04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

51. mál, virkjun Fljótaár

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Það hefur komið fram í þessu máli áður, að þeir menn, sem í þéttbýlinu búa, vilja nota sér þá aðstöðu og vilja hrifsa til sin þau fríðindi, sem þéttbýlinu fylgja um afnot af rafmagni, án þess að láta aðra verða þess aðnjótandi. Þessi stefna dæmir sig sjálf. Sjónarmið þessara manna er ákaflega eindregið eiginhagsmunasjónarmið.

En í sambandi við þessa brtt., sem hér er fram komin, vildi ég mega spyrjast fyrir um nokkuð þessu viðkomandi. Það hefur verið gert hér ráð fyrir 6 millj. kr. ríkisábyrgð. En nú er mér tjáð, að þetta fyrirtæki muni kosta miklu meira. Eftir þessari brtt. á að hnýta aftan við frvgr., að ábyrgðin skuli þó ekki vera yfir 85% af stofnkostnaði við þetta fyrirtæki. Verður ekki ábyrgðin fyrir 6 millj. kr., enda þótt þessi breyt. verði gerð á frv.? Mér skilst, að ef stofnkostnaðurinn verður yfir 6 millj. kr., geti vel svo farið, þó að ríkisábyrgð verði ekki nema fyrir 85% stofnkostnaðar, að hún verði samt fyrir 6 millj. kr. Allur kostnaður verður áreiðanlega 15% hærri en 6 milljónir. Og vitanlega eiga Siglfirðingar strax að borga nokkurn hluta kostnaðarins, en ekki gera allt verkið fyrir lánsfé.

Annars finnst mér ákaflega skrýtið, ef stórt bæjarfélag, sem hefur mjög mikla möguleika til tekjuöflunar, getur ekki hugsað sér að leggja neitt fram sjálft af fé til þessa fyrirtækis. Þetta fyrirtæki virðist eiga að öllu leyti að leggjast á framtíðina, rétt eins og bæjarfélagið sjálft hafi ekki einn eyri í þetta að leggja nú þegar. Mér finnst það vera lágmarkskrafa, sem hægt sé að gera til slíkra manna sem Siglfirðinga, að þeir hafi einhverja fyrirhyggju og hafi einhvern vilja til þess að leggja eitthvað á sig sjálfir í þessu efni, heldur en bara að fá allt frá öðrum. En það eru að vísu margir menn í þjóðfélaginu nú, sem miklar kröfur gera til annarra.

Ég held, að Siglufjarðarbær ætti að gera meiri kröfur til sjálfs sín í þessu efni, en minni til annarra.