19.02.1943
Neðri deild: 62. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

51. mál, virkjun Fljótaár

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. — Eins og hv. þdm. hafa orðið varir við, hefur fjhn. ekki getað komið sér saman í þessu máli. Það er að vísu ekki ágreiningur milli meiri hl. og minni hl. n. um það, að Siglufjarðarkaupstaður þurfi og eigi að fá aukið rafmagn eins fljótt og verða má, heldur er ágreiningurinn um það, hvaða leið skuli fara til þess að sjá Siglufirði fyrir rafmagni. Þessi ágreiningur er svo mikill, að minni hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt og þar með verði Siglufjarðarbæ gert kleift að halda áfram með þessa virkjun á Skeiðsfossi, sem byrjað hefur verið á og þar með fá nægilega raforku með sæmilegum kjörum í náinni framtíð. En meiri hlutinn vill afgreiða málið með rökst. dagskrá, sem mundi tefja málið um ófyrirsjáanlega framtíð. Og af því að þetta er ekki það eina mál, eins og hv. frsm. meiri hl. n. benti á, sem fyrir þingið er lagt, sem mundi fá lík afdrif og þetta mál, ef meiri hl. fjhn. réði, þá er vert að athuga að nokkru röksemdafærslu meiri hl. n. og þá hluti, sem hann byggir þessa afstöðu sína á.

Hv. meiri hl. fjhn. byrjar röksemdafærslu sína á að segja, að rafmagnið skapi þau lífsskilyrði og valdi þeirri gerbreytingu á lífsskilyrðum manna, að fólkið, sem hafi vanizt því að hafa rafmagn, vilji ekki við annað búa. Þar, sem rafmagnið er, þar vilji fólkið vera, og þar, sem það er ekki, þar vilji það ekki vera. Og svo segir meiri hl. n., að þegar um rafmagnsframkvæmdir sé að ræða, þurfi að athuga gaumgæfilega, að þessar framkvæmdir komi sem flestum landsmönnum að gagni og á hvern hátt hægt sé að bjarga flestum sveitum og kauptúnum frá myrkri og kulda og koma í veg fyrir, að byggilegar sveitir leggist í auðn. Við þessu er aðeins því að svara, að ef það er skilyrði fyrir því, að sveitirnar leggist ekki í auðn, að þær fái rafmagn, þá verður það skilyrði ekki fyrir hendi, a.m.k. fyrsta áratuginn frá þessum tíma að telja, að dreifbýli landsins fái rafmagn.

Það vill svo vel til, að það hefur verið gerð áætlun um rafveitu um Rangárvallasýslu, þar sem rafmagnseftirlitið hefur gert áætlun um kostnað við að veita rafmagni inn á flesta bæi í þeirri sýslu. Rangárvallasýsla er að vísu ekki bezt fallin af sveitum landsins til að veita rafmagni um hana; bæirnir eru nokkuð dreifðir þar. Það er t.d. miklu heppilegra að veita rafmagni um Eyjafjörð og Þingeyjarsýslu, sem kemur til af landslagi, því að bæirnir þar liggja nokkurn veginn í beinum linum í dölum og meðfram fjöllum. En af þessari áætlun, sem rafmagnseftirlitið hefur gert um Rangárvallasýslu, sést, að kostnaður á hvert býli við þá framkvæmd mundi verða um 16 þús. kr., og er þá ekki talinn með sá kostnaður, sem fer í annað en að leggja aðallínuna. Þessi áætlun var gerð í sambandi við áætlun um virkjun Tungufljóts. Dettur nú nokkrum hv. þm. í hug að ætla, að í slíkan kostnað verði hægt að ráðast eða að bændur gætu risið undir honum, þegar ofan á þetta leggst innlagningarkostnaður og svo raftæki, sem bændur þá þyrftu að fá sér? Ég skal ekki segja, hve mikill sá kostnaður yrði. En mér þætti ekki undarlegt, þó að allur kostnaður við það að fullnægja rafmagnsþörfinni þarna yrði á hvert býli um eða yfir 20 þús. kr. Og ég held ekki, eftir því sem ég sá hér um daginn við afgreiðslu fjárl., þegar hv. þm. felldu hvert þrifnaðarmálið af öðru, að hv. þm. legðu þann bagga á ríkissjóðinn, nema ef vera skyldi rétt fyrir kosningar, eins og þegar þeir samþ. verðuppbæturnar í sumar.

