26.02.1943
Neðri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

51. mál, virkjun Fljótaár

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ef ég man rétt, gat forseti þess, að málið væri tekið af dagskrá samkv. beiðni stj., en ég sé ekki, að stj. hafi verið hér við umr. Þykir mér þetta vera dálítið einkennilegt og vildi því biðja hæstv. forseta að gera grein fyrir, hvernig í þessu lægi, en máske er honum þetta ekkert kunnara en öðrum hv. þm.

Annars kvaddi ég mér hljóðs af tveimur ástæðum og skal greina frá þeim í sem stytztu máli. Ég ætla ekki að fara að taka þetta mál úr þeim skorðum, sem því eru settar með því frv. til h, sem það er í á þskj. 71. Í raun og veru er málið einfalt og liggur opið fyrir, og er því ástæðulaust að blanda hinu og þessu inn í umr., eins og gert hefur verið. Það er alger misskilningur, að um það sé að ræða, hvort virkja eigi Fljótaá eða ekki, það hefur þegar verið ákveðið. Kaupstaðurinn hefur þegar fengið frá hæstv. Alþingi lagaheimild til þess að virkja þetta vatnsfall, og einnig er leyfi stj. fyrir hendi til þess að byrja að fengnu leyfi þar til kvaddra sérfræðinga. Þetta mál horfir því alls ekki svo við sem menn vilja vera láta. Það, sem um er að ræða nú. er aðeins það, hvort hæstv. Alþingi vill veita ábyrgðarheimild til þessarar virkjunar eða ekki.

Hitt atriðið, sem kom mér til þess að taka til máls, er það, að enn hefur ekki komið fram álit Sjálfstfl. á þessu máli hér í hv. d. Að vísu hafa tveir þm. flokksins, sem eiga sæti í fjhn., látið í ljós, að þeir væru á móti ábyrgðarheimildinni, sem farið er fram á, að veitt verði á þskj. 71. En þetta gæti gefið ranga hugmynd um afstöðu flokksins til þessa máls, ef það væri ekki skýrt neitt nánar. Það, sem ég vildi taka fram út af þessu, þó að ég tali ekki fyrir hönd flokksins, er, að á fundum Sjálfstfl. hafa þessi mál, raforkumálin, mikið verið rædd, og flokkurinn hefur einróma litið svo á, að styðja bæri rafveitur, þar sem þær bæru sig fjárhagslega og fengið væri álit sérfróðra manna um, að rétt væri að hefja framkvæmdir við þær aðstæður, sem fyrir væru.

Siglufjarðarkaupstaður leitaði svo til miðstj. flokksins eins og til annarra flokka um stuðning þeirra við þetta mál, sem nú er til umr., og gaf hún fyrir sitt leyti samþykki sitt um stuðning við, að ábyrgðarheimildin yrði veitt. Þetta vil ég, að komi fram skýrt og ákveðið, til þess að afstaða Sjálfstfl. komi greinilega í ljós, hvað sem svo einstakir þm. flokksins, svo sem þeir tveir hv. þm., er talað hafa og sæti eiga í fjhn., hafa sagt, sem hefði verið hægt að draga ranga ályktun af, hvað varðar afstöðu Sjálfstfl. — En auðvitað er hv. þm. heimilt að hafa hver sína skoðun á þessu máli sem öðrum, en það er þá þeirra „privat“ skoðun.

Í raun og veru er þetta það, sem ég vildi hafa sagt í sambandi við frv., en ég vil ekki vera að blanda mér inn í þær lærðra manna deilur, sem átt hafa sér stað hér og eru að mestu leyti óþarfar og ekki heyra þessu frv. til. Enda tel ég mig ekki vera svo lærðan í þessum rafmagnsmálum, að ég sé að hætta mér út í sérþekkingarhlið málsins, og mig furðar á því, hve hér hafa á þessari samkomu komið fram, að því er virðist, miklir sérfræðingar í þessu máli.

