19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Finnur Jónsson:

Ég skal ekki tefja þessar umr. Ég skal aðeins út af því, sem hv. þm. Vestm. gat um, að verkfall mundi vera í aðsigi á Ísafirði, taka það fram, að ég veit ekki betur en það sé að mestu eða öllu leyti leyst, enda var það ekki verulegt, sem þar bar á milli. Hins vegar verð ég líka að upplýsa, að sú stöðuga hækkun dýrtíðarinnar, sem nú verður með hverjum mánuði, hlýtur að koma mjög alvarlega niður á þeim, sem eru ráðnir upp á hlut. Það er samið um fiskverðið fyrir sex mánuði, og á þeim tíma á það að standa óbreytt, og þegar dýrtið eykst, er óhjákvæmilegt, að hlutaskipamenn, sem fá enga verðlagsuppbót, komi og heimti kjörum sínum breytt til batnaðar, en af því virðist óhjákvæmilega leiða kaupdeilur strax í byrjun dýrtíðarinnar. Þó að ekki væri fyrir annað en þetta, virðist mikil ástæða til að stöðva dýrtíðarflóðið.

Þá má vera, að þyki hart aðgöngu að lögskipa að selja sama verk sama verði og gert var, áður en l. öðlast gildi, og af einum hv. þm. var bent á, að þetta kynni að verða til þess, að vélaviðgerðaverkstæði stöðvuðust. Ég veit ekki betur en að opinber álagning hjá þessum verkstæðum sé a.m.k. 60% fyrir verkstæðiskostnaði, skrifstofukostnaði og öðru slíku. Og þar sem vísitalan hefur ört hækkað undanfarna mánuði, hefur þessi kostnaður hækkað mjög ört og örar en ástæða virðist til, svo að ekki er líklegt, að það valdi ágreiningi við þessa atvinnurekendur, þó að þeir megi ekki hækka viðgerðirnar, meðan verið er að reyna að koma lagfæringu á þessi mál. Ég tel óhjákvæmilegt að sýna einhverja alvöru í þessu, en menn trúa ekki, að nein alvara sé í þeim, ef engar tilraunir sjást gerðar.

Ég tel, að þetta frv. sé ekki víðtækt, en það getur sýnt, að eigi að gera alvarlegar tilraunir og menn eigi að bíða á meðan og sjá, hvort ekki er hægt að koma einhverju viti að lessum málum.

Viðvíkjandi Alþýðusambandi Íslands, þá á ég sæti í stjórn þess, en ég veit ekki til, að nein yfirlýsing liggi fyrir um, að ekki verði um að ræða kröfur um grunnkaupshækkanir, en þar sem samningar félaganna gilda nær því án undantekningar fram yfir þann tíma, sem hér er um að ræða, má telja því nær útilokað, að tilraunir verði gerðar til grunnkaupshækkunar á þessum tíma nema þá hjá fáum félögum, sem enn hafa ekki fengið hækkun til samræmis við aðra.