Það vandamál, hvernig eigi að halda fólkinu í sveitinni, verður ekki leyst með því að leiða rafmagn inn á hvert býli. Til þess erum við of fátækir, og auk þess yrði það til þess að halda við dreifbýlinu, sem ég held, að allir hljóti að vera sammála um, að sé böl íslenzks landbúnaðar. Þetta er að vísu annað mál, en það er svo samtvinnað þessu, og þess vegna fór ég hér inn á það út frá röksemdafærslu hv. meiri hl. fjhn. í nál. hans um þetta rafvirkjunarmál, sem fyrir liggur til umr. Og hv. meiri hl. n. byggir á þeirri skökku forsendu, að með því að byggja háspennulínur um sveitirnar, þá sé þörf dreifbýlisins fyrir rafmagnið leyst. En nú er ekki hægt að tappa af háspennulínu, segjum 60 eða 30 þús. volta línu, beint til sveitabæjanna, heldur þarf að spenna niður strauminn, fyrst í 6 þús. eða 3 þús. volt, og svo spenna hann aftur niður í notkunarstraum, og það er þetta, sem kostar svo mikla peninga. Hv. meiri hl. fjhn. segir hér í nál. sínu, með leyfi hæstv. forseta: „Að miða framkvæmdirnar einungis við það, hvernig er hægt að fullnægja þeim stöðum, sem hafa flest fólk á minnstum bletti, án þess að taka nokkurt tillit til hinna, er að okkar áliti óafsakanlegt.“ Það á að sjálfsögðu að taka fullt tillit til þeirra, sem eru utan við þessa þéttbýlu bletti. Svo segir meiri hl. n. enn fremur: „Þegar um fleiri en eina leið er að velja, þarf þess vegna góða athugun, rækilegan samanburð og nákvæmar áætlanir. Þar er um vandasamt efni að ræða, og dugir ekki að hrapa að neinu.“ Meiri hl. fjhn. telur að vísu ekki nógu vel athugað, hvernig bezt verði fullnægt rafmagnsþörf Siglufjarðarkaupstaðar, en slær þó föstu, eftir því sem fyrir liggur, að leggja til, að frv. á þskj. 71 verði afgr. með rökst. dagskrá, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um virkjun Gönguskarðsár með 2 millj. kr. ábyrgðarbeiðni fyrir Sauðárkrók og tillaga um rafleiðslu til Dalvíkur og annarra byggða vestan Eyjafjarðar, og þar sem athugun bendir til, að hagkvæmast verði að fullnægja raforkuþörf þessara byggða og Siglufjarðar sameiginlega á þann hátt að stækka orkuverið við Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og flytja rafmagnið þaðan með háspennulínum um Akureyri og Dalvík til Skagafjarðar og Siglufjarðar, þá telur deildin eigi rétt að samþykkja nú 6 millj. kr. ábyrgðina fyrir Siglufjörð og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þrátt fyrir það að hv. meiri hl. fjhn. telur, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, ekki nægilega búið að rannsaka þessi rafveitumál í heild og því sé undirbúningur ekki nægilegur til þess að hægt sé að samþ. þessa ábyrgðarheimild, þá slær meiri hl. n. því samt föstu, að eftir þeim athugunum, sem gerðar hafi verið, bendi allt til þess, að það sé heppilegasta leiðin að stækka orkuverið við Laxá og veita þaðan rafmagni m.a. til Siglufjarðar.

