17.03.1943
Neðri deild: 77. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

93. mál, hafnarlög fyrir Húsavík

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Þetta mál er komið fram í hv. Ed. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur haft það til meðferðar á tveimur eða þremur fundum og hefur fengið vitamálastjóra til viðræðna um það og einnig rætt um það við sjútvn. Ed. En ástæðan til þess, að sjútvn. þessarar d. þótti þörf á að ráðgast um þetta svo mjög, var sú, að hér er komið inn á þá braut að hækka framlag til hafnarbóta eftir verðlagi því, sem nú gildir. Sjútvn. hefur eftir þessa athugun komizt að þeirri niðurstöðu, sem sem skýrt er frá í nál. á þskj. 528, að leggja til, að frv. verði samþ. með lítils háttar breyt., sem aðallega eru leiðréttingar. Og þó að það kunni að virðast svo, að í því liggi nokkur hætta að hækka framlag úr ríkissjóði og ábyrgð ríkissjóðs upp í það, sem verðlagið er nú, þá er þess að gæta, að bæði er yfir lýst, að þessar hafnarbætur verði ekki gerðar, meðan verðlagið er á hæsta toppi, og eins er það háð vilja Alþ. í hvert skipti, hvað veitt er til hafnarbóta, og fer eftir till. vegamálastjóra, hvenær í slíkar umbætur verði ráðizt. Það má þess vegna ekki telja, að nein óvarkárni felist í því að hækka þessa áætlun upp í nútíma verðlag.

Sjútvn. hefur lagt til, að gerðar verði örlitlar breyt. á frv. sem mega skoðast sem leiðréttingar. Áætlaður kostnaður við þessar hafnarbætur er 3 millj. kr., og þar af leiðandi mundi framlagið eiga að vera samkvæmt því, sem venja er til í slíkum l., að framlag ríkissjóðs sé 2/5 hlutar, 1200000 kr., en ábyrgð fyrir 3/5 hlutum, sem yrðu þá í þessu tilfelli 1800000 kr. Við ætlumst því til samkv. brtt. í nál. um, að í stað „1000000.00 — ein millj. króna“ í 1. gr. frv. komi: 1200000.00 — ein millj. og tvö hundruð þúsund kr. Og við leggjum til, að í stað „2100000.00 — tveggja millj. og eitt hundrað þús. kr.“ í 2. gr. frv. komi: 1800000 — einnar millj. og átta hundruð þús. Er það síðar talda ríkisábyrgðin.

Þá hefur meiri hl. n. lagt til, að fellt sé niður niðurlag l. gr., sem er orðin: „enda sé ekki hafizt handa um framkvæmdir nema með leyfi ríkisstj., að fengnum tillögum vitamálastjóra.“ Þessi varnagli hér er að því er virðist enn þá fyllri í 9. gr. l. sjálfra eins og þau eru nú, og virðist því alveg óþarft, að þetta sé þarna endurtekið. Þó hafa tveir af nm. (LJós og GG) ekki getað fallizt á að nema þetta í burt, eða áskilið sér rétt til þess að vera á móti því, ef þeim svo sýndist. Ég vil taka það fram, vegna þess að tekið er fram í nál., að fyrirvari þessara tveggja lm. nm. sé við 2. brtt., að við prentun þessa nál. hefur prófarkalesari breytt þannig til um niðurröðun brtt., sem er eflaust rétt, að í staðinn fyrir, að brtt. var í þremur tölul., þá hefur hann breytt því þannig, að hún er í tveimur töluliðum, en fyrri tölul. till. greinist í stafl. a og b. fyrirvari þessara tveggja hv. nefndarmanna er því við b-lið fyrri töluliðs brtt.

Ég held, að ég þurfi ekki að mæla frekar fyrir þessu frv. Málið er ekki ágreiningsmál, og n. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breyt.