01.03.1943
Neðri deild: 68. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

51. mál, virkjun Fljótaár

Þótt starf n. sé nokkuð langt á veg komið og hún hafi sinnt því allt frá þingsetningu, þá er henni ljóst, að mikið er enn þá óunnið, svo umfangsmikið sem starfsvið hennar er. Því má búast við, að enn líði langur tími, þar til hún skilar endanlegu nál.N. hefur einkum spurt sig að tvennu:

Í fyrsta lagi: Eru tæknislegir möguleikar á því að koma rafmagninu út um sveitirnar? Í öðru lagi: Er það mögulegt vegna kostnaðarins? Eftir að hafa leitað að svörum við þessum spurningum, þá hefur n. fullvissað sig um, að þetta er mögulegt. En það verður ekki gert nema með sameinuðu átaki allrar þjóðarinnar og skilningi á þörfum og tilveru dreifbýlisins. Það er nauðsynlegt, að þeir, sem í þéttbýlinu búa, skilji það, að það er þjóðarnauðsyn, að fólkið verði áfram í sveitunum og blóðtaka þeirra verð; stöðvuð.

Það hefur orðið ljóst við þessar umræður, að það eru uppi tvær stefnur í raforkumálunum. Annars vegar er stefna þeirra, er enga trú hafa á möguleikum og afkomu dreifbýlisins. Þessi hjáróma vonleysistónn telur jafnvel, að dreifbýlið sé þjóðarplága. Það er eðlilegt, að þeir. sem telja landbúnaðinn plágu, telji varla ómaksins vert að ræða um að skapa sveitunum rafmagn. Það er ástæða til að vona, að þeir séu fáir, sem taka rödd þessa alvarlega. Það er ekki líklegt, að hún fái hljómgrunn hjá þjóðinni, en að hún fái að tala við sjálfa sig að lokum. En það er leiðinlegt, að innan þingsins skuli vera til menn, er vilja þennan atvinnuveg feigan. Það væri vissulega áhyggjuefni, ef skoðun þeirra ætti eftir að festa rætur innan þingsins, sú skoðun, að smala eigi bændunum úr sveitunum á mölina og gera þá þar að styrkþegum. Það hafa að vísu áður heyrzt vonleysisraddir, er talað hefur verið um framkvæmdir fyrir dreifbýlið. Hvernig var ekki, þegar stóð fyrir dyrum að leggja símann um landið og eins vegakerfið síðar. Þá risu upp menn, er álitu, að þetta væri ekki framkvæmanlegt vegna kostnaðarins og annarra annmarka. Þetta er í samræmi við það, er vissir menn segja nú á Alþ., að rafmagnið komist aldrei út um sveitir landsins. En þetta hefur jafnmikið að segja og andstaðan gegn símanum og vegunum. Sími og vegir kostuðu einnig mikið fé, og það gerðu talsmenn þeirra sér ljóst. En þessar framkvæmdir voru ofvaxnar einstaklingum, og þær voru þegar í upphafi gerðar með almenningsheill fyrir augum. Þannig á að taka á rafmagnsmálunum.

Þeir eru að vísu margir, er berjast vilja fyrir því, að rafmagnið verði almenningseign. Og það er alveg ástæðulaust fyrir einn og einn þm. hér í hv. d. að tala um, að hér sé verið að fjandskapast við bæina. Síður en svo. En um leið og viðurkennt er að sveitirnar eigi að fá þessi þægindi, þá þarf að byggja rafmagnskerfið upp þannig, að byrjunin komi ekki í bága við framhaldið. Ef kaupstaðirnir byggja litlar rafstöðvar, þá getur það tafið fyrir rafmagninu út um sveitirnar. Kerfið þarf að byggja þannig upp, að tekið sé tillit til allra, og reki ríkið öll orkuver og háspennustöðvar.

Það hefur verið talað um það bæði hér og víðar að virkja Sogið og Laxá í Þingeyjarsýslu. Í þessum tveimur vatnsföllum er svo mikið vatnsmagn, að nægja mundi til að fullnægja allri raforkuþörf landsmanna. Þar með er ekki sagt, að útilokaðar væru smærri virkjanir, ef þær féllu inn í hið fyrirhugaða heildarkerfi. Ef þessi tvö vatnsföll yrðu virkjuð og aflstöðvarnar tengdar saman með línu, þá gæti t.d. virkjun Andakílsfossa í Borgarfirði fallið inn í þetta. kerfi, en þeir munu vera vel fallnir til virkjunar. Þannig er og með Tungufoss. Hann sker ekki í sundur heildarkerfið, heldur væri hann fremur sem endastöð. Ekki er fullrannsakað, nema betra væri talið að virkja hann sérstaklega en leiða þangað línu frá Soginu. Með rannsókn mun úr þessu fást skorið líklega þegar í vetur. En það, sem fyrirbyggja þarf, er, að ekki séu byggðar litlar og kostnaðarsamar stöðvar, sem slíta í sundur hið fyrirhugaða heildarkerfi. Dynjandi í Arnarfirði hefur einkum verið tilnefndur sem orkugjafi fyrir Vestfirðina og Lagarfoss fyrir Austfirði. Það er líklegast, að þessir landsfjórðungar muni fá rafmagn frá þessum fossum með sérstökum virkjunum, þar eð ekki mun svara kostnaði að leggja línur frá Soginu og Laxá til þessara landshluta. —- Í fáum orðum sagt, þá er aðalatriðið í þessum málum að byrjað sé á réttum enda, svo að ekki verði um neina árekstra að ræða í framtíðinni.