Við skulum þá líta á þá athugun, sem gerð hefur verið á þeirri aðferð við að fullnægja rafmagnsþörf Siglufjarðarkaupstaðar og annarra staða, sem fram eru teknir í dagskrártill., á þann hátt, sem hv. meiri hl. n. bendir til. Eftir því sem fram kemur hér á þskj. nr. 400, sem nál. hv. meiri hl. fjhn. um þetta mál er prentað á, þá er þessi ályktun gerð í samræmi við álit mþn. í raforkumálum, sem birtist í bréfi, sem prentaður er útdráttur úr á þessu sama þskj. Það verður ekki skilið svo við þetta mál, að þáttar þessarar n. í málinu verði ekki getið, því að hann er vægast sagt með hreinustu endemum. Að hugsa sér, að ríkisskipuð nefnd, sem á að leggja fyrir hæstv. Alþ. till. til úrbóta í rafmagnsmálum, skuli leyfa sér að falsa niðurstöður sérfræðinga þeirra, sem hana hafa aðstoðað, og að því er virðist vísvitandi! Í hvaða tilgangi það er gert, skal ég ekki segja, en það virðist vera í þeim tilgangi gert að sanna, að hugmynd, sem skotið hefur upp í kolli eins eða fleiri hv. nm. í þeirri n., sé rétt. Þetta er alveg forkastanlegt af ríkisskipaðri n. að gera. Slík n. á að athuga hlutdrægnislaust það, sem hún fær frá sérfræðingum, og draga ályktanir út frá því alveg hlutdrægnislaust. Mþn. staðhæfir, að hún hafi notið aðstoðar rafmagnseftirlits ríkisins og verkfræðinganna Steingríms Jónssonar og Árna Pálssonar við áætlanir um það, á hvern hátt verði hagkvæmast að fullnægja raforkuþörf landsmanna. Er ekki undarlegt, að þessir menn skuli keppast við að sverja af sér allt, sem komið hefur frá þessari mþn.? Árni Pálsson fullyrti, að það mætti halda það eftir sér, að þessi n. hefði aldrei talað við sig. Ég átti tal við Jakob Gíslason, forstöðumann rafmagnseftirlits ríkisins, áður en hann fór til. Ameríku. Hann skýrði mér frá þessari hugmynd um landslínu, og þegar hann fór, var allt óathugað í því sambandi og á byrjunarstigi. Hann sagði ekkert af eða á um það, hvort hann teldi. hana heppilega eða ekki, en að það væri sjálfsagt að athuga þetta og bera saman við virkjunaraðstæður í hverju einstöku tilfelli. Og ásamt Steingrími Jónssyni mun Jakob Gíslason vera sá maður hjá okkur, sem færastur er að fjalla um þessi mál. Nú segir hér í þessum útdrætti úr bréfi mþn. í raforkumálum, með leyfi hæstv. forseta: „Hefur nefndin fengið byrjunaráætlanir um kostnað við að tengja saman aflstöðvar við Sogið og Laxá með línu, er lögð yrði um Borgarfjörð, Húnavatnssýslur, Skagafjörð og Eyjafjörð.“ Það eru aðeins byrjunaráætlanir, sem þarna er um að ræða. Mér er þetta mál svo kunnugt, þó að það sé fyrir það, að ég hef verið að hnýsast í það, sem mér ekki beint kom við. Svo segir mþn. í raforkumálum í bréfi sínu: „Eftir að hafa athugað þær upplýsingar, sem nefndin hefur fengið, hefur hún komizt að þeirri niðurstöðu, að hagkvæmast verði að bæta úr rafmagn, þörf fólksins í þessum landshlutum með því að auka við aflstöðvar í Sogi og Laxá og tengja þær saman með landlínu um þau héruð, sem nefnd hafa verið.“ Þ.e. Borgarfjörð, Húnavatnssýslur, Skagafjörð og Eyjafjörð.

Nú skulum við athuga, hvernig þessi hv. mþn. hefur notað sér upplýsingar sérfræðinga þeirra, sem hér koma til greina, og þá verður kannske skiljanlegt, hvers vegna þeir sverja þetta af sér. N. byrjar hér í útdrættinum úr bréfinu, sem birt er á þskj., viðkomandi því, sem hún segir um virkjun Fljótaár, með því að segja, að farið sé fram á 6 millj. kr. ríkisábyrgðarheimild fyrir láni handa Siglufjarðarkaupstað til virkjunar Fljótaár. Svo skýrir hún frá því, að birtar séu sem fylgiskjal með frv. um þetta efni á þskj. 71 áætlanir Steingríms Jónssonar rafmagnsstjóra í bréfi frá honum, sem þar er prentað. En hvort sem það er vísvitandi eða óvart, að villandi er frá skýrt, þá er það svo, að n. gerir ráð fyrir, að kostnaður við 2350 hestafla virkjun að meðtalinni linu til Siglufjarðar og spennistöð þar muni vera um það bil 5700000.00 kr. En ef virkjunin væri tvöföld á við þetta, eða 4700 hestafla virkjun, þá mundi kostnaðurinn verða 750 þús. kr. meiri. En ef við göngum inn á þessa skoðun n., að hér sé aðeins um 2350 hestafla virkjun að ræða, eða 1600 kw., þá yrði kostnaðurinn 360 kr. á árskw. Stofnkostnaðurinn við árskw. er þá 3600 kr., en árskw. 360 kr., eða 10% af stofnkostnaðinum. Sumir vilja reikna það 9% af stofnkostnaðinum, en mér þykir varlegra að reikna með 10%. Ef við tækjum aftur á móti stærri virkjunina, þá verður árskw. um 200 kr.

