04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

51. mál, virkjun Fljótaár

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. —Mér finnst satt að segja dálítið einkennilegt, hvernig hv. 1. flm. þessa máls tekur þessari sjálfsögðu brtt. okkar þremenninganna. Honum er sjálfsagt kunnugt um það, eins og okkur, að þetta hefur verið a.m.k. í mörgum tilfellum gert, að veita ekki ríkisábyrgð fyrir öllum stofnkostnaði slíkra fyrirtækja. T.d. í sambandi við Laxárvirkjunina fyrir Akureyri var ekki veitt ríkisábyrgð fyrir nema 80% stofnkostnaðar. Og ekki varð þess vart, að það hindraði Akureyri í þeirri framkvæmd. Mér virðist því sjálfsögð varúðarráðstöfun ríkisins að setja upp, að eitthvert áhættufé komi frá þeim, sem setja upp fyrirtækið og njóta þess, en ríkið gangi ekki í ábyrgð fyrir allri upphæðinni.

Það hefur verið bent á það af öðrum, í hve miklu ósamræmi málflutningur hv. þm. Siglf. er. Hann segir nú, að þessi litla takmörkun á ríkisábyrgðinni geti gert Siglufjarðarkaupstað ókleift að koma virkjuninni á, en hins vegar hefur hann áður sagt hér við umr., að þó ríkið ábyrgðist ekki einn einasta eyri fyrir þetta fyrirtæki, þá yrði virkjuninni samt komið á. Það má undarlegt heita, ef það er ekki hægt fyrir Siglufjarðarkaupstað að koma þessari virkjun upp, ef ríkið veitir ábyrgð fyrir láni til þess, að undanskildum 800–900 þús. kr. Hvar er áhugi Siglfirðinga fyrir þessu máli, ef bæjarbúar hafa ekki ráð með að afla 15% af því fé, sem til þess þarf að koma því í framkvæmd?

Hv. þm. Siglf. sagði, að það væri ljóst, að ríkið hlyti að hlaupa undir baggann, ef út af ber í þessu efni fyrir Siglufjarðarkaupstað. Stefna hans virðist vera sú, að ríkið eigi að bera alla ábyrgðina, en aðrir að reka fyrirtækið. Því var mjög illa tekið, þegar við lögðum til, að í staðinn fyrir að Siglufjarðarkaupstaður yrði studdur til að ráðast í sérstaka virkjun þarna, yrði það ríkið, sem sæi bænum fyrir rafmagni í sambandi við framkvæmdir, sem kæmu jafnframt öðrum að gagni, í nærliggjandi héruðum. Þessu var hafnað og því haldið fram, að eðlilegt væri, að Siglufjarðarbær annaðist framkvæmdina, en fengi stuðning til þess frá ríkinu. Það virðist vera svo, að þeir menn, sem í öðru orðinu halda því fram, að einstakir kaupstaðir og sveitarfélög eigi að hafa þetta með höndum, heimti þó af ríkinu, að það í raun og veru leggi fram allt fjármagnið og beri ábyrgð á öllu saman. Ég get ekki séð nokkurt samræmi í þessu.

Hv. 7. þm. Reykv. var að tala um, að það væri ótryggara fyrir ríkið að ábyrgjast 85% heldur en 100%. Það er náttúrlega svo mikil fjarstæða, að ekki þarf að eyða orðum að því, að veð ríkisins til tryggingar ábyrgðinni sé lakara, ef það ábyrgðist aðeins 85% af stofnkostnaðinum, heldur en ef það ábyrgist stofnkostnaðinn að öllu leyti. Þetta er alveg ný fjármálaspeki, sem ég held, að sízt sé viðeigandi að halda fram hér á hæstv. Alþ.