En ég er nú svo barnalegur, að ég hef í afstöðu minni til þessara mála stuðzt við álit og rannsóknir þeirra sérfræðinga, er athugað hafa skilyrðin fyrir því að virkja þetta umrædda vatnsfall fyrir Siglufjörð. Og sá maður, sem mest hefur fengizt við þessi mál, Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri, hefur gefið út álit sitt á þessari virkjun, um kostnað hennar og rekstur, sem hv. 1. þm. Árn. hefur haldið uppi gagnrýni á. Hefur rafmagnsstjóri í bréfi 15. þ. m. birt yfirlitsskýrslu, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa nokkur orð úr niðurlagi þessa bréfs:

„.... Í kostnaðaráætlun sinni ( þ.e.a.s. verkfræðings firmans Höjgaard & Schultz) reiknar hann með mun hærra einingargrunnverði en gert hafði verið í fyrri áætlunum, auk hækkunar vegna verðlagsvísitölu, svo að segja verður, að kostnaðaráætlunin sé örugg um að standast með óbreyttum ástæðum. Áætlun þessa ásamt greinargerðum, teikningum og öðrum fylgiskjölum sendi Siglufjarðarkaupstaður til ríkisstj. 1942, með umsókn um virkjunarleyfi. Ríkisstj. sendi síðan vegamálaskrifstofunni og rafmagnseftirliti ríkisins áætlanir til athugunar og samþykktar, og veitti ríkisstj. síðan virkjunarleyfi.“ Og enn fremur: „Ég tel því, að frá teknisku sjónarmiði sé þessi virkjun einnig mjög vel undirbúin orðin.“

Hv. 1. þm. Árn. gat um það, að það vantaði rannsókn í þessu máli, þannig að hún væri samfelld og hægt væri á henni að byggja. — Ég hef ekki orðið var við, að svo mætti álykta af þeim skjölum, er ég hef séð um undirbúning þessa máls. Hv. þm. á þó líklega við það, að árið 1941 vantaði jarðvegsrannsókn fyrir neðra stíflustæðið. Þessi rannsókn hefur nú farið fram og borið æskilegan árangur. Hægt er að gera þarna steinsteyptan stíflugarð í stað þess, að áður var ætlað, að þessi stífla yrði að vera úr timbri og stáli, sem hefði orðið mun óheppilegra.

Annars ætlaði ég mér ekki að fara út í faglegu hlið málsins, eins og ég líka tók fram, heldur vildi ég með þessum orðum mínum gera ljósa afstöðu Sjálfstfl. til málsins, og af henni má ráða, að Sjálfstfl. mun styrkja þetta mál, hvað sem líður „privat“ skoðun þeirra tveggja hv. þm, Sjálfstfl., sem hafa tjáð sig andvíga frv.

Ég verð að segja það, að mér finnst það ekki vansalaust, að mál þetta skuli hafa svo lengi þvælzt í n., og maður getur ekki varizt þeirri hugsun, að með þessu væri verið að reyna að hindra framgang málsins, að það væri verið að leggja stein í götu þess með því að draga það svo á langinn. En fyrir alla muni vil ég beina því til háttv. þm., að þeir athugi vel, hvað hér er um að ræða, að það er ekki verið að spyrja um það, hvort virkja eigi Fljótaá eða ekki, það er þegar afgreitt mál. Um það er einungis að ræða, hvort hæstv. Alþingi vill veita ríkisábyrgð fyrir láni til þessarar virkjunar, svo að auðið sé að fá ódýrt lán til framkvæmdarinnar og betri rekstrarafkomu. Mér er þetta mál orðið svo kunnugt, að mér er óhætt að segja, að Siglufjarðarkaupstaður er ákveðinn í að leggja út í þessa virkjun, þótt svo færi, að þessi ábyrgðarheimild yrði ekki veitt.