01.03.1943
Neðri deild: 68. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

51. mál, virkjun Fljótaár

Skúli Guðmundsson:

Í upphafi þessarar umr. sagði hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem er frsm. minni hl. fjhn., að hin fyrirhugaða virkjun Fljótaár fyrir Siglufjörð mundi falla vel inn í væntanlegt heildarkerfi rafvirkjunar í landinu. Það hefur ekki verið rætt. mikið um þetta, en ég vildi láta það koma fram, að é g tel þetta vafasamt. Eftir upplýsingum, sem fyrir liggja, er hætt við, að Fljótaá sé ekki meiri en svo, að nægja muni til raforkuframleiðslu fyrir Siglufjörð, og þó sennilega ekki nema fyrst um sinn, og þess vegna muni ekki koma til greina að veita rafmagni frá Fljótaárvirkjuninni til annarra landshluta, því að Siglufjörður muni ekki verða aflögufær af því rafmagni, heldur vanta rafmagn innan skamms, þó að Fljótaá verði virkjuð.

Ég mun ekki að svo stöddu ræða um það, sem hv. 11. landsk. sagði um þetta mál, vegna þess að því hefur verið rækilega svarað af 1. þm. Árn. En það voru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Siglf., sem ég vildi víkja að.

Hv. þm. Siglf. sagði, að virkjun Skeiðsfoss væri nauðsynlegur liður í heildarkerfinu. Eins og ég hef áður sagt, tel ég það vafasamt. Hv. þm. Siglf. viðurkenndi einnig, að stóru virkjanirnar væru ódýrari yfirleitt en þær smærri, og viðurkenndi líka, að fyrirhuguð landslína þyrfti að koma. Þrátt fyrir þetta telur hv. þm. Siglf. rétt að byggja við Fljótaá tiltölulega litla stöð. Hann lét þess getið í ræðu sinni, að þó Skeiðsfoss yrði virkjaður, þyrfti síðar að koma leiðsla til Siglufjarðar frá einhverju öðru orkuveri, sem ég held, að sé rétt, vegna þess að nú er mikill iðnaður á Siglufirði, sem þarf að nota rafmagn og má búast við, að fari vaxandi. Hv. þm. Siglf. taldi, að síldarverksmiðjurnar á Siglufirði þyrftu 1000 hestöfl. Það hefur einnig verið um það rætt, að nauðsyn væri á að upp kæmi herzlustöð fyrir síldarlýsi. NÚ hefur að vísu engu verið slegið föstu um það, hvar slíkt fyrirtæki ætti að vera. En þegar litið er til þess, að síldarverksmiðjurnar eru flestar og stærstar á Siglufirði, þá gæti maður látið sér detta í hug, að slík stöð yrði byggð þar. Í sambandi við annað mál var af háttv. þm. Siglf. áætlað, að slík stöð þyrfti 2–3 þús. hestöfl. Ef slík stöð yrði reist í framtíðinni á Siglufirði, er sýnt, að rafmagn frá Fljótaá mundi ekki duga bænum nema nú fyrst um sinn. Það er þess vegna rétt, að það mun þurfa að fá rafmagn frá öðru orkuveri síðar til Siglufjarðar, þótt Fljótaá verði virkjuð.

Í sambandi við þetta og álit meiri hl. fjhn. var þm. Siglf. með ýmsa samanburðarútreikninga um kostnað við virkjun Fljótaár annars vegar og hins vegar um að leiða rafmagn frá Laxárvirkjuninni og veita því til Siglufjarðar. Hann miðaði í þessum útreikningum öllum við það, að Siglufjarðarbær ætti að borga 4/5 kostnaðar við háspennulínu. Ég skal ekki fullyrða um, hvað rétt er í þessu, en mér þykir mjög vafasamt, að svo mikið af kostnaði við háspennulínu, sem lögð væri frá Akureyri til Siglufjarðar, ætti að skrifa á reikning Siglufjarðarbæjar. Ég býst við, a.m.k. þegar fram líða stundir, mundu margir aðrir en Siglufjörður fá rafmagn frá þeim línum, og þess vegna kæmi ekki svona mikill hluti þessa kostnaðar í hlut Siglufjarðarkaupstaðar. Og í þessu sambandi er það í raun og veru ekki rétt að taka annars vegar kostnað við virkjun Fljótaár og hins vegar kostnað við stækkun Laxárvirkjunarinnar og leiðslu þaðan, vegna þess að þó að Fljótaá verði virkjuð, þá er mjög líklegt, að reki að því, áður en langt líður, að það þurfi að leggja háspennulínu til Siglufjarðar frá Laxá eða öðru orkuveri. Þessi samanburður mundi því vera réttur, með því að taka annars vegar virkjun Fljótaár, ef í það yrði ráðizt að virkja hana, að viðbættri línu t.d. frá Laxá, og hins vegar að stækka Laxár stöðina og leggja linu þaðan. Þannig skilst mér þessi samanburður ætti að gerast. Ef það er rétt, sem ég held, að sé, og hv. þm. Siglf. einnig telur vera, að það mundi síðar þurfa línu frá Laxá til Siglufjarðar, jafnvel þó Fjótaá yrði virkjuð.