Svo segir n. enn fremur: „Eins og áður er tekið fram, hefur nefndin fengið rafmagnseftirlitið til að gera athuganir um kostnað við landslínu, miðað við núverandi verðlag.“ Og n. lætur skína í það að áætlanir þær, sem í nál. eru, séu í samræmi við þessa fyrirhuguðu landslínu. En það er langt frá því, að svo sé. En ég hef hér áætlanir þær, sem n. fékk frá rafmagnseftirliti ríkisins, og ég vil gera nokkurn samanburð. Það sýnir sig, að n. hefur sleppt þremur veigamiklum atriðum, og það er það, sem ég kallaði áðan að falsa niðurstöður sérfræðinga. Í áætlun rafmagnseftirlits ríkisins, sem prentuð er í nál. um 30 kw. línu frá Laxá til Siglufjarðar, er áætlaður kostnaður við þá línu 8200000.00 kr. En stofnkostnaður á kw. er þar talinn 5460 kr., eða 5460 kr. árskw. á móti 360 kr., ef virkjaður yrði Skeiðsfoss. En svo stendur hér frá rafmagnseftirliti ríkisins: „Hér við mundi bætast þátttaka í orkuveri Laxárvirkjunarinnar og núverandi háspennulína þaðan til Akureyrar.“ Þessu sleppir n. hér í nál. En ef þessu er bætt við, sem auðvitað hlýtur að þurfa að gera, þá hækkar árskw. þar með um að minnsta kosti 130 kr., eða upp í 630 kr., á móti 360 kr., sem það mundi verða með því að virkja Skeiðsfoss.

Svo er annað atriði, sem ekki er tekið hér með, að í þessari 30 þús. volta háspennulínu, þá er aðeins gert ráð fyrir, að Siglufjörður fái 950 kw. Það er aðeins gert ráð fyrir, að þessi lína flytji 1500 kw. alls, þar af 310 til Sauðárkróks, 90 til Hofsóss og 150 til Dalvíkur. En þessi lína getur alls ekki flutt svona mikið, og því síður, að hún geti flutt meira. Siglufirði eru ekki ætluð þarna nema 950 kw., og það yrði skammgóður vermir. En svo bætist við, að í þessari línu er svo mikið spennufall og orkutap, eftir því sem rafmagnseftirlitið skrifar hér í áætluninni: „Afltöp í 30 kw.-kerfinu er þá alls um 154+75+400+200+100 = 930 kw.“ Með þeim 1500 kw., sem þessi lína fengi, þarf að leggja 930 kw. að auki frá Laxárvirkjuninni, og einhvers staðar þarf að taka borgun fyrir þau. Um seinni áætlunina gegnir alveg sama máli. Hún á sér enga stoð í veruleikanum. Það stendur hér í áætluninni, sem kemur frá rafmagnseftirliti ríkisins, að aflflutningurinn verði sá sami sem ég hef skýrt hér frá áður. Þessu er gleymt að skýra frá, og orkutöpum er líka sleppt. Það var þetta, sem ég leyfði mér áðan að kalla fölsun. Svo er annað, sem ég var búinn að gleyma. Mþn. hefur líka fengið frá rafmagnseftirlitinu skýrslu um aflnotkun á Akureyri. Þar segir, að afl Laxárvirkjunarinnar verði 4100 kw., eftir að nýja vélasamstæðan kemur. Núverandi aflnotkun er um 2000 kw., en áætlað er, að það vanti 600 kw. til Akureyrar, 100 til Svalbarðseyrar og 500 til Húsavíkur. Enn fremur segir í áliti rafmagnseftirlits ríkisins: „Óvarlegt er að reikna ekki með neinu varaafli í eins stóru orkuveri og þessu, nema um sé að ræða rétt til bráðabirgða. Má telja, að hæfilegt væri að reikna minni (15 00 kw.) vélasamsæðuna til vara og til að taka álagstoppana.“ Þetta er kannske fullmikið ílagt, en þetta segir rafmagnseftirlit ríkisins samt. Svo halda sérfræðingarnir áfram: „Sé reiknað með 4100 kw. orkuveri og 3200 kw. aflþörf á núverandi veitusvæði Akureyrar, á Svalbarðseyri og í Húsavík, eru aðeins um 900 kw. til að mæta aukningu í kringum Akureyri eða annars staðar á veitusvæðinu, þótt ekki væri gert ráð fyrir nokkru varaafli í Laxárstöðinni.“ Það væri eðlilegt, að Dalvík og héruðin út með Eyjafirði fengju að verða aðnjótandi þessa rafmagns. Enn fremur segir: „Virðist því augsýnilegt, að orkuflutningur frá Akureyri til Siglufjarðar kemur ekki til greina, fyrr en eftir aðra aukningu Laxárvirkjunar.“ Rafmagnseftirlit ríkisins bendir á, að þau skilyrði, sem þurfi að vera fyrir hendi til þess að orkuflutningur geti átt sér stað, séu:

