19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Eysteinn Jónsson:

Í þessu frv. er eitt verulegt nýmæli. Stjórninni er heimilað að ákveða, að verðlag á öllum vörum nema þeim, sem sérstakar nefndir fjalla um, skuli ekki breytast frá tilteknum degi, þ.e. deginum í gær. Framsfl. álítur, að hér sé stigið spor í rétta átt og mun fylgja frv. Hins vegar telur hann alveg augljóst, að hér er aðeins um fyrsta skref að ræða á langri braut, ef stöðva á verðhækkun eða lækka vörukostnað frá því, sem nú er. Það er augljóst, að það eitt út af fyrir sig að halda verðlaginu föstu útheimtir meira en gert er ráð fyrir í frv. Þetta er því aðeins fyrsta skrefið í áttina til að stöðva dýrtíðina. Ef það ætti að standa til langframa, mundi leiða af því meiri afskipti af verzlun en hér kemur fram. Ég legg því mikið upp úr þeirri staðhæfingu hv. fjmrh., að ekki verði lagt fram fé til þess að stöðva dýrtíðina nema með samþykki Alþ. Þetta lít ég á sem mjög mikilsvert atriði.