Háttv. þm. Siglf. byrjaði ræðu sína á að lýsa yfir, að hann teldi rétta stefnu í höfuðatriðum hjá mþn. í raforkumálum, eða rétta skoðun, sem hún héldi fram, að það ætti að byggja upp heildarraforkukerfi. En síðar í sömu ræðu vildi hann fullyrða, að mþn. væri á rangri braut í störfum sínum, og taldi þær línur, sem hún hefði rætt um, pólitískar háspennulínur o.s.frv. Ég get ekki séð gott samræmi í þessum málaflutningi.

Þá sagði háttv. þm. Siglf., að þó horfið yrði að því ráði að leggja háspennulínuna og ætla Siglufirði rafmagn frá Laxárvirkjuninni, eftir að sú stækkun hennar hefði farið fram, sem væntanlega kemst í framkvæmd nú á þessu ári, þá væri þar um að ræða aðeins 900 kw., sem hægt væri að láta frá Laxárstöðinni til Dalvíkur, Siglufjarðar, Hofsóss og Sauðárkróks. Það hefur verið á það bent, að þegar búið er að stækka Laxárstöðina, eins og talað er um, að gert verði á þessu ári, þá væri hægt að leiða rafmagn frá Laxá til Húsavíkur, Svalbarðseyrar, Akureyrar, Dalvíkur, Hjalteyrar, Sauðárkróks, Hofsóss og Siglufjarðar, sem nemi um 350 wöttum á mann á þessu svæði. Ég skal ekki segja um það, hve mikið orkutap verður við orkuflutning eftir þessari línu, en ég ætla að það sé ekki svo mikið, að orkan fari niður fyrir 300 wött á íbúa. M.ö.o., það yrði meiri raforka hlutfallslega eftir íbúatölu, sem þessir staðir gætu fengið, eftir að Laxárvirkjunin væri aukin, heldur en Reykvíkingar hafa nú. Þetta mun þó ekki duga til lengdar. Það hefur komið á daginn, að rafmagn hér í Rvík er orðið of lítið. Það hafa verið gerðar svo miklar kröfur til þess. En það sýnist ekki óhjákvæmilegt, að t.d. Akureyringar og Siglfirðingar noti rafmagn til að hita upp íbúðir sínar, meðan aðra vantar raforku til ljósa og suðu. Réttara væri að dreifa þessu um stærra svæði, þannig að fleiri gætu fengið rafmagn til ljósa og suðu.

Hv. þm. Ak. sagðist álíta, að Siglfirðingar gætu ekki beðið eftir því, að lína yrði lögð frá Laxárvirkjuninni, heldur yrðu þeir að fá rafmagn sem fyrst. En ég tel vafasamt, að þeim liggi meira á rafmagni en ýmsum öðrum. Það virðist koma fram sú skoðun hjá ýmsum mönnum hér, sem mér þykir dálitið einkennileg, að mönnum, sem búa á vissum stöðum, liggi miklu meira á því en öðrum, sem búa annars staðar, að fá þessi þægindi. Ég álít vafasamt, að þessi hugsunarháttur sé réttur. Siglfirðingum liggur á að fá rafmagn. En ég álit, að þeim liggi ekki. meira á rafmagni heldur en þeim, sem búa á Sauðárkróki, Dalvík og Hofsós, og þeim, sem búa í sveit á þessu svæði, sem vitanlega gætu fengið rafmagn frá þessari leiðslu. Ég álít alla landsmenn jafnréttháa í þessu efni. Við eigum ekki að skipta þjóðfélagsþegnunum niður í 1., 2. og 3. flokks menn í þessum efnum. Þar eiga allir að hafa sama rétt. og einum liggur ekki meira á að fá þessi þægindi en öðrum.

Það kom fram hjá hv. þm. Siglf., að hann taldi, að meiri hl. fjhn., eða öllu heldur mþn. í raforkumálum, hefði snúizt eitthvað í málinu um virkjun Andakílsár. Þetta er vitanlega hin mesta fjarstæða, því að mþn. hefur aldrei látið frá sér fara neitt um það, að hún teldi ekki geta komið til mála að virkja Andakílsá. Hitt er allt annað mál, þótt n. leggi á móti því, að frv., sem lagt var fram um það efni, verði samþ. óbreytt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Það er vitanlegt, að það kostar mjög mikið að koma rafmagni um landið, en þetta þarf að gerast. Og þegar um það er að ræða að leggja fram stórar fjárhæðir í virkjunar framkvæmdir, þá er nauðsyn á að verja fénu þannig, að það komi sem flestum að notum. Einmitt þess vegna leggjum við það til, meiri hl. n., að ríkið veiti ekki ábyrgð fyrir láni til virkjunar Fljótaár, heldur verði lögð á það áherzla að leggja háspennulinu frá Akureyri til Skagafjarðar og Siglufjarðar.