26.02.1943
Neðri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

51. mál, virkjun Fljótaár

Forseti (JJós):

Hv. 7. þm. Reykv. hafði beint þeirri fyrirspurn til forseta, af hvaða ástæðum hæstv. ríkisstj. hafi óskað, að málið yrði tekið af dagskrá á síðasta fundi. Sá forseti, sem þá var, gat ekki greint frá því. Nú vil ég upplýsa, að ástæðan var sú, að hæstv. atvmrh. taldi sig ekki geta náð nauðsynlegum upplýsingum varðandi málið, svo að hann gæti lagt þær fram þá. Þar sem þær eru heldur eigi fyrir hendi í dag og hann lét í ljós, að hann gæti ekki beðið fram eftir deginum, bað hann þess getið, að hann mundi á síðara stigi málsins hafa afskipti af því.

Þar sem tveir eru enn á mælendaskrá og komið er fimm yfir venjulegan fundartíma auk þess, sem mér hefur borizt tilkynning um, að einn þingflokkurinn muni hafa miðstjórnarfund um kl. 5, mun ég falla frá því að halda fundi áfram eftir þann tíma.