04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

51. mál, virkjun Fljótaár

Ingólfur Jónsson:

Þessi brtt. á þskj. 489 er flutt til þess, að sú ábyrgðarheimild, sem hér er farið fram á, verði í samræmi við það, sem áður hefur verið gert hér á Alþ., þegar ábyrgðir hafa verið veittar af hálfu ríkisins.

Annars er einkennileg yfirlýsing hv. þm. Siglf. nú og ekki í samræmi við fyrri staðhæfingar hans um þetta mál. Því að hv. þm. munu allir muna, að þessi hv. þm. lýsti yfir, að enda þótt ríkisábyrgð fengist ekki, yrði samt virkjað þarna fyrir Siglufjörð, því að Siglfirðingar gætu fengið lán, þótt það yrði þeim að vísu óhagstæðara, án ríkisábyrgðar. Nú segir þessi sami hv. þm.: „Ef Siglufjörður fær ekki 100% ríkisábyrgð, má búast við, að hann eigi mjög erfitt með að fá 900 þús. kr. lán það, sem vantar á ábyrgðina. Nú fer mér að skiljast, að eitthvað sé bogið við málafærslu þessa hv. þm. í sambandi við þetta mál. Og ég hygg, að öllum þingheimi sé ljóst, að ef bærinn hefur treyst sér til þess að framkvæma þessa virkjun án ríkisábyrgðar og taka 6 millj. kr. lán án ríkisábyrgðar, þá ætti honum ekki að vera erfitt að fá 900 þús. kr. lán án ríkisábyrgðar, ef hann með þarf. Ég held því, að það sé sjálfsagt fyrir Alþ. að samþykkja þessa brtt. á þskj. 489, því að hún er aðeins í samræmi við það, sem gert hefur verið hér á Alþ. Og ég held, að yfirlýsing hv. þm. Siglf. undir umr. hér að undanförnu gildi það, að hv. þm. muni telja Siglufjarðarkaupstað borgið, hvað þessa virkjun snertir, enda þótt ábyrgðin sé ekki nema 85%.