26.01.1943
Neðri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

117. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Eins og menn mun reka minni til, var hér á ferðinni fyrir nokkrum árum frv., sem gekk út á það, að lagt yrði í sjóð til þess að standa undir brúabyggingum. Eins og þá var komið, sá Alþ. ekki fært, að mikið yrði lagt af mörkum í því skyni. Þó komst það á eftir miklar þrautir, að benzínskatturinn var hækkaður um 1 eyri og ákveðið að leggja þann eyri í sérstakan sjóð, er síðar yrði varið fé úr til brúagerða. Nú eru í sjóði á 4. hundrað þús. krónur, sem verja má til brúagerða.

Aðstaðan hefur ekki breytzt að því er snertir stórár, sem brúa þarf, en þær eru margar. Bæði í fyrra og hitteðfyrra var aðstaða til að leggja fé í stórbrýr ekki til staðar. En efni hefur hækkað mjög síðan. Samkvæmt upplýsingum frá vegamálastjóra kosta brýr, sem fyrir stríð voru 100 þús., nú 370 þús. kr. Þar sem verðlagið er svona og efni flyzt ekki til landsins í bili, leggjum við til í frv., að tveggja aura benzínskattur verði ákveðinn og lagður í sjóðinn. Það er mjög áríðandi, að fé sé fyrir hendi, þegar hægt verður að hefjast handa um framkvæmdir. Um þörfina á því að koma þessu í framkvæmd þarf ekki að ræða. Það er öllum ljóst.

Það hefur verið reiknað út, að ef Jökulsá á Fjöllum yrði brúuð, mundu sparast eigi minna en kr. 38.00 á hverjum bíl með fyrirstríðsverði, svo mikið styttist leiðin til Austurlands. Mundi brúarkostnaðurinn þannig greiðast margfalt á fám árum. Ég viðurkenni, að með þessu er tekið dálitið af tekjum ríkissjóðs, og tel ég það rétt. Ef við hugsum til að brúa fleiri ár fljótlega, verður að leggja fé fyrir. Þótt mikið fé hafi verið til árið sem leið og líkur til, að svo verði í ár, má búast við, að eigi verði langt að bíða sömu vandræða og voru fyrir 1940, ef þurfti að leggja nokkur hundruð þús. fram til byggingar stórbrúa. Mundi þá þykja gott að hafa lagt fé fyrir. — Vona ég, að frv. fari til 2. umr. og sýnist það eiga heima hjá fjárhagsnefnd.