða verðið eftir tilkostnaði, enda stendur í 5. gr.: „Þó skal þess gætt jafnframt, að framleiðendum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð.“ Ég trúi því ekki, að það verði nokkurn tíma talið hæfilegt framleiðsluverð á kartöflum, það sem kostar að framleiða þær þau ár, sem uppskerubrestur verður, heldur verði miðað við árferði, þegar svo stendur á, að lítill uppskerubrestur verður og þeir, sem að þessu vinna, verða fyrir litlu tjóni. Enda hygg ég, að þetta verði þannig í framkvæmdinni, að verðið verði ákveðið sæmilega eðlilegt, eins og hv. þm. Str. orðaði það, eða eins og verðið er eðlilegt í sæmilegu árferði. Ég er hins vegar sammála um það, að það sé rétt að hafa eitt verð á kartöflunum, og forstjóri Grænmetisverzlunarinnar lagði á þetta sérstaka áherzlu, því að það er auðvitað, ef menn ættu það yfir höfði sér, að kartöflurnar lækkuðu, þegar kæmi fram á vorið, þá mundi enginn vilja geyma þær yfir veturinn.

Mér finnst menn gera furðu mikið úr því, að hér verði verzlað með útlendar kartöflur. Hingað til hefur þó verið lögð áherzla á það að fá Íslendinga til þess að rækta sem mest af kartöflum, jafnvel þó að uppskeran hafi viljað verða misjöfn.

Um hagnaðinn, sem kynni að verða af sölu á erlendum kartöflum, er það að segja, ef frv. þetta verður að l., þá munu þessar kartöfluverzlanir þurfa á töluverðu fé að halda, ef þær eigu að geta orðið við þeim hlutverkum, sem þeim eru ætluð. Í 10. gr. segir, að árlega skuli vera völ á hreinræktuðum útsæðisafbrigðum, og hefur þetta töluverða kosti í för með sér. 11. gr. segir beinlínis til um það, að hagnaðinum af verzluninni skuli varið til að efla matjurtarækt og til þess, að tryggja verzlunina á einn og annan hátt. Það er gert ráð fyrir því, að verzlun með innlendar kartöflur verði aldrei verulega arðvænleg. Hins vegar er gert ráð fyrir að flytja inn útlendar kartöflur, þegar innlendar birgðir eru þrotnar, og af þeirri verzlun einni stafar verulegur hagnaður. Ég hugsa, að þegar á allt málið er litið, þá verði frv. ekki bætt verulega frá því, sem það er nú.