04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

51. mál, virkjun Fljótaár

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Það er út af þessari brtt., sem þessir þrír hv. þm. bera fram. Hún virðist vera nokkurs konar varaskeifa. Fyrst hv. þm. tókst ekki að vísa málinu frá við 2. umr. og drepa það þannig, þá virðast þeir nú ætla að reyna enn einú sinni að skjóta fleyg hér inn í, ef ske kynni, að það stoppaði málið. En þetta getur orðið mjög alvarlegt fyrir Siglufjarðarkaupstað, að skjóta þessu ákvæði hér inn. Hann hefur reiknað með því í öllum ráðstöfunum sínum og búizt við því að geta fengið ríkisábyrgð fyrir 6 millj. kr. láni. Og ef þessi till. væri samþ., breytir það öllum útreikningum bæjarins um málið. Þar að auki eykur þetta útgjöldin við virkjunina a.m.k. um 20 þús. kr. Það er sérstaklega athugandi nú, að bankarnir eru nú orðnir tregir á lánum, og menn eru almennt farnir að verða eitthvað óttaslegnir um það, að gífurlegt hrun sé fram undan, sem ég skal ekki segja, hvort er á rökum byggt, svo að erfitt er orðið að fá lán. Það getur orðið erfitt að fá 900 þús. kr. lán. Það getur sérstaklega orðið erfitt, ef virkjunarkostnaðurinn fer yfir 6 millj. kr. Og ég get ekki séð, hvað Alþ. getur séð sér í því að láta Siglufjarðarkaupstað leggja út í að byggja þetta mannvirki, þannig að Siglufjarðarkaupstaður eigi svo á hættu, að töf verði á því, þegar búið er að leggja út í það.

Ég álít mjög misráðið að koma með svona brtt. nú, og vænti þess því fastlega, að þessi brtt. verði felld.