En það, sem hér er nú mest um deilt, er virkjun Fljótaár. Ég vil segja til viðbótar því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði um fylgi Sjálfstfl. við þetta mál, að það er rétt, að bæjarstjórinn á Siglufirði kom á fund hjá flokknum, og var þar málaleitan hans vel tekið að vonum. En hann fékk ekki nein bindandi loforð hjá einstökum flokksmönnum né flokknum í heild. Ég vil aðeins með þessum orðum mínum fyrirbyggja það, að nokkrum geti komið til hugar, að við séum að svíkja gefin loforð, þótt við getum ekki fylgt þessu máli.

Enginn neitar því, að Siglufjörður þarf að fá rafmagn. aðeins eru menn ekki sammala um, hvort veita skuli ábyrgðarheimild ríkisins til virkjunar Fljótaár í þessu skyni. Aðalatriðið er, hvort hagkvæmt er að virkja þetta vatnsfall eða leiða rafmagnið annars staðar að. Þetta þurfa menn að gera upp við sig alveg hleypidómalaust. Við í meiri hl. fjhn. höldum því fram, að heppilegra sé að fá rafmagn til Siglufjarðar með háspennulínu frá Laxá.

Virkjun Fljótaár mun kosta um 5,7 millj. kr. og er þá aðeins reiknað með annarri vélasamstæðunni, sem er 2350 hestöfl. Þá liggur einnig fyrir beiðni um ábyrgðarheimild til virkjunar Gönguskarðsár í Skagafirði, sem mun kosta 3 millj. kr. Með þessum virkjunum fengist rafmagn fyrir Skagafjörð og Siglufjörð, en héruðin á milli Skagafjarðar og Laxár væru eftir sem áður rafmagnslaus. Nú hefur rafmagnseftirlitið reiknað út kostnað við að leiða rafmagn frá Laxá um Eyjafjörð og Skagafjörð allt til Siglufjarðar með spennistöðvum á Akureyri, Dalvík, Hofsós, Sauðárkróki og Siglufirði. Talið er, að kostnaðurinn við þetta verk verði kr. 10365000, eða um 200 þús. kr. dýrara en sérvirkjanirnar tvær á Fljótaá og Gönguskarðsá. Ef þessi leið væri farin, þá fengist rafanagn til Dalvíkur og Hofsóss auk línunnar um Skagafjörð fyrir litlu meira fé en sérvirkjanirnar tvær, og er auk þess opin leið fyrir héruðin þarna á milli til að fá rafmagn. Með þessu væri fenginn álitlegur liður inn í kerfið, sem mþn. hefur gert yfir fyrirhugað rafmagnsnet landsins. Hv. þm. Siglf. kallaði þetta kerfi pólitískar línur, en þær liggja um Borgarfjörð, Húnaþing, Skagafjörð og Þingeyjarsýslur með héraðsspennistöðvum og línum á Snæfellsnes, í Dali, að Hólmavík, til Siglufjarðar, um Suðurlandsundirlendi til Vestmannaeyja. (ÞG: Þetta eru blýantsstrik). Það eru allt blýantsstrik frá sjónarmiði þeirra, sem enga lífsafkomumöguleika sjá fyrir landbúnaðinn. En vonandi taka fáir þetta tal alvarlega, enda væri það áhyggjuefni, ef svo væri.

Rökin, sem einkum eru færð gegn því, að Siglufjörður fái rafmagn frá Laxárvirkjuninni, eru þau, að enda þótt sú virkjun verði stækkuð, þá verði ekki nægileg orka fyrir hendi. En vill nú ekki hv. þm. Siglf. reikna með mér? Eftir hina fyrirhuguðu viðbót á Laxárstöðinni munu fást þar 6400 hestöfl, sem er sama og 4260 kr. Nú þarf að draga þar frá 10% fyrir orkutapi á línunni, svo að eftir eru 2830 kw. Ef línan er lögð eins og n. leggur til, þá mun rafmagnið frá Laxárstöðinni ná til 11000 manns. Það yrðu þá 348 wött a mann. Hér í Rvík munu vera 270 wött á mann, eða um 80 wöttum minna en áætlað er frá Laxá. Auk þessa er nú þegar 400 hestafla stöð á Siglufirði, sem mætti grípa til, ef þörf væri á.

Ég verð nú að segja fyrir mitt leyti, að fyrst Reykvíkingar láta sér nægja 270 wött, þá þykir mér ekki ósennilegt, að Norðlendingar láti sér nægja 348 fram yfir stríð, en þá er ákveðið að stækka Laxárvirkjunina á ný.

Deilan í þessu máli er um virkjun sem skipulagslið eða ekki. Hún er um stundarhagnað eins kaupstaðar eða hagnýtt skipulag fyrir framtíðina.

Hv. þm. Siglf. sagði, að n. hefði tekið ranga stefnu. En eftir að ég hef nú kynnt mér hugsunarhátt þessa hv. þm., þá veit ég, að n. er á réttri leið. Það er kunnugt, að n. hefur allt aðra skoðun á framtíð sveitanna en þessi hv. þm. Það er að vísu óþarfi að eyða orðum um það hér, hvort það væri einhver þjóðarblessun, ef bændurnir flosnuðu upp úr sveitunum. En þar sem þessu er haldið fram næstum daglega hér á hv. Alþ., þá kemst ég ekki hjá að minnast á það.

Það verður ekki hjá því komizt, að afstaða n. í raforkumálum sé þannig, að hagsmunir almennings eigi að ráða.