1. Nýtt orkuver við Laxá.

2. Ný háspennulína frá Laxá til Akureyrar.

3. 132 kw.-lína frá Akureyri til Dalvíkur,

Það er hvergi minnzt á það hjá mþn., að byggja þurfi 132 kw.-línu frá Akureyri til Dalvíkur. Það gleymir mþn. algerlega að benda á.

Rafmagnseftirlit ríkisins hefur gert áætlun, þar sem þessi kostnaður er tekinn með, og þá kemur það fram, að kostnaðurinn er um kr. 530.00 fyrir árskw. móti kr. 360.00, ef virkjað er á Siglufirði. Eftir þessar dæmalausu athuganir mþn. og þessa meðferð á áætlunum sérfræðinganna ályktar hún svo, að rétt sé að velja þá leið, sem hún bendir á, og telur óráðlegt að samþykkja frv. Ég ætla, að þessi grg. mín sé nóg til þess að sanna hið gagnstæða og vænti, að hv. þm. láti ekki þessar staðleysur mþn. villa sér sýn, heldur samþykki frv.

Ég hef sýnt fram á það, að samkv. áliti sérfræðinga þeirra, sem n. hafa aðstoðað, verður h.u.b. helmingi ódýrara fyrir Siglufjörð að virkja heldur en að fá rafmagn frá Laxárvirkjuninni. Ég hef enn fremur sýnt fram á, að samkv. áliti þeirra kemur ekki til mála, að Siglufjörður fái rafmagn frá Laxá, nema ný virkjun fari þar fram, önnur og meiri stækkun en þar er nú verið að framkvæma, vegna þess að þau 4100 kr., sem þar fást, nægja, eftir því sem rafmagnseftirlitið segir, aðeins Akureyri, Svalbarðseyri og Húsavík auk 900 kw. til að mæta eðlilegri aukningu á. þessu veitusvæði og þetta, þó að ekki sé gert ráð fyrir neinu afli til vara.

Svo vil ég endurtaka það, sem ég sagði í byrjun, að það dugar ekki að ætla sér það að raflýsa sveitirnar, svo að rafmagn komi þar inn á hvern bæ. Slíkt er í fyrsta lagi óframkvæmanlegt og yrði þess utan til þess að viðhalda dreifbýlinu, þessu mesta böli íslenzks landbúnaðar. Það verður auðvitað að kosta kapps um það, að sem flestir verði raforku aðnjótandi og það verði framkvæmt á sem ódýrastan hátt.

Þetta leiðir beint af sér, að stað eins og Siglufirði, sem allir eru sammála um, að eigi að fá raforku sem allra fyrst, verður að gera kleift að virkja handa sér Skeiðsfoss, þar sem sýnt er, með því fær hann orkuna um það helmingi ódýrari og miklu fljótar heldur en ef bíða ætti eftir nýrri stórvirkjun í Laxá. Í raforkumálunum verður að fara þá leið, að þéttbýlið, sem getur borið uppi kostnað við virkjanir og veitur, fái fyrst rafmagn, en dreifbýlið síðar og jafnóðum og unnt er. Það má ekki láta leiða sig út í það að ætla að stemma stigu fyrir öllum virkjunum, þangað til unnt er að sjá dreifbýlinu fyrir raforku, en eitthvað þessu líkt virðist vaka fyrir þessari mþn. í rafmagnsmálum.

Ég benti á það, að þó hér sé aðeins um eitt mál að ræða, mun það draga dilk á eftir sér, ef það verður fellt, því að nú liggja fyrir þinginu frv. um ábyrgðarheimild vegna virkjunar Gönguskarðsár og Andakílsfossa, og það er ekki líklegt, að þau frv. muni fá byr, heldur eiga undir högg að sækja. Virkjun, sem nú er verið að framkvæma fyrir Ísafjarðarkaupstað, sem byrjað var á á síðasta sumri, mun heldur ekki falla inn í þetta svo kallaða landslán, en þessi virkjun er nauðsynleg og aðkallandi, því að Ísafjarðarkaupstaður hefur ekki nærri því nægilegt rafmagn. — Ég vænti því, að hv. d. samþykki þetta frv.